Handritalestur - dagbækur á Ströndum

Mikið er til af persónulegum heimildum í handritasöfnum. Hér er í gangi dálítið tilraunaverkefni um uppskriftir á slíkum heimildum sem tengjast Ströndum. Öll sem vilja megið taka þátt í þessu uppskriftaverkefni, skjölin sem unnið er með eru aðgengileg á þessari síðu. Einnig getið þið haft samband við Rannsóknasetur HÍ á Ströndum - Þjóðfræðistofu í netfanginu jonjonsson@hi.is.

Best er að hafa tvo skjái opna þegar unnið er að uppskriftinni. Annan með myndum af handritinu sjálfu, en það væri líka hægt að prenta út nokkrar síður af því til að vinna með. Hinn með skjalinu sem skrifað er í sem er google-doc skjal sem margir geta unnið í á sama tíma.

Þið megið vinna að uppskriftinni hvar sem er í handritinu, ekki er nauðsynlegt að byrja fremst. Það er ekki ætlast til að þið skrifið upp stafrétt, heldur notið nútímastafsetningu. Ef þið getið ekki lesið einstök orð setjið þá þrípunkt ... í uppskriftina í staðinn fyrir ólæsilega orðið, næsti getur kannski leyst gátuna. Það æfist ótrúlega fljótt að lesa 19. aldar skrift, þótt það geti verið snúið til að byrja með. 

Verkefnið er samvinnuverkefni Rannsóknasetursins og Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns. Þið megið öll skoða afraksturinn og stöðu mála við uppskriftirnar hvenær sem er, en munið að þetta er allt í vinnslu ennþá. 
 

Sighvatur Borgfirðingur og dagbókin hans

Handrit Sighvatur

Verið er að skrifa upp hluta af dagbók Sighvatar Grímssonar Borgfirðings. Miðað er við árin 1869-1873, en þá bjó hann á Klúku í Bjarnarfirði. Þaðan flutti Sighvatur með fjölskyldu sína að Höfða í Dýrafirði og var þessi sískrifandi alþýðufræðimaður síðan kenndur við þann bæ. Skriftin hans Sighvatar er auðlæsileg miðað við 19. aldar skrift.  

Hér er tengill inn á google.doc skjal sem vinnan fer fram í:

Uppskrift á 5 árum í dagbók Sighvatar Grímssonar Borgfirðings

Hér eru tenglar inn á hvert ár af þeim sem við ætlum að skrifa upp í dagbókinni hans á vefnum handrit.is.

1869 - Dagbók Sighvatar Borgfirðings

1870 - Dagbók Sighvatar Borgfirðings

1871 - Dagbók Sighvatar Borgfirðings

1872 - Dagbók Sighvatar Borgfirðings

1873 - Dagbók Sighvatar Borgfirðings
  

Dagbók Jóns Jónssonar í Miðdalsgröf, Naustavík og víðar

Jón Jónsson (1795-1879) hélt dagbók frá ársbyrjun 1846 þangað til þremur dögum áður en hann dó vorið 1879. Dagbókin er óvenjuleg að því leyti að hún lýsir fátækt í sveitasamfélaginu á 19. öld sérstaklega vel. Jón er fyrst bóndi í Miðdalsgröf, síðar húsmaður í Naustavík og á hálfgerðum hrakningi á köflum á gamals aldri. 

Uppskrift á dagbók Jóns Jónssonar (google.doc skjal)

Tengill á dagbókina sjálfa á handrit.is er hér á eftir, en handritasafn Landsbókasafns Háskólabókasafns ljósmyndaði handritið sérstaklega fyrir þessa uppskriftarvinnu. Þeir sem vilja leggja hönd á plóg geta einnig fengið handritið á pdf-formi með því að senda skeyti á Rannsóknasetur HÍ á Ströndum. 

Dagbók Jóns Jónsson á handrit.is (myndir á handrit.is)

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is