Viðburðir

2018:

Þar sem rassinn hvílir: Þjóðfræði heimilisins

Þjóðfræðinemar á málþingi

Opið málþing um þjóðfræði heimilisins var haldið miðvikudaginn 28. febrúar á Galdrasýningunni á Hólmavík. Fyrirlesarar voru meistaranemar í þjóðfræði í námskeiðinu Hagnýt þjóðfræði sem voru í námslotu á Ströndum. Jón Jónsson var kynnir og stjórnandi á málþinginu. Fyrirlesarar voru: 

Agnes Jónsdóttir: „Hér er ró og hér er friður …“

Baðherbergið hefur verið mikilvægt rými innan veggja hins íslenska heimilis frá því að tími torfbæjanna rann sitt skeið. Þar sinna menn og konur frumþörfum sínum, en það er ekki það eina sem þau gera þar – hvað er það sem á sér stað innan þessara veggja og hvers vegna það svona mikið einkamál?

Dagný Davíðsdóttir: Ég var að hugs’um að far’úr buxum.

Vinsældir kósíkvölda hafa gjarnan dýpri tilgangi en einungis að seðja hungur í sælgæti og góða ræmu. Margir halda þau reglulega með ákveðnum siðum og venjum sem alltaf er farið eftir. Viðburðurinn á sér einnig tímaramma og staðsetningu ásamt nokkrum lykilhlutum sem gera þau að því sem þau eru. Fyrir mörgum er þetta mikilvægasti tími vikunnar.

Gunnar Óli Dagmararson: Þetta er herbergið mitt. Um einkarými heimilisins, tómstundir og iðju.

Í fyrirlestri mínum ætla ég að velta fyrir mér gildi þess að eiga sér einkarými og miða það við kenningar fræðimanna í þjóðfræði um heimilið, rými og hópa. Ég mun taka dæmi úr eigin lífi og koma af stað umræðu með gestum málþingsins um einkarými heimilisins.

Guðrún Gígja Jónsdóttir: Hver á að elda í kvöld?

Matarmenning er stór hluti að lífi okkar, en án matar væri lítið um líf. Eldhúsið er staðurinn þar sem galdrarnir fara fram og er það mismunandi eftir því hver eldar og fyrir hvern og af hvaða tilefni! Matur og viðburðir eru mjög tengdir líkt og matarboð þar sem oftast er boðið vinum og vandamönnum í mat inn á heimilinu.

Sigrún Sigvaldadóttir: Bækur á heimilum landsmanna

Íslenska þjóðin hefur ávallt verið talin mikil bókaþjóð. Bækur hafa verið stolt eigenda sinna og prýtt heimili þeirra í gegnum aldirnar. Það verður því áhugavert að skoða aðeins hverskonar bækur hafa verið til á heimilum og hvernig þær hafa oft á tíðum gagnast á margskonar hátt.

Dagrún Ósk Jónsdóttir: „Í herberginu hennar var opin gátt til helvítis“

Það er oft talað um að það sé reimt í húsum, við fáum einhverja ákveðna tilfinningu þegar við löbbum inn í þau, þeim fylgja allskonar minningar og sögur, sannar eða ekki, og allskonar draugar fortíðarinnar. Suma gesti viljum við alls ekki hafa heima hjá okkur og getur verið erfitt að losna við. Hvernig bregst maður við ósýnilegri innrás á heimilið sem á að vera okkar griðarstaður?

Alice Bower: „Í hömrum þessum var hellir hennar, þar fór hún inn með hann“: Um heimilis- og matarhætti trölla, huldufólks og dverga

Oft er sagt að fólk geri hús að heimili. En sköpun heimilis getur líka átt sér stað í þúfum, í hellum og í dvergasteinum. Þar búa þjóðsagnaverur sem elda, halda matarboð, sofa -ekki ósjaldan hjá mennskum mönnum- og skemmta sér um kvöldið með vín og vist og hljóðfæraslátt. Í erindinu verður lagt út af völdum dæmum úr íslenskum þjóðsagnasöfnum til að draga fram einkenni heimilishátta trölla, álfa og dverga. Einnig verður grafist fyrir um samband þessara lýsinga og viðhorfa sagnamanna til náttúrunnar.

Málþingið var haldið af Rannsóknasetri HÍ á Ströndum í samvinnu við Þjóðfræði við Háskóla Íslands, Strandagaldur og Fjölmóð - fróðskaparfélag á Ströndum. 

