Íslensk þjóðtrú

Tröllaskoðunarferð í KollafirðiEitt af lykilverkefnum Þjóðfræðistofu er fjölþætt verkefni sem snýst um rannsókn á íslenskri þjóðtrú og miðlun þekkingar um hana.

Unnið er að þessu verkefni með fjölbreyttum og ólíkum leiðum, s.s. fyrirlestrum, sögustundum, leiðsögn, kvöldvökum, ýmiskonar útgáfu, tímabundnum sýningum, námskeiðum og samstarfsverkefnum.

Verkefnið tengist einnig öðrum verkefnum á vegum Rannsóknasetursins, svo sem Vestfirsku þjóðfræðivefjunni, Hvítabjörnum á villigötum og Sögum af förufólki.

Þjóðtrúarkvöldvökur hafa verið haldnar árlega í mörg ár í samvinnu við Sauðfjársetur á Ströndum. Vinna að verkefninu birtist einnig í samstarfsverkefnum við námsmenn, eins og t.d. sýninguna Skessur sem éta karla sem Dagrún Ósk Jónsdóttir setti upp. 

 

Vestfirska þjóðtrúarfléttan

Háskóli ÍslandsÍ árslok 2018 fékkst jákvætt svar frá Uppbyggingarsjóði Vestfjarða við beiðni um framlag til verkefnisins Vestfirska þjóðtrúarfléttan. Þar er um að ræða viðamikið samstarfsverkefni þjóðfræðinga á Vestfjörðum og safna, setra og sýninga í fjórðungnum. Uppbyggingarsjóður fær bestu þakkir fyrir mikilvægt framlag sitt til verkefnisins sem fékk svo framhaldsstyrk fyrir árið 2020. 

Á árinu 2019 var m.a. unnið að námskeiðahaldi og mótun á námsefni, einnig samstarfsverkefni við Galdrasýningu á Ströndum um barnamenningarverkefni á sviði þjóðtrúar, þjóðtrúarkvöldvöku í samstarfi við Sauðfjársetur á Ströndum, auk þess sem kunnið var að úttekt á rannsóknum, miðlun og vinnu með þjóðtrú á Vestfjörðum síðustu áratugi. Ætlunin er að byggja á þeirri vinnu margvísleg samstarfsverkefni við söfn og sýningar og fleiri aðila í framhaldinu.

Árið 2019 hefur einnig verið unnið með þjóðtrú tengda náttúrunni, selum og ísbjörnum, vestfirskum vættum og vofum, auk þess sem þjóðtrú og menningarlandslag á Ströndum hefur verið rannsakað í viðamiklu verkefni á Ströndum með aðstoð þjóðsagnasafna og örnefnaskráa. Álagablettir, aftökustaðir, þjóðtrú og sagnir á Vestfjörðum hafa verið þar í öndvegi og fyrirlestrar haldnir um Vesttfirði, bæði sjálfstæðir og sem hluti af öðrum málþingum, m.a. á Suðureyri, Hnjóti í Örlygshöfn og á Ströndum. Sögugöngur með áherslu á þjóðtrú hafa einnig verið á dagskránni á Ströndum, í Reykhólasveit og Dölum, en þar er um að ræða samstarf við söfnin á Ströndum og í Dölum. 

 

Álfar og tröll og ósköpin öll ... 

Háskóli ÍslandsÍ mars 2019 stóð Fræðslumiðstöð Vestfjarða fyrir fjögurra kvölda (12 kennslustunda) námskeiði undir heitinu: Álfar og tröll og ósköpin öll: Íslensk þjóðtrú og vestfirskar vættir í samvinnu við Rannsóknasetur HÍ á Ströndum. Vel tókst til og var kennt í Hnyðju á Hólmavík og fjarkennt í gegnum netfundabúnað á Ísafjörð og einnig suður í Dali og til Reykjavíkur.

Kennarar: Jón Jónsson þjóðfræðingur hjá Rannsóknarsetri HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofu og Dagrún Ósk Jónsdóttir doktorsnemi í þjóðfræði og yfirnáttúrubarn hjá Náttúrubarnaskólanum.

Námskeiðslýsing: Spennandi námskeið þar sem fjallað er um þjóðsögur og þjóðtrú Íslendinga, fyrr og nú. Þar er margt skrítið og skemmtilegt að finna. Spjallað er um ýmsar vættir svo sem álfa og tröll, drauga, dverga og skrímsli en sérstök áhersla lögð á vestfirskar kynjaverur og vættir á námskeiðinu. Einnig er talað um náttúrufyrirbæri sem eru sveipuð dulúð og tengjast þjóðtrú, t.d. álagabletti, plöntur og steina, og einnig dýr eins og hvítabirni, seli og fugla. Þá er galdratrúin og sérstaða Vestfjarða í því samhengi skoðuð. Þjóðtrú nútímans er líka veitt athygli og hvernig hún hefur tekið breytingum í gegnum tíðina.

Sagt er frá söfnun og miðlun þjóðsagnaefnis og þjóðtrúarhugmyndum sem birtast í því. Einnig hvað þjóðtrúin og sögurnar geta sagt okkur um samfélagið sem þau tilheyra og líf fólks á þeim tíma sem þær voru skrifaðar. Á námskeiðinu eru gefnar góðar ábendingar um hvar má finna frekari fróðleik um þjóðsagnaarfinn.

Frábær leið til að fá góða yfirsýn yfir efnið á stuttum tíma!

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is