Sjóendur (Mergini) á Íslandi

 

Þar sem rannsóknir á æðarfugli eru lykil verkefni Rannsóknasetursins, eru tengslin við alþjóðlegt fræðasamfélag mest í gegnum alþjóðleg samstarfsnet líffræðinga sem rannsaka sömu eða náskyldar tegundir. Talsverð samskipti eru við Kanada, Bandaríkin og Noreg við vísindamenn sem rannsaka æðarfugl og skyldar tegundir.

Sjóandaráðstefnan í Reykjavík 2014

Haustið 2014 var ráðstefnan "International Seaduck Conference" haldin í fimmta sinn. Þarna hittust líffræðingar sem rannsaka undirættina Merginiae, sem nefnast sjóendur á íslensku. Hérlendis verpa sjö tegundir sjóanda, þ.e. æðarfugl, húsönd, hávella, hrafnsönd, straumönd, toppönd og gulönd. Grein birtist í Fuglum 2015, tímariti Fuglaverndar um sjóendur og málefni þeirra.

Ráðstefnan var fyrst haldin í Victoriu, Bresku Kólumbíu 2002 og hefur verið haldin þriðja hvert ár síðan þá. Önnur ráðstefnan var í Annapolis í Maryland 2005, sú þriðja í Quebec City í Kanada 2008 og sú fjórða í Seward, Alaska 2011. Fyrstu þrjár ráðstefnurnar voru helgaðar Norður-Ameríku og stýrt af Sea Duck Joint Venture (SDJV) sem eru samstarfshópur um verndun sjóandastofna í Norður-Ameríku.

Ráðstefnurnar voru einnig sóttar af líffræðingum frá Norðurlöndunum, Eystrasaltsríkjunum, V-Evrópu, Bretlandi og Rússlandi og fyrir vikið var fjórða ráðstefnan titluð sem alþjóðleg. Í Alaska 2011 var ákveðið að halda út fyrir Bandaríkin og Kanada í fyrsta sinn með ráðstefnuna 2014 og varð Reykjavík fyrir valinu sem fundarstaður. Í ráðstefnulok var farið í sérlega vel heppnaða vettvangsferð á Mývatn.

Sjóandaráðstefnan 2014 var haldin á Radisson Blu (Hótel Sögu) dagana 8.-12. september.  Rúmlega 140 manns sóttu ráðstefnuna, sem þótti takast afar vel. Hægt er að nálgast útdráttabók (abstracts) frá Reykjavík 2014 hér.

Finna má útdrætti allra ráðstefnanna hér.

Næsta Sjóandaráðstefna fer fram 6. til 12. febrúar 2017 í San Fransisco, Kaliforníu.

Allar frekari upplýsingar veitir Jón Einar Jónsson en auk hans voru Þorkell Lindberg Þórarinsson á Náttúrustofu Norðausturlands og Birna Gunnarsdóttir hjá Rannsóknaþjónustu Háskóla Íslands í undirbúningsnefndinni 2014.

Rannsóknir á sjóöndum á Íslandi

Lengstu og viðamestu rannsóknir á sjóöndum á Íslandi hófust á Mývatni á 8. áratug 20. aldar, á vegum Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatrn og halda þær áfram fram á þennan dag.

Aðkoma Rannsóknsetursins er fyrst og fremst í gegnum rannsóknir okkar á stofnvistfræði æðarfugls og merkingarnar á æðarkollunum í Rifi. Árið 2014 komum við inn í norska SEATRACK verkefnið til að rannsaka vetrarferðir æðarkollna og 2015 hófum við að merkja æðarkollur með litmerkjum.

Annað dæmi er verkefni Ævars Petersen og Ib Kraag Petersen, þar sem notaðir voru ljósritar til að finna vetrarstöðvar íslenskra hrafnsanda.

 

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is