 

2017:

Rannsóknaþing Vestfjarða

Þann 7. desember 2017 var Rannsóknaþing Vestfjarða haldið á Ísafirði. Jón Jónsson verkefnastjóri hjá Rannsóknasetri HÍ á Ströndum tók þátt í þinginu og kynnti starfsemi setursins. Fjörlegar umræður voru um rannsóknasamstarf á Vestfjörðum og hvernig mætti efla það, auka samvinnu og kynna betur þau viðfangsefni sem rannsóknastofnanir væru að fást við. Þinginu var slúttað með því að hópurinn fór saman í mat á Tjöruhúsinu.

 

Landsbyggðarráðstefna í Borgarnesi: Borgarfjarðarbrúin - hópar og heimsmynd

Laugardaginn 28. maí var haldin heilmikil ráðstefna í Borgarnesi á vegum Félags þjóðfræðinga á Íslandi í samvinnu við Safnahús Borgarfjarðar og Rannsóknasetur HÍ á Ströndum - Þjóðfræðistofu. 

 

Stjórn Fjölmóðs

Fjölmóður - fróðskaparfélag á Ströndum stofnað

Á sumardaginn fyrsta 2017 var stofnað fræðafélag á Ströndum sem hlaut nafnið Fjölmóður - fróðskaparfélag á Ströndum. Því er ætlað að vera vettvangur fyrir margvísleg samstarfsverkefni fræðifólks og menningarstofnana á Ströndum í framtíðinni. Það var Rannsóknasetur HÍ á Ströndum - Þjóðfræðistofa sem stóð fyrir stofnun félagsins. 

 

Málþing um menningartengda ferðaþjónustu

Málþing var haldið fimmtudaginn 23. febrúar á Restaurant Galdri á Hólmavík og stóð frá 12:10-15:00. Þar leiddu Strandamenn og nemendur í hagnýtri menningarmiðlun saman hesta sína og sögðu frá verkefnum sínum. 

 

Heimsókn háskólanema í Hagnýtri menningarmiðlun

Nemendur í hagnýtri menningarmiðlun komu í heimsókn á Strandir 22.-24. febrúar 2017 og stóð Rannsóknasetur HÍ á Ströndum - Þjóðfræðistofa fyrir móttöku hópsins í samvinnu við Strandagaldur og Sauðfjársetur á Ströndum ses. Heimsóknin var hluti af námskeiðinu Menningartengd ferðaþjónusta og voru heimsóknir og skoðunarferðir á söfn, sýningar og sögustaði á dagskránni, málþing um menningartengda ferðaþjónustu, fyrirlestar og fundir.

 

2016:

Súpufundir á Ströndum 

Veturinn 2016-2017 standa Rannsóknasetur HÍ á Ströndum - Þjóðfræðistofa og Þróunarsetrið á Hólmavík fyrir súpufundum á Ströndum. Þar er sagt frá fyrirtækjum og félagsstarfi sem tengist svæðinu, vísindum og verkefnum, fræðum og fróðleik. Fundirnir eru haldnir í samvinnu við veitingastaði í héraðinu. Jón Jónsson þjóðfræðingur hefur umsjón með verkefninu.

Föstudaginn 9. des. 2016, hádegisfundur á Restaurant Galdri kl. 12:10

Súpufundur á Restaurant GaldriSúpufundur var haldinn á Restaurant Galdri á Hólmavík föstudaginn 9. desember. Að þessu sinni var það Skúli Gautason, nýráðinn menningarfulltrúi hjá Fjórðungssambandi Vestfirðinga, sem sagði frá Uppbyggingarsjóði Vestfjarða sem er hluti af Sóknaráætlun Vestfjarða. Nú hefur nýlega verið auglýst eftir umsóknum í sjóðinn fyrir árið 2017 og rennur umsóknarfrestur út 9. janúar næstkomandi.

Skúli hélt einnig örnámskeið  í gerð styrkumsókna á fundinum og á boðstólum var dýrindis kjötsúpa á sérlegu tilboðsverði fyrir gesti fundarins á Restaurant Galdri.

Nánari upplýsingar um Uppbyggingarsjóð Vestfjarða og rafrænt umsóknareyðublað má finna á þessari vefsíðu og hér má nálgast leiðbeiningar um gerð styrkumsókna sem gagnast vel við umsóknagerð í þennan sjóð og raunar aðra líka.

