Um Rannsóknasetrið á Ströndum

HólmavíkRannsóknasetur HÍ á Ströndum - Þjóðfræðistofa var stofnað í september 2016 og Jón Jónsson þjóðfræðingur hóf þá störf sem verkefnisstjóri hjá setrinu. Jón hafði áður starfað sem menningarfulltrúi Vestfjarða í tæpan áratug og rekið eigin fyrirtæki Sögusmiðjuna sem vann margvísleg verkefni á sviði miðlunar sögu og þjóðfræða.

Rannsóknir í þjóðfræði eru í öndvegi hjá setrinu og sérstök áhersla á miðlun og hagnýtingu þjóðfræðilegrar þekkingar. Aðsetur rannsóknasetursins er í Þróunarsetrinu á Hólmavík. 

Með samningi mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands frá byrjun ársins 2016 var sett af stað vinna við að greina tækifæri og leiðir við að koma rannsóknasetrinu á fót. Áður hafði Strandagaldur staðið fyrir rekstur Þjóðfræðistofu á Hólmavík frá árinu 2008, en starfsemi hennar hafði lagst af. Á grunni þessarar vinnu varð úr að ráðuneytið fól Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands að hefja starfsemi þessa nýja rannsóknaseturs, í góðri samvinnu við heimamenn. Að hluta til er byggt á þeim góða grunni sem áður hefur verið lagður með starfsemi Þjóðfræðistofu Strandagaldurs.

Facebook-síðu setursins má finna undir þessum tengli

Rannsóknarsetrið á Ströndum er tilbúið í margvísleg samvinnuverkefni sem tengjast rannsóknum, kennslu og miðlun. Þetta á bæði við um þjóðfræðinga og þjóðfræðinema hér á landi og erlendis, en einnig fræðimenn á öðrum sviðum þar sem nálgunin er þverfagleg. Þeir sem hafa hugmynd um samvinnu eru hvattir til að hika ekki við að hafa samband við Jón Jónsson - jonjonsson@hi.is.

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is