Thomas Holm Carlsen

Thomas Holm Carlsen frá Noregi kom til starfa við Rannsóknasetrið í September 2013 og var hér fram í jún í 2015. Hann var í 30% stöðu hjá okkur en starfaði 70% fyrir Bioforsk í Noregi.

Thomas starfar nú við NIBIO í Noregi en er áfram samstarfsmaður okkar í dúnverkefninu sem hann leiddi 2013-2015.

Verkefnið sem Thomas vinnur í samstarfi við okkur heitir "Eiginleikar æðardúns: samanburður á gæðum og eiginleikum milli landa og hreinsunaraðferða."

Framleiðnisjóður Landbúnaðarins og Æðarræktarfélag Íslands styrkja þetta verkefni.

Verkefnið er samstarfsverkefni Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Snæfellsnesi, Íslensks æðardúns ehf. Í Stykkishólmi, og Bioforsk í Noregi (Norska Landbúnaðar- og umhverfisrannsóknastofnunin). Verkefnisstjóri er Thomas Holm Carlsen hjá Bioforsk, en Jón Einar Jónsson og Erla Friðriksdóttir eru samstarfsaðilar.

Þrátt fyrir að eiginleikar æðardúns séu taldir einstakir hefur lítið verið gert til að mæla í hverju þeir felast eða hvernig megi mæla gæði æðardúns. Verkefnið núna mun bæta úr þessu.

Megin markmið okkar er að bæta skilning Íslendinga á eiginleikum æðardúns og hvernig hann er frábrugðinn hinum algenga gæsadún, og athuga hvort þessir eiginleikar æðardúns séu misjafnir milli landa. Fyrir liggja tilraunamælingar á fyllingu, samloðun og smásjárgerðar æðardúns, unnar árið 2013. Í þessu verkefni verður stigið næsta skref, aðferðafræði til að mæla eiginleika æðardúns verður full kláruð og gerður samanburður á dúnsýnum við stýrðar tilrauna aðstæður. Bornar verða saman hreinsunaraðferðir fyrir æðardún á sýnum af óhreinsuðum dún, flokkuðum eftir hreiðrum frá mismunandi æðarvörpum á Íslandi. Þá verða sömu eiginleikar æðardúns bornir saman milli Íslands, Grænlands, Kanada, Svalbarða, Noregs, Skotlands og Danmerkur, og verður leitað til samstarfsfólks okkar þar með beiðni um æðardún til rannsóknarinnar.

Notast verður við óhreinsaðan æðardún og leitast verður við að týna hvert hreiður í staka poka. Tilraunavinna verður unnin í Stykkishólmi. Þar verða prófaðar mismunandi aðferðir við að hreinsa og þvo æðardún, s.s. vélhreinsað og handhreinsað, eða ólík þvottaefni og hitunaraðferðir. Mælingar á dúnsýnum verða gerðar í Stykkishólmi, nema að leita þurfit í rafeindasmásjá til Reykjavíkur eða til Biforsk.

Þróaðar verða staðlaðar mælingar á eiginleikum æðardúns, sem verða notaðar til að bera saman dúngæði milli ára, landa og jafnvel nýta til að tengja við eiginleika æðarkollana sjálfra (líkamsástand, fjölda eggja í hreiðri, varp dagsetningu o.fl.) í vísindalegum rannsóknum. Hægt verður að bera saman vinnslu- og hreinsunaraðferðir í rannsóknastofu eða hjá dúnfyrirtækjunum sjálfum.

Í nóvember höfðu 17 sýni borist, þar af úr 10 æðarvörpum á Íslandi, auk sýna frá Danmörku (Christiansö og Saltholm), Noregi (Svalbarði, Trömsö, Rana og Selvar) og Færeyjum.

Skessuhorn fjallaði um verkefnið 6.  nóvember 2014.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is