Hornafjörður

Áramótakveðja Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands

Starfsfólk Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands þakkar samfylgdina á árinu sem er að líða og óskar samstarfsfólki sínu gleðilegs nýs árs.

Árið 2018 verður 18. starfsár stofnunarinnar og eins og áður margt spennandi framundan. Ársfundur stofnunarinnar verður t.a.m. haldinn í Bolungarvík, 11. apríl nk. Takið daginn frá!

Auglýst eftir forstöðumanni Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra

Forstöðumaður Rannsóknaseturs-Háskóli Íslands- Norðurland vestra

Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands auglýsir til umsóknar starf forstöðumanns Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra.

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra sinnir rannsóknum á sviði hugvísinda, einkum sagnfræði. Starfsstöð þess er á Skagaströnd. Auk sjálfstæðra akademískra rannsókna hefur forstöðumaður umsjón með starfsemi setursins, fjármálum þess og daglegum rekstri. Hann skipuleggur rannsóknir og samstarfsverkefni, hefur með höndum áætlanagerð og stýrir sókn í sjóði. Hann þarf að geta tekið að sér leiðbeiningu háskólanema í framhaldsnámi og aðra kennslu á háskólastigi. 

Innan Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands eru 8 sjálfstæð rannsóknasetur víða um land. Rannsóknir eru meginviðfangsefni rannsóknasetranna,  og eru viðfangsefnin fjölbreytt og tengjast nærumhverfi setranna með einhverjum hætti. Lögð er rík áhersla á árangur í starfi, áhrif og gæði rannsókna og hagnýtingu rannsóknaniðurstaðna. Þá er stofnunin jafnframt vettvangur samstarfsverkefna háskólans við sveitarfélög, stofnanir, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklinga á landsbyggðinni.

Umsækjendur skulu hafa lokið doktorsprófi í sagnfræði eða skyldum greinum og hafa stundað sjálfstæðar rannsóknir á því sviði. Frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum, lipurð í mannlegum samskiptum, gott vald á ensku og íslensku er nauðsyn. Reynsla af alþjóðasamstarfi sem og reynsla af þverfræðilegu samstarfi er æskileg. Þá er reynsla af sókn í innlenda sem erlenda rannsóknasjóði kostur. Umsækjendum er skylt að leggja fram rannsóknaáætlun til fimm ára þar sem skal koma fram hvernig rannsóknir umsækjenda tengjast Norðurlandi vestra. 

Forstöðumaðurinn verður starfsmaður Háskóla Íslands en hefur starfsaðstöðu við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra. Starfsstöð setursins er á Skagaströnd og er gert ráð fyrir að forstöðumaðurinn gegni starfi sínu þaðan. Búseta á svæðinu er skilyrði. Um fullt starf er að ræða og verður ráðið í starfið til fimm ára með möguleika á ótímabundinni ráðningu að þeim tíma liðnum, sbr. 3. mgr. 31. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst.

Um meðferð umsókna, mat á hæfi umsækjenda og ráðningu í starfið er farið eftir ákvæðum laga um Háskóla nr. 85/2008 og reglna um Háskóla Íslands nr. 569/2009. Sérstök nefnd sem rektor skipar annast mat og forgangsröðun umsókna.

Umsóknarfrestur er til 27. nóvember 2017.

Umsóknir skulu berast á rafrænu formi á netfangið bmz@hi.is merkt HI17100144. Umsækjendur skulu láta rannsóknaáætlun til fimm ára fylgja umsókn sinni, vottorð um námsferil sinn og störf, ritaskrá, skýrslu um vísindastörf og önnur störf sem þeir hafa unnið. Í umsókn skal koma fram hver ritverka sinna, allt að átta talsins, umsækjandi telur veigamest með tilliti til þess starfs sem um ræðir. Umsækjandi sendir eingöngu þessi ritverk sín með umsókn, eða vísar til þess hvar þau eru aðgengileg á rafrænu formi. Þegar fleiri en einn höfundur stendur að innsendu ritverki skulu umsækjendur gera grein fyrir framlagi sínu til verksins. Enn fremur er ætlast til þess að umsækjendur láti fylgja með umsagnir um kennslu- og stjórnunarstörf sín, eftir því sem við á. Umsókn og umsóknargögn sem ekki er skilað rafrænt skal skila í tvíriti til Vísinda- og nýsköpunarsviðs Háskóla Íslands, Sæmundargötu 2, 101 Reykjavík.

