Verkefni um skráningu menningararfs

Háskóli ÍslandsHaustið 2018 var sótt um styrk til Byggðaáætlunar til að koma á laggirnar fjarvinnslustöð á sviði þjóðfræði á Hólmavík í tengslum við Rannsóknasetur HÍ á Ströndum.

Jákvætt svar barst í lok ársins um styrk að upphæð samtals 18 milljónir til þriggja ára og er úthlutunin í tengslum við Byggðaáætlun 2018-2024. Byggðastofnun er tengiliður ríkisins vegna verkefnisins.

Eiríkur Valdimarsson þjóðfræðingur var árið 2019 ráðinn starfsmaður í fullt starf við Rannsóknasetrið til að sinna þessu verkefni. Auk þess eru fleiri ráðnir í hlutastörf við einstaka verkþætti.

Samstarf er við þjóðmenningarstofnanir á landsvísu og söfn í héraðinu og er þegar búið að koma einstökum verkefnum af stað.

Innan vébanda verkefnisins er unnið að skráningu á menningararfi og margvíslegum verkefnum sem snúast um að koma honum á rafrænt og aðgengilegt form. Verkefnin eru flest á landsvísu, en leitast er við að hafa einnig í gangi verkefni sem snúa sérstaklega að Ströndum. Bæði er um að ræða þátttöku í viðamiklum skráningarverkefnum sem þegar voru í gangi og ný verkefno.

 

Myndin hér efst á síðunni er frá undirritun samninga á Sauðárkróki og fengin á vef Byggðastofnunar. Lengst til hægri á myndinni er Vilhelm Vilhelmsson hjá Rannsóknasetri HÍ á Norðurlandi vestra og Jón Jónsson hjá Rannsóknasetri HÍ á Ströndum við hlið hans, báðir kampakátir með sín framlög, en alls fengu 4 verkefni stuðning. Á neðri myndinni flytur Eiríkur Valdimarsson erindi um rannsóknir sínar.

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is