Viðburðir og verkefni 2017

2017:

Rannsóknaþing Vestfjarða

Þann 7. desember 2017 var Rannsóknaþing Vestfjarða haldið á Ísafirði. Jón Jónsson verkefnastjóri hjá Rannsóknasetri HÍ á Ströndum tók þátt í þinginu og kynnti starfsemi setursins í stuttu erindi.

Fjörlegar umræður voru um rannsóknasamstarf á Vestfjörðum og hvernig mætti efla það, auka samvinnu og kynna betur þau viðfangsefni sem rannsóknastofnanir væru að fást við. Þinginu var slúttað með því að hópurinn fór saman í mat á Tjöruhúsinu.
 

Nýsköpunarverkefnið Náttúrubarnaskólinn

Háskóli ÍslandsSumarið 2017 nýtti Dagrún Ósk Jónsdóttir meistaranemi í þjóðfræði sér aðstöðuna hjá Rannsóknasetri HÍ á Ströndum við vinnu að nýsköpunarverkefninu Náttúrubarnaskólinn. Verkefnið sem er styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna er unnið í samvinnu við Sauðfjársetur á Ströndum og Rannsóknasetrið og er Jón Jónsson umsjónarmaður með því.

Innan vébanda verkefnisins hafa verið gerðar fjölmargar tilraunir með námskeiðahald, safnkennslu, miðlun þjóðfræða og náttúrutúlkun, haldin náttúrubarnahátíð, haldin leikjanámskeið, unnið að því að koma skapandi sumarstörfum fyrir unglinga á laggirnar í samvinnu við Strandabyggð og margt fleira. 
 

Sögur að norðan

Rannsóknasetrið og Grunnskólinn á Hólmavík tóku haustið 2016 þátt í norrænu samstarfsverkefni sem heitir Sögur að norðan með fræðimönnum hjá ReykjavíkurAkademíunni. Framhald er fyrirhugað á þeirri samvinnu. 
 

Landsbyggðarráðstefna í Borgarnesi: Borgarfjarðarbrúin - hópar og heimsmynd

Háskóli ÍslandsLaugardaginn 28. maí var haldin heilmikil ráðstefna í Borgarnesi á vegum Félags þjóðfræðinga á Íslandi í samvinnu við Safnahús Borgarfjarðar og Rannsóknasetur HÍ á Ströndum - Þjóðfræðistofu. Jón Jónsson stýrði annarri málstofunni á ráðstefnunni sem var hin skemmtilegasta, blanda af fróðleik, gönguferð, veislumáltíðum á Landnámssetrinu og skemmtun.

Dagskráin var svohljóðandi: 

10.50 –11.00 Skráning og afhending gagna (Safnahús Borgarfjarðar)

11.00 –12.00 Æskan sem hópur í tíma og rúmi – listrænt sjónarhorn á málefnið:

  • Guðrún Jónsdóttir forstöðumaður Safnahúss Borgarfjarðar fjallar um hugmyndafræðina að baki sýningunni Börn í 100 ár í hönnun Snorra Freys Hilmarssonar.

12.00–13.00 Hádegisverður á Landnámssetrinu.

13.00–13.15 Setning ráðstefnunnar (Félagsheimilið Óðal)
Þórunn Kjartansdóttir formaður Félags þjóðfræðinga á Íslandi

13.15–14.40 Málstofa 1

  • Ásdís Haraldsdóttir: “Maður fer bara inn í þennan töfraheim“ : Leitarmenn á Álfthreppingaafrétti á Mýrum.
  • Dýrfinna Guðmundsdóttir Lengi býr að fyrstu gerð : Hvernig upplifa höfuðborgarbúar af landsbyggðinni upprunastað sinn og borgarsamfélagið.
  • Eva Þórdís Ebenezersdóttir: Hópur fatlaðs fólks, hópur já … eða er það ekki
  • Rósa Þorsteinsdóttir: Hópar af heimildarfólki, skrásetjurum og þjóðsagnasöfnurum.

14.40–15.00 Kaffihlé

15.00–16.40 Málstofa 2

  • Pétur Húni Björnsson: Hver á þessa brú og hvert liggur hún?
  • Katla Kjartansdóttir: Þverþjóðlegir þræðir í húsi þjóðmenningar
  • Ríkey Guðmundsdóttir Eydal: Sviðslist og auðmagn tískubloggara á Íslandi
  • Kristinn Schram: Bráðnandi ís og fljótandi sjálfsmyndir: Hreyfanlegir hópar í vestnorðri.

16.50–18.10 Rölt um sögu Borgarness með Heiðari Lind Hanssyni.

18.15–19.45 Hanastél heima hjá þjóðfræðingi. Léttar veitingar í boði Félags þjóðfræðinga á Íslandi. Karlakórinn Heiðbjört skemmtir.

20.00–22.00 Kvöldverður á Landnámssetri Íslands

Stjórn Fjölmóðs

Fjölmóður - fróðskaparfélag á Ströndum stofnað

Á sumardaginn fyrsta 2017 var stofnað fræðafélag á Ströndum sem hlaut nafnið Fjölmóður - fróðskaparfélag á Ströndum. Því er ætlað að vera vettvangur fyrir margvísleg samstarfsverkefni fræðifólks og menningarstofnana á Ströndum í framtíðinni. Það var Rannsóknasetur HÍ á Ströndum - Þjóðfræðistofa sem stóð fyrir stofnun félagsins, ásamt Sauðfjársetri á Ströndum. 
 

Málþing um menningartengda ferðaþjónustu

Málþing var haldið fimmtudaginn 23. febrúar á Restaurant Galdri á Hólmavík og stóð frá 12:10-15:00. Þar leiddu Strandamenn og nemendur í hagnýtri menningarmiðlun saman hesta sína og sögðu frá verkefnum sínum.
  

Heimsókn háskólanema í Hagnýtri menningarmiðlun

Nemendur í hagnýtri menningarmiðlun komu í heimsókn á Strandir 22.-24. febrúar 2017 og stóð Rannsóknasetur HÍ á Ströndum - Þjóðfræðistofa fyrir móttöku hópsins í samvinnu við Strandagaldur og Sauðfjársetur á Ströndum ses. Heimsóknin var hluti af námskeiðinu Menningartengd ferðaþjónusta og voru heimsóknir og skoðunarferðir á söfn, sýningar og sögustaði á dagskránni, málþing um menningartengda ferðaþjónustu, fyrirlestar og fundir. Sumarliði Ísleifsson sagnfræðingur leiddi hópinn.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is