Sögur um förufólk

Hjá Rannsóknasetri HÍ á Ströndum hefur verið unnið að rannsóknarverkefni sem snýst um förufólk fyrri alda á Íslandi. Sjónarhornið er að skoða förumennskuna og gamla sveitasamfélagið í gegnum þjóðsögur og sagnir sem sagðar voru um förufólkið, en þær sýna glögglega viðhorf til þessa hóps. Jaðarsetning fólksins í sögnum er í brennidepli, en aðferðin einnig nýtt til að benda á samfélagslegar reglur og kerfi, skráð og óskráð, í kringum flakk, betl og gestakomur á Íslandi fyrr á öldum.

Útgáfustyrkur að upphæð 400 þús fékkst á árinu 2017 frá Miðstöð íslenskra bókmennta, til að gefa út bók um efnið í ritröðinni Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar 23. Jón Jónsson verkefnastjóri hjá Rannsóknasetri HÍ á Ströndum vann í framhaldi af því að ritun bókarinnar sem var gefin út haustið 2018 af Háskólaútgáfunni. Titill bókarinnar er: Á mörkum mennskunnar. Viðhorf til förufólks í sögnum og samfélagi

Jón Jónsson hefur áður unnið að rannsóknum á förumennsku og haldið fjölmarga fyrirlestra, birt greinar og skrifað meistaraprófsritgerð um efnið. Einnig gert útvarpsþætti um förufólkið með Rósu Þorsteinsdóttur þjóðfræðingi hjá Stofnun Árna Magnússonar sem voru endurfluttir sumarið 2018 á Rás 1 hjá Ríkisútvarpinu, en voru áður á dagskrá árin 2000 og 2003.  

Fyrir og eftir útgáfu bókarinnar hefur Jón einnig flutt erindi og fyrirlestra um efnið. 

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is