Sveitarfélagið Norðurþing styður við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Húsavík

Sveitarfélagið Norðurþing mun styðja við starfsemi Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Húsavík m.a. með framlagi til gistiaðstöðu fyrir fræðimenn og nemendur sem dvelja á Húsavík við rannsóknir í tengslum við starfsemi setursins. Samstarfsyfirlýsingu þess efnis undirrituðu Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings, og Sæunn Stefánsdóttir, forstöðumaður Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands, að loknum ársfundi Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands sem haldinn var á Húsavík 9. apríl sl.

 

Markmiðið með samstarfinu er að efla þekkingar- og rannsóknastarf í sveitarfélaginu Norðurþingi og festa enn frekar í sessi starfsemi Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Húsavík í Þekkingarsetrinu á Húsavík.

 

Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Húsavík var komið á fót 2007 og eru við setrið stundaðar rannsóknir á sjávarspendýrum, einkum hvölum, auk rannsókna í ferðaþjónustu. Forstöðumaður setursins er dr. Marianne H. Rasmussen sjávarspendýrafræðingur. Tveir verkefnastjórar starfa við setrið, Lilja Berglind Rögnvaldsdóttir sem vinnur að ferðamálarannsókn í samstarfi við Rannsóknamiðstöð ferðamála, og Huld Hafliðadóttir sem hefur umsjón með nemendum og námskeiðahaldi setursins og sinnir samstarfsverkefnum með Hvalasafninu á Húsavík. Auk öflugs rannsóknastarfs er haldið ár hvert námskeiðið Aðferðir við rannsóknir á sjávarspendýrum við rannsóknasetrið í samstarfi við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Var námskeiðið haldið í sjöunda sinn sl. sumar og sóttu það 20 nemendur frá 14 þjóðlöndum. Undir handleiðslu forstöðumanns vinna einnig fjölmargir framhaldsnemar að lokaverkefnum sínum við setrið.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is