Viðburðir og verkefni 2018

2018:

Lítil sögusýning um Strandir 1918

Haustið 2018 var sett upp lítil sérsýning í kaffistofunni Kaffi Kind á Sauðfjársetri á Ströndum sem ber yfirskrifina Strandir 1918. Rannsóknasetur HÍ á Ströndum vann að sýningunni með Sauðfjársetrinu. Hún var opnuð 11. nóvember og er þar fjallað um Strandir fyrir 100 árum í máli og myndum. Fyrirhugað er að sýningin verði upp út árið 2019. 
 

3 málþing um Strandir 1918

Þrjú málþing undir yfirskriftinni Strandir 1918 voru haldin í samvinnu við Sauðfjársetur á Ströndum haustið 2018, en Fullveldi Íslands í 100 ár, Uppbyggingasjóður Vestfjarða og Safnasjóður styrktu þessa viðburði og fá bestu þakkir fyrir. Aðrir samstarfsaðilar við viðburðina sem tengjast 100 ára fullveldisafmælinu voru helstir: Fjölmóður – fróðskaparfélag á Ströndum, Náttúrustofa Vestfjarða, Grunnskólinn á Hólmavík, Grunnskólinn á Drangsnesi, Kómedíuleikhúsið, Leikfélag Hólmavíkur og Náttúrubarnaskólinn.

Á fyrstu kvöldvökunni sem haldin var 30. september var yfirskriftin Náttúra og veðurfar á Ströndum 1918, auk þess sem fjallað var sérsaklega um varðveittar ljósmyndir á Ströndum fyrir 1920. Fjölmenni var á viðburðinum. Frostaveturinn mikli kom við sögu, hafís og heimsóknir hvítabjarna, en einnig fjallað um búskap, dýralíf og gróðurfar. Stórviðburðir ársins, fullveldið, Spánska veikin og Kötlugosið voru einnig í brennidepli. Flutt voru eftirfarandi erindi:

 • Hafdís Sturlaugsdóttir landnýtingarfræðingur: Búskaparhættir og náttúra.
 • Eiríkur Valdimarsson þjóðfræðingur: Veðurfar og vesen – af Frostavetrinum mikla.
 • Jón Jónsson þjóðfræðingur: Stórviðburðir á landsvísu: Spánska veikin og Kötlugosið.  

Annað málþingið var haldið 11. nóvember og hafði yfirskriftina Strandir 1918 og Stefán frá Hvítadal. Þar var um að ræða sögustund þar sem fjallað var um bókmenntir og menningarlíf á Ströndum 1918. Sérstök áhersla lögð á ljóð og æfi Stefáns frá Hvítadal. Elfar Logi Hannesson frá Kómedíuleikhúsinu mætti einnig á svæðið með nýja bók með úrvali ljóða Stefáns: Allir dagar eiga kvöld. Hann sagði frá skáldinu og börn úr leiklistarvali Grunnskólans á Hólmavík og félagar í Leikfélagi Hólmavíkur lásu ljóð. Þá flutti Jón Jónsson þjóðfræðingur erindi >

 • Jón Jónsson þjóðfræðingur: Bókmenntir og félagslíf á Ströndum 1918.

Þriðja kvöldvakan í verkefninu Strandir 1918 var haldin þann 2. desember og þar var sjónum beint að barnamenningu, fjallað um stöðu barna í samfélaginu fyrir 100 árum, vinnuþátttöku, menntun, leiki og afþreyingu. Þar voru flutt erindi og sagt frá sýningunni Strandir 1918, fyrirhuguðu verkefni um tímakistu og fleiru. Það voru einkum börn í Grunnskólunum á Drangsnesi og Hólmavík sem sáu um flutning fróðleiksins á Barnamenningarkvöldvökunni. Náttúrubarnaskólinn var með innlegg á dagskránni sem var mjög vel sótt. Einnig voru flutt eftirtalin erindi:

 • Dagrún Ósk Jónsdóttir: Barnaleikir fyrir 100 árum
 • Esther Ösp Valdimarsóttir: Staða barna í samfélaginu fyrir 100 árum
   

Vísindakaffi á Vísindavöku Rannís

Vísindakaffi og bókakynning var haldin í tengslum við Vísindavöku Rannís þann 27. september. Viðburðurinn var haldinn í Sævangi og var jafnframt útgáfuhóf á Ströndum þar sem Jón Jónsson þjóðfræðingur kynnti nýútkomna bók sína Á mörkum mennskunnar. Viðhorf til förufólks í sögnum og samfélagi. Rannís bauð fólki upp á kaffi og kleinur. Mæting varð afbragðsgóð og þetta var skemmtileg kvöldstund.
 