Öllum umsækjendum verður svarað og þeim tilkynnt um ráðstöfun starfsins þegar ákvörðun liggur fyrir. Umsóknir geta gilt í sex mánuði frá lokum umsóknarfrests. 

Laun eru samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðherra og Félags háskólakennara. 

Við ráðningar í störf hjá Háskóla Íslands er tekið mið af jafnréttisáætlun skólans.

Allar nánari upplýsingar um starfið veitir Sæunn Stefánsdóttir, forstöðumaður Stofnunar Rannsóknasetra Háskóla Íslands í síma 525 4041, saeunnst@hi.is.

Jöklar í bókmenntun, listum og lífinu - ráðstefna á Höfn í Hornafirði

Helgina 28.-30. apríl verður haldin ráðstefna á Höfn í Hornafirði með yfirskriftinni Jöklar í bókmenntum, listum og lífinu. Fyrir ráðstefnunni stendur Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Höfn, í samvinnu við Náttúrustofu Suðausturlands og Menningarmiðstöð Hornafjarðar. Til ráðstefnunnar er boðið rithöfundum og fræðimönnum á sviði bókmennta, myndlistar og jöklafræða. Meðal gesta verða rithöfundarnir Steinunn Sigurðardóttir, Linda Vilhjálmsdóttir og Ófeigur Sigurðsson sem öll hafa fjallað um jökla í skrifum sínum.

Í tengslum við ráðstefnuna verða settar upp sýningar af ýmsu tagi; í Listasafni Svavars Guðnasonar á Höfn verður málverkasýning á verkum í eigu safnsins, auk nokkurra verka sem koma frá Listasafni Íslands. Í Nýheimum verður ljósmynda- og kortasýning, handverkssýning, sýning á teikningum barna, sem og sýning á heimildamyndinni Jöklaland eftir Gunnlaug Þór Pálsson. Ráðstefnan er styrkt af Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) og Vinum Vatnajökuls.

Allir eru velkomnir að taka þátt: hlýða á fyrirlestra og skoða sýningar. Ef fólk vill gera sér helgarferð austur af þessu tilefni væri ráð að panta gistingu sem fyrst.

Föstudagur 28. apríl:

NÝHEIMAR

16:30   Mæting á ráðstefnuna, ráðstefnugögn afhent.

16:45   Setning ráðstefnunnar: Ávarp bæjarstjóra.

16:50   Karlakórinn Jökull flytur Jökulinn (lag: Jóhann Móravek, ljóð: Guðbjartur Össurarson).

16:55   Kynningar á ljósmyndasýningu og kortasýningu í Nýheimum.

17:00   Opnunarfyrirlestur í Nýheimum: Steinunn Sigurðardóttir: Jökullinn og tíminn: Við upphaf jöklaráðstefnu.

17:40   Opnun málverkasýningar í Listasafni Svavars Guðnasonar og kokteill.

18:15   Sýning á Jöklalandi eftir Gunnlaug Þór Pálsson.

20:15   Kvöldverður á Humarhöfninni.

Laugardagur 29. apríl

NÝHEIMAR

10:00   Fyrirlestur: Oddur Sigurðsson: Þekking Íslendinga á jöklum og eðli þeirra.

10:40   Fyrirlestur: Julian D‘Arcy: Um enska þýðingu og ‚þverfagleika‘ í Jöklabók Helga Björnssonar.

11:10   Kaffi og opnun á handverkssýningu og teikningum barna á bóksafni Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar í Nýheimum.

11:30   Fyrirlestur: Kristján Jóhann Jónsson: „Taugarnar þúsundir ísvetra ófu“ (jöklarnir í lundarfari landans).

12:10   Ljóðalestur: Linda Vilhjálmsdóttir rithöfundur les úr Frostfiðrildum (1. hluti).

12:20   Hádegisverður.

13:30   Ljóðalestur: Linda Vilhjálmsdóttir les úr Frostfiðrildum (2. hluti).

