Saga

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Snæfellsnesi tók til starfa 1. apríl 2006 en var formlega stofnað í október sama ár. Sambærileg setur má finna í öðrum landshlutum, en hvert um sig hefur sitt eigið sérsvið. Setrið er rannsóknarsetur Háskóla Íslands með starfssvæðið Snæfellsnes og Breiðafjörð að viðfangsefni og heyrir undir Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands.

Jón Einar Jónsson tók við stöðu forstöðumanns setursins vorið 2009 af Tómasi Grétari Gunnarssyni sem starfar nú sem forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ á Suðurlandi.

Rannsóknir á fuglum hafa verið aðal viðfangsefnið hingað til. Rannsóknir á æðarfugli hófust í ársbyrjun 2007 og hefur æður verið í aðalhlutverki hjá okkur síðan. Rannsóknir á kríu og ritu hófust um svipað leyti. Þá hefur verið fylgst með ungafjölda hjá brandönd í Andarkílsós.

Skipulagðar talningar á álftum hófust í nóvember 2008 í umsjón Unu Kristínar Pétursdóttur. Árið 2009 bættist við Stofnvistfræði dílaskarfs, sem Arnþór Garðarsson, prófessor emeritus við HÍ stýrir. B.S. verkefni um ritu var unnið sumarið 2009 af Hákoni Ásgeirssyni landverði í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli og fólk mun áfram telja rituhreiður á Snæfellsnesi næstu árin í samstarfi við Náttúrustofu Vesturlands. Tvö doktorsverkefni hafa verð unnin með aðkomu Rannsóknasetursins af Freydísi Vigfúsdóttur og Þórði Erni "Dotta" Kristjánssyni.

Sumarið 2010 vann Árni Ásgeirsson BS verkefni um lunda við Rannsóknasetrið. Hann varð svo starfsmaður setursins frá og með sumrinu 2011.

Haustið 2011 flutti Rannsóknasetrið úr Egilshúsi í núverandi húsnæði í Ráðhúsi Stykkishólms. Fastir starfsmenn eru tveir, en auk þeirra starfa nú tveir mastersnemar og einn doktorsnemi.  Einn eða fleiri sumarstarfsmenn hafa unnið við Rannsóknasetrið flest árin.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is