Föstudaginn 21. okt. 2016, hádegisfundur á Café Riis kl. 12:10

Eyjólfur Magnússon frá Jarðvísindastofnun Háskólans kom í heimsókn með erindið: Landið undir Drangajökli og þróun jökulsins frá 1946. Eyjólfur er innfæddur Strandamaður, alinn upp á Krossnesi í Árneshreppi með útsýni á Drangajökul úr heimahögunum. Hann er jarðeðlisfræðingur að mennt, lauk B.S. og meistaraprófgráðu frá Háskóla Íslands og doktorsprófgráðu frá Háskólanum í Innsbruck í Austurríki. Rannsóknir hans hafa að mestu tengst íslenskum jöklum og á síðustu árum hefur talverður hluti þeirra snúið að Drangajökli.

Í erindi sínu sagði Eyjólfur frá kortlagningu á landinu undir Drangajökli en landið sem hann þekur var mælt með íssjá (ratsjá sérhæfð til mælinga á jökli) sem dregin var um 600 km eftir yfirborði jöklsins í lok mars 2014. Út frá þessum mælingum hefur verið unnið eitt nákvæmasta botnhæðarkort sem til er af íslenskum jökli, sem og kort af jökulþykktinni. Einnig var greint frá því hvernig jökullinn hefur þróast frá 1946 út frá 9 hæðarkortum, gerð út frá loftmyndum, leisimælingum úr flugvél og gervihnattaljósmyndum.

Samantekið sýna þessi gögn að rúmmál Drangajökuls hefur minnkað um ~1/6, úr ~18 km3 haustið 1946 í ~15 km3 haustið 2014. Á sama tíma hefur flatarmál jökulsins minnkað úr 161 km2 í 143 km2. Breytingarnar eru mun hægari á vesturhluta jöksins en á austurparti hans. Að jafnaði hefur árleg rýrnun vesturhluta jökulsins frá 1946 svarað til ~15 cm þykks vatnslags jafndreift yfir þann hluta jökulsins. Líklega hefur engin jökull á Íslandi verið eins nærri jafnvægi síðustu 70 ár og vesturhluti Drangajökuls. Rýrnun austurhluta Drangajökuls hefur að jafnaði verið um þrefalt hraðari en vesturhlutans. Þróun austurhluta jökulsins svipar mun meira til þróunar annara jökla á Íslandi síðustu 70 ár.

Rannsóknirnar sem Eyjólfur sagði frá hefur hann unnið að í samstarfi við Joaquín M. C. Belart, Finn Pálsson, Leif Anderson, Ágúst Þ. Gunnlaugsson og Áslaugu Geirsdóttur á Jarðvísindastofnun Háskólans, Philippe Crochet og Hálfdán Ágústsson á Veðurstofu Íslands og Etienne Berthier við Paul Sabatier Háskólann í Toulouse í Frakklandi. Rannsóknirnar voru fjármagnaðar af Rannís sem hluti af öndvegisverkefninu ANATILS og af TRI sem hluti af Samnorræna öndvegissetrinu SVALI.

 

Nemendafélagið ÞjóðbrókÁlagabletta- og tröllaskoðunarferð í Kollafirði 

Gönguferð með leiðsögn í Kollafirði á Ströndum með þjóðfræðinemum við Háskóla Íslands, en nemendafélagið Þjóðbrók var í haustferð á Ströndum, þann 8. okt. 2016.

Litið við í Kollafjarðarneskirkju, fræðst um landnámsmanninn Kolla og álögin á firðinum, tröllin í Drangavík heimsótt, gengið fyrir Forvaða, horft yfir að Broddanesi og sagt frá þjóðlífslýsingum og bókum Guðbjargar Jónsdóttur sem þar bjó; Gamlar glæðar og Við sólarlag, lesið í menningarlandslagið við margvíslegar rústir í Hlíð og álagabletturinn Kastalinn skoðaður.  

 

Leyndardómar fjörunnar, þjóðtrú, ótti og óhugnaður

Þjóðtrúarkvöldvaka í samvinnu við Sauðfjársetur á Ströndum, haldin í Sævangi þann 10. sept. 2016. Fyrirlesarar voru Jón Jónsson, Kristinn H.M. Schram og Dagrún Ósk Jónsdóttir. Arnar Snæberg Jónsson sá um tónlistaratriði og Sauðfjársetrið hafði dulmagnað kvöldkaffi á boðstólum. Fullt hús í Sævangi og vel heppnaður viðburður.

Eftirfarandi erindi voru flutt:

Dagrún Ósk Jónsdóttir, þjóðfræðingur: Ógnvaldur í undirdjúpunum: Hryllileg samskipti sela og manna.
Kristinn Schram, þjóðfræðingur: Líf og dauði í flæðarmálinu: Þjóðfræði rekafjörunnar.
Jón Jónsson, þjóðfræðingur: Ísbirnir éta ekki óléttar konur!

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is