13:40   Fyrirlestur: Guðbjörg R. Jóhannesdóttir: VÁ! Upplifun af undrun og ægifegurð andspænis jöklinum.

14:20   Fyrirlestur: Hlynur Helgason:  Jökullinn fangaður í mynd — birtingarmyndir íslenskra jökla í myndlist í ljósi kenninga breska gagnrýnandans Johns Ruskin.

15:00   Kaffi og meðlæti.

15:20   Ljóðalestur: Linda Vilhjálmsdóttir les úr Frostfiðrildum (3. hluti).

15:30   Fyrirlestur: Sveinn Yngvi Egilsson: Fagurfræði íssins: Jöklar og háleit orðræða.

16:10   Fyrirlestur Jón Yngvi Jóhannsson: Umhverfis jökla með Bjarti og Bensa. Dvöl og barátta í Aðventu og Sjálfstæðu fólki.

17:30   Hlé.

19:00   Kvöldverður í Pakkhúsinu.

Sunnudagur 30. apríl

HOFFELL

10:00   Fyrirlestur: Soffía Auður Birgisdóttir: Fegurð og vábrestir í jökulheimum: Af jöklum í íslenskum bókmenntum.

10:40   Fyrirlestur: Þorvarður Árnason: Með jökulinn í blóðinu – lifun og sjónarvottun klakabrennunnar.

11:20   Gönguferð um Hoffellsjöklulssvæðið undir leiðsögn Þorvarðar og Þrúðmars í Hoffelli.

12:00   Hádegisverður í Hoffelli.

13:00   Lokafyrirlestur og upplestur: Ófeigur Sigurðsson: Táknsæi jökla.

13:40   Samantekt og ráðstefnulok.

Ráðstefnan er öllum opin og engin ráðstefnugjöld eru innheimt. Gestir sjá sjálfir um að útvega sér gistingu og geta fengið málsverði á tilboðsverði ráðstefnudagana. Allir upplýsingar um slíkt verða í ráðstefnugögnum sem gestir fá við komu. Nánari upplýsingar hjá Soffíu Auði Birgisdóttur, s. 4708042, gsm. 8482003
 

Fjölmennur ársfundur í Reykjavík

Ársfundur Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands var haldinn í Reykjavík 30. mars sl. Fjöldi erinda var fluttur að viðstöddu fjölmenni. 

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, setti fundinn. Að því loknu voru flutt fróðleg erindi um viðfangsefni sem tengjast rannsóknum sem unnar eru við eða í tengslum við setrin. Fyrstu fjögur erindin tengdust ýmsum hliðum ferðaþjónustu:

Anna Dóra Sæþórsdóttir, prófessor í ferðamálafræði við HÍ, fjallaði um samspili ferðaþjónustu og virkjana; Gyða Þórhallsdóttir, doktorsnemi í ferðamálafræði við HÍ, sagði frá greiningu á fjölda ferðamanna og hvert þeir leggja leið sína; Lilja B. Rögnvaldsdóttir, verkefnisstjóri við Rannsóknasetur HÍ á Húsavík, sagði frá könnun á væntingum ferðamanna til valinna áfangastaða og loks fjallaði Eyrún Jenný Bjarnadóttir hjá Rannsóknamiðstöð ferðamála um samfélagsleg áhrif ferðaþjónustu.

Allt eru þetta viðfangsefni sem tengjast umræðu um stöðu ferðaþjónustunnar og þróun hennar,  niðurstöðurnar eru fróðlegar fyrir alla sem áhuga hafa á málefninu auk þess sem rannsóknirnar gefa mikilsverðar upplýsingar sem geta komið að góðum notum við stefnumótun í greininni.

Eftir hlé var m.a. sagt frá rannsóknum á sviði bókmenntafræði og fornleifafræði. Soffía Auður Birgisdóttir, bókmenntafræðingur við rannsóknasetur HÍ á Hornafirði, velti fyrir sér hvað fræðimaður gerir sem rekist hefur á spennandi rannsóknarefni þar sem heimildir eru af skornum skammti. Erindið tengist rannsókn á heimildum um Guðrúnu Sveinbjarnardóttur Egilssonar (f.1831) sem „varð fyrir því óláni“ að kynferði hennar var rangt skilgreint við fæðingu og „hlaut hún að búa við það alla ævi“ eins og segir í einni heimildinni.