Bókakynningar og upplestur: Á mörkum mennskunnar

Á árinu kom út bók eftir Jón um förufólk fyrri alda á Íslandi. Hún ber titilinn Á mörkum mennskunnar – viðhorf til förufólks í sögnum og samfélagi og er gefin út í ritröðinni Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar. Bókinni var fylgt eftir með fyrirlestrum, bókakynningum og upplestri á nokkrum stöðum. Var bókinni vel tekið.

Helstu viðburðir við kynningu á bókinni voru á útgáfugleði í Háskóla Íslands, 9. sept. 2018. Einnig á Vísindakaffi og útgáfufögnuði í Sævangi á Ströndum 27. sept., Staðarfelli í Dölum 9. des. og Malarhorni á Drangsnesi 17. des. 2018. Helstu upplestrar úr bókinni voru á viðburðinum Opinni bók í Edinborgarhúsinu á Ísafirði 17. nóv., jólamarkaði Össu í Króksfjarðarnesi 1. des., í Húsinu á Patreksfirði 6. des. og Hópinu á Tálknafirði 6. des. 2018.
  

Skessur sem éta karla!

Rannsóknasetrið var samstarfsaðili við nýsköpunar- og sýningarverkefnið Skessur sem éta karla! sem Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðingur stóð fyrir og fékk styrk til úr Nýsköpunarsjóði námsmanna. Umsjónarmaður í því verkefni var Rósa Þorsteinsdóttir hjá Stofnun Árna Magnússonar og Jón Jónsson hjá Rannsóknasetri HÍ á Ströndum var ráðgefandi um texta og framsetningu, auk þess að sjá um umbrotið á sýningarspjöldunum. Afraksturinn var sýning sem opnuð var í Borgarbókasafninu í Spönginni í október og síðan í desember í Hnyðju á Hólmavík með tilheyrandi fyrirlestrum og fjöri við opnun þeirra.
    

Háskóli ÍslandsHólmavík - ferðamannastaður og íbúabyggð

Verkefnið Hólmavík – íbúabyggð og ferðamannastaður var á dagskránni 2018, rannsókn og hugmyndavinna sem unnin er í samvinnu við sveitarfélagið Strandabyggð, Vestfjarðastofu og Sóknaráætlun Vestfjarða. Tveir starfsmenn unnu hjá setrinu við verkefnið með styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna sumarið 2018, Agnes Jónsdóttir þjóðfræðinemi og Guðrún Gígja Jónsdóttir MA-nemi í hagnýtri menningarmiðlun. Afraksturinn var skýrsla sem leit dagsins í sumarlok og var afhent sveitarfélaginu til úrvinnslu í byrjun október. Öruggt má telja að hún kemur Strandabyggð að góðu gagni við undirbúning og skipulag, auk þess að nýtast við fjármögnun verkefna.

Verkefnið snýst um hugmyndavinnu og greiningu á sérstöðu þorpsins á Hólmavík og í framhaldinu umbætur á útivistarsvæðum og almannarýmum í þorpinu, bæði íbúum og ferðafólki til hagsbóta. Haldnir voru íbúafundir um verkefnið á Hólmavík og heilmiklu efni safnað um skoðanir heimamanna. Verkefnið er unnið í samstarfi við sveitarfélagið Strandabyggð sem fékk stuðning frá Styrktarsjóði EBÍ til vinnunar. Einnig er á dagskránni samstarfi við Sóknaráætlun Vestfjarða um að gera uppskrift að aðferðinni svo hægt verði að ráðast í sambærilegt vinnuferli í öðrum minni þorpum í fjórðungnum, verklok í þeim verkþætti er 2019. 
 

Þjóðtrúarkvöldvaka: Á mörkum lífs og dauða

Laugardagskvöldið 8. september 2018 var haldin árleg þjóðtrúarkvöldvaka í félagsheimilinu Sævangi við Steingrímsfjörð á Ströndum. Kvöldvakan bar að þessu sinni yfirskriftina: Á mörkum lífs og dauða
Yfirleitt hefur verið rætt um óvenjuleg og stundum dálítið ógnvænleg efni á þessum kvöldvökum og svo var einnig nú. Fyrirlesarar á kvöldvökunni að þessu sinni voru:
 • Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðingur - Er andi í glasinu?
 • Jón Jónsson þjóðfræðingur - Ýluskarð og Skæluklöpp: Útburðir í íslenskri þjóðtrú
 • Sigurjón Baldur Hafsteinsson prófessor í safnafræði við HÍ - Bara annarsstaðar: Um ljósmyndir af látnum

Á boðstólum var einnig kynngimagnað kvöldkaffi og tónlistaratriði til skemmtunar sem Skúli Gautason sér um. Það voru Rannsóknasetur HÍ á Ströndum - Þjóðfræðistofa, Sauðfjársetur á Ströndum og Fjölmóður - fróðskaparfélag á Ströndum sem stóðu saman að viðburðinum.
 

