Starfsmenn

Núverandi starfsmenn: 

Jón Jónsson:
Þegar Rannsóknasetur HÍ á Ströndum - Þjóðfræðistofa var stofnað í september 2016 hóf Jón Jónsson þjóðfræðingur störf sem verkefnisstjóri hjá setrinu. Jón hafði áður starfað sem menningarfulltrúi Vestfjarða í tæpan áratug og rekið eigið fyrirtæki Sögusmiðjuna sem vann margvísleg verkefni á sviði miðlunar sögu og þjóðfræða. Jón kennir einnig námskeið um hagnýta þjóðfræði við Háskóla Íslands.

Eiríkur Valdimarsson: 
Árið 2019 var Eiríkur Valdimarsson þjóðfræðingur ráðinn starfsmaður í fullt starf við Rannsóknasetur HÍ á Ströndum, tímabundið til tveggja ára, til að sinna verkefni um skráningu menningararfs. Eiríkur var um tíma stundakennari í þjóðfræði við HÍ, og hefur m.a. tekið þátt í rannsóknarverkefnum um Sigurð Guðmundsson málara og siðinn að senda börn í sveit. Einnig hefur Eiríkur starfað hjá Þjóðminjasafni Íslands og Byggðasafni Skagfirðinga.

 

 
Gestafræðimenn hjá Rannsóknasetri HÍ á Ströndum:

Matthias Egeler:
Þýski fræðimaðurinn dr. Matthias Egeler var gestafræðimaður hjá Rannsóknasetri HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofu og dvaldi á Ströndum við rannsóknir hálft árið 2019 og er áfram í samvinnu við setrið um rannsóknir. Matthias starfar við rannsóknir hjá Stofnun um skandinavísk fræði og trúarbrögð hjá Ludwig-Maximilians háskólanum í München í Þýskalandi.

Á Ströndum vann Matthias að rannsóknum fyrir ritun bókar um samspil landslags, trúarbragða og hins yfirnáttúrulega. Viðfangsefni bókarinnar er hinn óvenju ríkulegi menningararfur Strandamanna sem felst í örnefnum og sögum tengdum þeim. Margir staðir eru t.d. tengdir Guðmundi biskup góða og margvíslegum yfirnáttúrulegum verum og vættum. Út frá landslaginu sjálfu reynir Matthias að skilja betur hvernig hið yfirnáttúrulega og hið heilaga er tengt landinu. Ætlunin er að væntanleg bók kynni þennan magnaða efnivið betur og hafi fræðilegt gildi jafnt á sviði trúarbragðafræða, þjóðfræði og örnefnarannsókna.
 

Fyrri tímabundnar ráðningar:

Dagrún Ósk Jónsdóttir: 
Haustið 2019 og út janúar 2020 var doktorsneminn og þjóðfræðingurinn Dagrún Ósk starfsmaður hjá Rannsóknasetrinu. Hún var ráðin í tímabundna stöðu við verkefnið Vestfiskra þjóðtrúarfléttan sem nýtur stuðnings Uppbyggingarsjóðs Vestfjarða. Dagrún hefur áður unnið með Rannsóknasetrinu að eigin nýsköpunar- og miðlunarverkefnum sem setrið hefur tekið þátt í sem samstarfsaðili.

Guðlaug Guðmunda Ingibjörg Bergsveinsdóttir:
Haustið 2019 og út apríl 2020 var Guðlaug Bergsveinsdóttir þjóðfræðingur (BA) ráðin í tímabundna stöðu við verkefnið Vestfirska þjóðtrúarfléttan sem nýtur stuðnings Uppbyggingarsjóðs Vestfjarða. Íslensk þjóðtrú var rannsóknarefnið. Guðlaug er úr Reykhólasveit og hefur m.a. verið framkvæmdastjóri Össuseturs Íslands og rannsakað forystufé frá þjóðfræðilegu sjónarhorni.

Guðrún Gígja Jónsdóttir:
Guðrún Gígja Jónsdóttir, MA-nemi í hagnýtri menningarmiðlun, vann hjá Rannsóknasetri HÍ á Ströndum júní-september 2018, að hluta með styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna. Verkefnið hefur titilinn Hólmavík - íbúabyggð og ferðamannastaður og hafði Jón Jónsson umsjón með verkefninu. Það var unnið er í samvinnu við sveitarfélagið Strandabyggð.

Agnes Jónsdóttir:
Agnes Jónsdóttir,
BA-nemi í þjóðfræði vann einnig júní-september 2018 að nýsköpunarverkefninu Hólmavík - íbúabyggð og ferðamannastaður, á vegum Rannsóknaseturs HÍ á Ströndum, m.a. með styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is