Ragnar Edvardsson, fornleifafræðingur við rannsóknasetur HÍ á Vestfjörðum, sagði síðan frá rannsóknum sínum á minjastöðum sem tengjast hvalveiðum Dana, Hollendinga, Norðmanna og fleiri þjóða við Ísland á 19. öld. Í fyrirlestrinum verður fjallað um rannsókninar á hvalveiðistöðvunun og greint frá vel heppnuðu samspili fræðilegra rannsókna, nýtingaráætlunar og ferðamennsku.

Að lokum flutti Sigurður Sigursveinsson, framkvæmdastjóri Háskólafélags Suðurlands, erindi sem hann nefndi Þekkingin og byggðirnar. .

Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands starfrækir rannsóknasetur á Hornafirði, Suðurlandi, Suðurnesjum, Snæfellsnesi, Vestfjörðum, Ströndum, Norðurlandi vestra og Norðausturlandi. Þá vinnur akademískur starfsmaður að rannsóknum á vegum stofnunarinnar á Austurlandi.

Á vegum rannsóknasetranna eru stundaðar fjölbreyttar rannsóknir. Meðal viðfangsefna eru lífríki hafsins, umhverfi og landnýting, hvalir, fiskar og fuglar, auðlindir, ferðamál, bókmenntir, sagnfræði, fornleifafræði og þjóðfræði. Allt eru þetta rannsóknasvið sem mikill áhugi er á um allt land og gefa tilefni til samstarfs milli setranna við Háskóla Íslands í Reykjavík, sem og aðrar rannsóknastofnanir hérlendis og erlendis. Nánari upplýsingar um starfsemi rannsóknasetra Háskóla Íslands má finna í ársskýrslu stofnunarinnar. 

Myndir á ársfundinum tók Kristinn Ingvarsson ljósmyndari.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, setti ársfundinnFjölmennt var á fundinumFjölmenni sótti fundinnFjölmenni sótti fundinnJörundur Svavarsson, prófessor og formaður ráðgefandi nefndar Stofnunar rannsóknsetra HÍ, var fundarstjóri. Anna Dóra Sæþórsdóttir, prófessor í ferðamálfræði, flutti erindið: Ferðaþjónusta og virkjanir sem gerendur í byggðaþróun.Anna Dóra svarar spurningum úr sal. Gestir ársfundarinsGestir ársfundarins hlustuðu granntFjölmennt var á ársfundinum,Fjölmennt var. Gyða Þórhallsdóttir doktorsnemi flutti erindið: Ferðamenn – Hvert fara þeir?Lilja B. Rögnvaldsdóttir, verkefnisstjóri við Rannsóknasetur HÍ á Húsavík, flutti erindið: Hver var þetta og hvað vildi hann? Erlendir ferðamenn á Húsavík, Siglufirði, Höfn og í Mývatnssveit sumarið 2015.

Ársfundur Stofnunar rannsóknasetra 30. mars 2017 í Þjóðminjasafni Íslands

Ársfundur Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands verður haldinn í sal Þjóðminjasafns Íslands fimmtudaginn 30. mars 2017.  Ársfundurinn hefst kl. 13.30 og dagskrá lýkur kl. 16.  Fundurinn er opinn öllum en gestir eru beðnir að skrá sig hér.

Dagskrá:

13.30 Setning ársfundar.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.

13.45 Ferðaþjónusta og virkjanir sem gerendur í byggðaþróun.

Anna Dóra Sæþórsdóttir, prófessor í ferðamálafræði við Háskóla Íslands.

14.00 Ferðamenn – Hvert fara þeir?

Gyða Þórhallsdóttir, doktorsnemi Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.

14.15 Hver var þetta og hvað vildi hann? Erlendir ferðamenn á Húsavík, Siglufirði, Höfn og í Mývatnssveit sumarið 2015

Lilja B. Rögnvaldsdóttir, verkefnisstjóri við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Húsavík. 

14.30 „Maður getur átt von á öllu mögulegu“. Um áhrif ferðaþjónustu í einstökum samfélögum.

Eyrún Jenný Bjarnadóttir, Rannsóknamiðstöð ferðamála.

