Sjófuglar í netum

Frá því í febrúar 2007 hefur Rannsóknasetur HÍ á Snæfellsnesi í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands, Líffræðistofnun Háskólans og University of East Anglia unnið að rannsókn á stofnvistfræði æðarfugls: áhrif loftslagsbreytinga og gæða búsvæða á stofnbreytingar og stöðugleika nýtingar.

Samhliða þessu hefur setrið verið að safna saman sjófuglum sem hafa drukknað í netum grásleppuveiðimanna sem landa í Stykkishólmi.

Þeir fuglar sem berast í land eru merktir með föngunarstað og dagsetningu, síðan eru þeir krufnir og sýni tekin. Þessir fuglar eru uppspretta margs konar upplýsinga um ástand og fæðuval sjófugla ár hvert. Einnig er hægt að nýta þá til margs konar rannsókna, t.d. á sviði eiturefnavistfræði og erfðafræði. Loks skal þess getið að á annan tug merktra fugla var endurheimtur á þennan hátt 2007 og 2008.

Vorið 2009 bættist doktorsneminn Þórður Örn Krisjánsson í hóp starfsmanna Rannsóknaseturs Snæfellsness. Hann hefur áður unnið við æðarrannsóknir í Hvallátrum á Breiðafirði. Þórður vinnur oktorsverkefni sitt hérna fyrir vestan en rannsóknir hans snúa m.a. að því að meta fæðuval æðarfugls út frá krufningum á netadauðum fuglum sem safnast á tímabilinu 2006 til 2011, en litlar sem engar upplýsingar lágu fyrir um fæðu æðarfugls í Breiðarfirði. Mun hann bera fæðuval fuglanna saman milli ára ásamt því að bera upplýsingarnar saman við magn og útbreiðslu helstu fæðuflokka æðarfugls á sama tímabili með gögnum frá Hafrannsóknarstofnun. Skoðað verður hvort breytingar á fæðuvali fuglanna endurspegli sjávarhita og varpárangur æðarfugla í Breiðafirði á þessum tíma.

Söfnunin hefur farið fram með liðsinni hafnarvarðar Stykkisólms, Hrannars Péturssonar, en einnig er reynt að hafa beint samband við veiðileyfishafa í von um að samvinna verði til þess að meiru verði skilað af fugli sem drukknar í netum. Við vonumst til að geta með þessu móti fengið upplýsingar um “veiðistað” fuglanna beint frá veiðimönnum. Þegar talað er um “veiðistað” er  ekki verið að tala um nákvæma staðsetningu heldur t.d. að nefna eyjar eða sker í nágrenninu – fyrst og fremst að staðnum sé gefið nafn. Þessar upplýsingar gætu aðstoðað okkur með að sjá hvort að það sé mikill breytileiki í fæðuvali fuglanna eftir dreifingu þeirra um fjörðinn.

Ef þú hefur hug á að leggja okkur lið þá endilega hafðu samband við Jón Einar.

Fuglarnir hafa verið nýttir til kennslu og m.a. hefur teistan verið notuð í Dýrafræði við Háskóla Íslands.  Eins hefur fólk fengið að sjá krufningar á Vísindavökum og í heimsóknum í ráðhúsið, eins á myndinni fyrir neðan þar sem nemar í FSN eru heimsókn.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is