Náttúrubarnaskólinn í fullum gangi

Náttúrubarnaskólinn hefur verið í fullum gangi á Sauðfjársetrinu í Sævangi í sumar, en hann er í góðu samstarfi við Rannsóknasetur HÍ á Ströndum. Hann hefur starfað í 4 sumur og var nýsköpunarsjóðsverkefni sem Jón Jónsson þjóðfræðingur hafði umsjón með árin 2016 og 2017. Heilmikil Náttúrubarnahátíð var haldin um miðjan júlí og var þar mikið um dýrðir.

Dagrún Ósk Jónsdóttir sem lauk í vor meistaraprófi í þjóðfræði hefur umsjón með Náttúrubarnaskólanum. Hún fékk í sumar Lóuna - menningarverðlaun Strandabyggðar fyrir verkefnið. Síðan því var komið á laggirnar hefur það fengið góðan stuðning úr Safnasjóði og Uppbyggingasjóði Vestfjarða, Nýsköpunarsjóði námsmanna og fleiri aðilum.
 

Sögurölt um Dali og Strandir 

Í sumar hefur Rannsóknasetrið tekið þátt í svokölluðu Sögurölti um Dali og Strandir. Það er verkefni sem söfnin á Ströndum og Dölum, Byggðasafn og Héraðsskjalasafn Dalamanna og Sauðfjársetur á Ströndum hafa staðið fyrir, og Rannsóknasetur HÍ á Ströndum og Náttúrubarnaskólinn tekið þátt í.

Þessi sögurölt hafa verið mjög vinsæl, en um er að ræða rúmlega klukkustundar gönguferð þar sem meiri áhersla er lögð á fróðleik, sögur og sagnir, en gönguna sjálfa. Jón Jónsson verkefnastjóri hjá Rannsóknasetrinu hefur verið sögumaður í þremur af þessum söguröltum í sumar, Tröllaskoðunarferð í KollafirðiDagbókargöngu að Naustavík við Steingrímsfjörð og Þjóðsagna- og sögugöngu í Tröllatungu.

Á Ströndum var einnig farið í fornleifarölt í Sandvík á Selströnd þann 17. ágúst þar sem í gagni var fornleifarannsókn og fjórar göngur hafa einnig farið fram í Dölum, að fornleifauppgreftri í Ólafsdal við Gilsfjörð þar sem Birna Lárusdóttir fornleifafræðingur var sögumaður og göngur á Tungustapa og í Kumbaravog þar sem Valdís Einarsdóttir safnstjóri var sögumaður. Verkefnið er hluti af Menningararfsári Evrópu í gegnum safnið í Dölunum og fornleifaröltið í Sandvík á Selströnd. 
 

Tvær ráðstefnur í ágúst

Tvær ráðstefnur voru haldnar í ágúst sem Rannsóknasetur HÍ á Ströndum tók þátt í. Annars vegar er það Vestfirski fornminjadagurinn sem haldinn verður á vegum Áhugafólks um fornleifar á Vestfjörðum á Suðureyri við Súgandafjörð þann 8. ágúst. Jón Jónsson þjóðfræðingur hjá Rannsóknasetri HÍ á Ströndum hélt þar erindið: Álagablettir, þjóðtrú og saga. Það var semsagt óáþreifanlegi menningararfurinn sem var í forgrunni hjá Jóni, en einnig talaði fjöldi fornleifafræðinga á málþinginu.

Annað málþing sem var haldið þann 18. ágúst í Hveravík á Ströndum hafði yfirskriftina Landnámsbær fundinn á Selströnd - málþing um minjar og menningu Stranda. Þar hélt Jón Jónsson erindi sem ber yfirskriftina Að virkja hugvitið, sögur og sagnir. Það er Bergsveinn Birgisson fræðimaður og rithöfundur sem er á bak við þetta verkefni með stuðningi frá Uppbyggingasjóði Vestfjarða og í samvinnu við fjölda aðila í héraðinu, einnig Fornleifastofnun Íslands og Háskólann í Bergen. Ráðstefnan er hluti af Menningararfsári Evrópu.