14.45 Kaffi

15:15 Heimildarýni, speglanir og spuni. Hvað getur fræðimaður leyft sér?

Soffía Auður Birgisdóttir, sérfræðingur við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Hornafirði.

15.30 Frá fornleifafræðilegum rannsóknum að hagnýtri stýringu og ferðaþjónustu: dæmi af hvalveiðistöðvum.

Ragnar Edvardsson, sérfræðingur við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum.

15.45 Þekkingin og byggðirnar

Sigurður Sigursveinsson, framkvæmdastjóri Háskólafélags Suðurlands.

16.00 Samantekt.

Sæunn Stefánsdóttir, forstöðumaður Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands.

Fundarstjóri: Jörundur Svavarsson, prófessor og formaður ráðgefandi nefndar Stofnunar rannsóknasetra HÍ.

 

Gestir eru vinsamlega beðnir að skrá sig á sérstöku eyðublaði. Skráningu lýkur 28. mars nk.

Nýtt rannsóknasetur Háskóla Íslands á Ströndum stofnað

Nýtt rannsóknasetur, Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Ströndum - Þjóðfræðistofa, hefur verið sett á laggirnar. Rannsóknir í þjóðfræði verða þar í öndvegi og sérstök áhersla á miðlun og hagnýtingu þjóðfræðilegrar þekkingar. Rannsóknasetrið er staðsett á Hólmavík.

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Ströndum er hluti af Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands en innan stofnunarinnar eru fyrir sjö rannsóknasetur víða um land, á Suðurnesjum, Snæfellsnesi, Vestfjörðum, Norðurlandi vestra, Húsavík, Hornafirði og Suðurlandi. Viðfangsefni rannsókna sem setrin standa fyrir eru fjölbreytt, en á meðal þeirra eru lífríki hafsins, umhverfi og landnýting, hvalir, fiskar og fuglar, ferðamál, bókmenntir, sagnfræði, fornleifafræði og nú þjóðfræði.

Með samningi mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands frá byrjun ársins 2016 var sett af stað vinna við að greina tækifæri og leiðir við að koma rannsóknasetrinu á fót. Áður hafði Strandagaldur ses staðið fyrir rekstri þekkingarsetursins Þjóðfræðistofu á Hólmavík frá árinu 2008, en starfsemi hennar hafði lagst af. Á grunni þessarar vinnu varð úr að ráðuneytið fól Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands að hefja starfsemi þessa nýja rannsóknaseturs, í góðri samvinnu við heimamenn og að hluta til er byggt á þeim góða grunni sem áður hefur verið lagður með starfsemi Þjóðfræðistofu Strandagaldurs.

Jón Jónsson þjóðfræðingur hefur verið ráðinn verkefnisstjóri Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Ströndum – Þjóðfræðistofu og hóf hann störf í byrjun mánaðarins. Jón hefur síðustu árin starfað sem menningarfulltrúi Vestfjarða. Aðsetur rannsóknasetursins er í Þróunarsetrinu á Hólmavík.

Strandamenn ætla að fagna stofnun Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Ströndum – Þjóðfræðistofu strax um helgina. Laugardagskvöldið 10. september verður haldin þjóðtrúarkvöldvaka í samvinnu hins nýja seturs og Sauðfjárseturs á Ströndum sem ber yfirskriftina Leyndardómar fjörunnar, þjóðtrú, ótti og óhugnaður. Jón Jónsson mun þar segja frá þjóðtrú og þjóðsögum tengdum heimsóknum ísbjarna til landsins og heitir erindi hans: Ísbirnir éta ekki óléttar konur! Á kvöldvökunni flytja einnig erindi þjóðfræðingarnir Dagrún Ósk Jónsdóttir og Kristinn H.M. Schram sem var fyrsti forstöðumaður Þjóðfræðistofu Strandagaldurs. Kvöldvakan verður í félagsheimilinu Sævangi og hefst kl. 20:00.

--------
Nánari upplýsingar gefur Jón Jónsson (jonjonsson@hi.is / gsm: 831 4600), verkefnisstjóri Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Ströndum – Þjóðfræðistofu.

