Rannsókna-, samstarfs- og miðlunarverkefni

Unnið er að ýmsum rannsóknar- og miðlunarverkefnum á sviði þjóðfræði á vegum Rannsóknaseturs HÍ á Ströndum - Þjóðfræðistofu.

Íslensk þjóðtrú er þar ofarlega á blaði, bæði miðlun og rannsóknir. Eins er unnið að rannsóknum varðandi sögur um förufólk fyrri alda, hagnýtingu þjóðfræðilegrar þekkingar og tengsl fræða og ferðaþjónustu, ímyndar og sjálfsmyndar. Sá menningararfur sem felst í ljósmyndum er til skoðunar í viðamiklu verkefni sem er á byrjunarreit og verið er að byggja upp vefkort um þjóðsagnaslóðir og sögustaði á Vestfjörðum.

Samstarf við listafólk, fræðimenn og menningarstofnanir á Ströndum og á landsvísu er líka ofarlega á verkefnalistanum.

Nánar má fræðast um helstu rannsóknasvið og rannsóknir undir flipunum hér til vinstri.  

 

Verkefni og rannsóknir námsmanna í tengslum við Rannsóknasetur HÍ á Ströndum - Þjóðfræðistofu: 

Dagrún Ósk Jónsdóttir MA í þjóðfræði vann á árunum 2016-2018 að nýsköpunarverkefni í samvinnu við Rannsóknasetur HÍ á Ströndum sem ber nafnið Náttúrubarnaskólinn, meðan hún var í MA-námi og eftir útskrift vorið 2018. Verkefnið snýst um hugmyndavinnu, uppbyggingu og þróun Náttúrubarnaskóla í tengslum við starfsemi Sauðfjárseturs á Ströndum, sem er viðurkennt safn og mikilvæg menningarstofnun í héraðinu. Verkefnið byggir á hugmynd um að nýta þjóðfræðilega og svæðisbundna þekkingu, umhverfi og menningarminjar í landslaginu, ásamt því að beita náttúrutúlkun og safnkennslufræðum við vandaða uppbyggingu menntatengdrar ferðaþjónustu. Verkefnið fékk styrk úr Nýsköpunarsjóði námsmanna 2016 og 2017 og hefur fengið stuðning víðar, m.a. frá Uppbyggingarsjóði Vestfjarða og Safnasjóði. Jón Jónsson hefur umsjón með verkefninu sem er unnið í samvinnu við Sauðfjársetur á Ströndum.

Dagrún Ósk Jónsdóttir hefur einnig unnið að miðlunarverkefni sem ber vinnutitilinn Mannát og feminismi sumarið 2018 í samvinnu við Rannsóknasetur HÍ á Ströndum með styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna. Umsjónarmaður með verkefninu er Rósa Þorsteinsdóttir.

Guðrún Gígja Jónsdóttir MA-nemi í hagnýtri menningarmiðlun og Agnes Jónsdóttir þjóðfræðinemi hafa sumarið 2018 unnið að nýsköpunarverkefni á vegum Rannsóknaseturs HÍ á Ströndum, m.a. með styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna. Verkefnið hefur titilinn Hólmavík - íbúabyggð og ferðamannastaður. Jón Jónsson hefur umsjón með verkefninu sem unnið er í samvinnu við sveitarfélagið Strandabyggð

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is