Háskóli ÍslandsStrandir í verki

Strandir í verki er verkefni sem Leikfélag Hólmavíkur er á bak við og snýst um skapandi sumarstörf fyrir unglinga á framhaldsskólaaldri. Það er unnið í samvinnu við Rannsóknasetur HÍ á Ströndum, Sauðfjársetur á Ströndum og sveitarfélagið Strandabyggð. Þrjú ungmenni sóttu um þátttöku og hafa í sumar starfað að margvíslegum skapandi verkefnum sem tengjast að nokkru leyti svæðinu, þjóðsagnaarfi og sögu þess. Rakel Ýr Stefánsdóttir leiklistarnemi hefur verið listrænn stjórnandi þessa verkefnis.

Stúlkurnar sem taka þátt hafa m.a. unnið að skapandi skrifum og sett upp frumsaminn leikþátt Of(s)ein, sem er gamandrama um sambönd og samskipti í nútímanum. Þær hafa einnig sýnt þjóðsagna- og galdratengt leikrit á bæjarhátíðum á Hólmavík og Reykhólum og Náttúrubarnahátíð á Ströndum, auk þess að bregða sér í hlutverk Strandanorna sem rýna í fortíð, samtíma og framtíð fólks. Skemmtikvöld, Open Mic, hefur einnig verið haldið á veitingastaðnum Café Riis. Verkefnið fékk stuðning frá Uppbyggingarsjóði Vestfjarða 2018. 

Útvarpsþættir endurfluttir

Í sumar hafa verið endurfluttir á Rás 1 sex útvarpsþættir um förufólk og flakkara sem Jón Jónsson og Rósa Þorsteinsdóttir þjóðfræðingur hjá Stofnun Árna Magnússonar gerðu árið 2000. Þetta er í þriðja sinn sem þeir eru fluttir í útvarpi. Fljótlega fer bókin Á mörkum mennskunnar. Viðhorf til förufólks í sögnum og samfélagi eftir Jón Jónsson síðan í dreifingu, en þar er fjallað um sama efni: Förufólk á Íslandi, sagnir og samfélag fyrri alda. Háskólaútgáfan gefur hana út í ritröðinni Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar. 

Húmorsþing á Hólmavík

Laugardaginn 14. apríl var haldið stórmagnað húmorsþing á Hólmavík. Á dagskránni var hæfileg blanda af fyrirlestrum, fróðleik og fjöri. Á laugardeginum var haldin málstofa og þjóðfræðilegir fyrirlestrar um húmor og síðan var haldin móttaka í Rannsóknasetri HÍ á Ströndum - Þjóðfræðistofu. Þar á eftir var stórmagnað kvöldverðarhlaðborð á boðstólum á Café Riis og síðan skemmtun um kvöldið. Á dagskránni þar var PubQuiz með gamansömu húmorsívafi, tónlistaratriði og uppistand. Á eftir var dansað smávegis og stiginn vikivaki fram á nótt. 

Dagskrá:

16:30 Fróðleikur og húmorsfræði - Pakkhús Café Riis

 • Kristinn Schram: Húmorfræði á fimm mínútum
 • Kristín Einarsdóttir: Það er ekkert öruggt að hann smæli
 • Agnes Jónsdóttir: "Hvað er svona fyndið?" Uppistand sem einhliða samtal
 • Jón Jónsson: Skemmtikraftar eða aðhlátursefni: Framkoma við förufólk í gamla sveitasamfélaginu
 • Eiríkur Valdimarsson: Kynlíf og gamla bændasamfélagið - er eitthvað fyndið við það?

18:00 Mótttaka á Rannsóknarsetri HÍ á Ströndum - Þjóðfræðistofa Hnyðja

19:00 Glæsilegt hlaðborð á Café Riis.

20:30 Skemmtidagskrá í Pakkhúsinu

 • Pub Quiz um gleði og gamanmál
 • Villi Vandræðaskáld skemmtir mannskapnum
 • Rachel Schollaert með uppistand
 • Alice Bower þjóðfræðingur og fyndnasti háskólanemi Íslands: Tröllið tjáir sig
 • Pétur Húni: Pseudo - þjóðfræðilegt laumuhúmorískt atriði

Dans, gleði og gaman fram eftir nóttu!

Samstarfsaðilar um Húmorsþing á Hólmavík 2018 voru Þjóðfræði við Háskóla Íslands, Rannsóknasetur HÍ á Ströndum - Þjóðfræðistofa, Fjölmóður - fróðskaparfélag á Ströndum, Félag þjóðfræðinga á Íslandi og Þjóðbrók, félag þjóðfræðinema. Húmorsþingið nú var það fimmta sem haldið er á Hólmavík og nú eru einmitt 10 ár liðin frá því fyrsta. Það var Þjóðfræðistofa Strandagaldurs sem stóð fyrir fyrri húmorsþingnum. 

 

Þjóðfræðinemar á málþingi

Þar sem rassinn hvílir: Þjóðfræði heimilisins

Opið málþing um þjóðfræði heimilisins var haldið miðvikudaginn 28. febrúar á Galdrasýningunni á Hólmavík. Fyrirlesarar voru meistaranemar í þjóðfræði í námskeiðinu Hagnýt þjóðfræði sem voru í námslotu á Ströndum. Jón Jónsson var kynnir og stjórnandi á málþinginu. Eftirfarandi erindi voru flutt: 

Agnes Jónsdóttir: „Hér er ró og hér er friður …“
Baðherbergið hefur verið mikilvægt rými innan veggja hins íslenska heimilis frá því að tími torfbæjanna rann sitt skeið. Þar sinna menn og konur frumþörfum sínum, en það er ekki það eina sem þau gera þar – hvað er það sem á sér stað innan þessara veggja og hvers vegna það svona mikið einkamál?

Dagný Davíðsdóttir: Ég var að hugs’um að far’úr buxum.
Vinsældir kósíkvölda hafa gjarnan dýpri tilgangi en einungis að seðja hungur í sælgæti og góða ræmu. Margir halda þau reglulega með ákveðnum siðum og venjum sem alltaf er farið eftir. Viðburðurinn á sér einnig tímaramma og staðsetningu ásamt nokkrum lykilhlutum sem gera þau að því sem þau eru. Fyrir mörgum er þetta mikilvægasti tími vikunnar.

Gunnar Óli Dagmararson: Þetta er herbergið mitt. Um einkarými heimilisins, tómstundir og iðju.
Í fyrirlestri mínum ætla ég að velta fyrir mér gildi þess að eiga sér einkarými og miða það við kenningar fræðimanna í þjóðfræði um heimilið, rými og hópa. Ég mun taka dæmi úr eigin lífi og koma af stað umræðu með gestum málþingsins um einkarými heimilisins.

Guðrún Gígja Jónsdóttir: Hver á að elda í kvöld?
Matarmenning er stór hluti að lífi okkar, en án matar væri lítið um líf. Eldhúsið er staðurinn þar sem galdrarnir fara fram og er það mismunandi eftir því hver eldar og fyrir hvern og af hvaða tilefni! Matur og viðburðir eru mjög tengdir líkt og matarboð þar sem oftast er boðið vinum og vandamönnum í mat inn á heimilinu.

Sigrún Sigvaldadóttir: Bækur á heimilum landsmanna
Íslenska þjóðin hefur ávallt verið talin mikil bókaþjóð. Bækur hafa verið stolt eigenda sinna og prýtt heimili þeirra í gegnum aldirnar. Það verður því áhugavert að skoða aðeins hverskonar bækur hafa verið til á heimilum og hvernig þær hafa oft á tíðum gagnast á margskonar hátt.

Dagrún Ósk Jónsdóttir: „Í herberginu hennar var opin gátt til helvítis“
Það er oft talað um að það sé reimt í húsum, við fáum einhverja ákveðna tilfinningu þegar við löbbum inn í þau, þeim fylgja allskonar minningar og sögur, sannar eða ekki, og allskonar draugar fortíðarinnar. Suma gesti viljum við alls ekki hafa heima hjá okkur og getur verið erfitt að losna við. Hvernig bregst maður við ósýnilegri innrás á heimilið sem á að vera okkar griðarstaður?

Alice Bower: „Í hömrum þessum var hellir hennar, þar fór hún inn með hann“: Um heimilis- og matarhætti trölla, huldufólks og dverga
Oft er sagt að fólk geri hús að heimili. En sköpun heimilis getur líka átt sér stað í þúfum, í hellum og í dvergasteinum. Þar búa þjóðsagnaverur sem elda, halda matarboð, sofa -ekki ósjaldan hjá mennskum mönnum- og skemmta sér um kvöldið með vín og vist og hljóðfæraslátt. Í erindinu verður lagt út af völdum dæmum úr íslenskum þjóðsagnasöfnum til að draga fram einkenni heimilishátta trölla, álfa og dverga. Einnig verður grafist fyrir um samband þessara lýsinga og viðhorfa sagnamanna til náttúrunnar.

Málþingið var haldið af Rannsóknasetri HÍ á Ströndum í samvinnu við Þjóðfræði við Háskóla Íslands, Strandagaldur og Fjölmóð - fróðskaparfélag á Ströndum.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is