Verkefnisstjóri ferðamála við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Hornafirði

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Hornafirði leitar eftir verkefnisstjóra til að annast rannsóknir, þróunarvinnu og ráðgjöf varðandi ferðaþjónustu í Sveitarfélaginu Hornafirði. Viðamesta verkefnið lýtur að umsjón með íslenskum hluta NPA-verkefnisins Slow Adventure in Northern Territories (http://saintproject.eu/). Önnur verkefni geta, eftir atvikum, lotið að þróun sjálfbærrar ferðaþjónustu, vetrarferðaþjónustu og fræðandi ferðaþjónustu. Verkefnin kalla á náið samstarf við Sveitarfélagið Hornafjörð, suðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs og Ríki Vatnajökuls ehf, ferðaþjónustu-, matvæla- og menningarklasa suðausturlands.

Leitað er að einstaklingi með háskólagráðu, helst framhaldsmenntun, í ferðamálafræði eða aðra háskólamenntun sem nýst getur í starfi. Reynsla af rannsóknarstörfum og/eða verkefnastjórnun er skilyrði. Hæfni í mannlegum samskiptum, sjálfstæði, áreiðanleiki og frumkvæði eru nauðsynleg. Gott vald á ensku og íslensku í rituðu og töluðu máli er mikilvægt. Um fullt starf er að ræða með aðsetur á Hornafirði. Ráðið er til tveggja ára með möguleika á framlengingu. Æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst. Laun eru samkvæmt kjarasamningi Félags háskólakennara.

Umsóknarfrestur er til 14. maí 2016. Með umsókninni skal fylgja greinargott yfirlit um námsferil og fyrri störf, ásamt ritaskrá ef við á. Umsókn skal sendast inn rafrænt á: www.hi.is/laus_storf. Öllum starfsumsóknum verður svarað og umsækjendum tilkynnt um ráðstöfun starfsins þegar ákvörðun hefur verið tekin.

Við ráðningu í störf í Háskóla Íslands er tekið mið af jafnréttisáætlun skólans.

Nánari upplýsingar um starfið veitir Dr. Þorvarður Árnason, forstöðumaður rannsóknasetursins (470-8040895-9003thorvarn@hi.is).

Um rannsóknasetrið:

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Hornafirði var stofnað árið 2001. Það heyrir undir Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands (http://rannsoknasetur.hi.is/) sem hefur þau markmið að skapa aðstöðu til rannsókna á landsbyggðinni, auka möguleika almennings til menntunar og styrkja tengsl Háskóla Íslands við atvinnu- og þjóðlíf. Rannsóknasetrið tekur virkan þátt í starfsemi Þekkingarsetursins Nýheima (www.nyheimar.is) á Höfn, en þar starfa samtals um fjörutíu manns. Rannsóknasetrið hefur stundað rannsóknir á ferðamálum um árabil og einnig átt frumkvæði að fjölmörgum hagnýtum verkefnum í samstarfi við atvinnulífið og opinberar stofnanir. Við setrið er jafnframt unnið að rannsóknum á umhverfismálum, náttúruvernd, landslagi, menningu og listum, sjá nánar http://rannsoknasetur.hi.is/hornafjordur/.

Sumarstörf við rannsóknasetur Háskóla Íslands

Þrjú störf við rannsóknasetur Háskóla Íslands hafa verið auglýst í gegnum átak Vinnumálastofnunar - sumarstörf námsmanna 2016.

Auglýst er eftir starfsmanni í ferðamálarannsókn í Vatnajökulsþjóðgarði við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Hornafirði. Nánari upplýsingar um starfið má finna hér.

Þá er auglýst eftir starfsmanni í ferðamálarannsókn á Norðurlandi við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Húsavík. Nánari upplýsingar um starfið má finna http://form.vinnumalastofnun.is/sumarstorf/jobsview.aspx?pk_job_id=3888

Loks er auglýst eftir starfsmanni í ferðamálarannsókn á Seyðisfirði og Egilsstöðum og má finna nánari upplýsingar um starfið hér.

Umsóknarfrestur er til og með 2. maí nk.

Vel sóttur ársfundur í Stykkishólmi

Ársfundur Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands var haldinn í Stykkishólmi 15. apríl sl. Í ár eru tíu ár frá stofnun Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Snæfellsnesi og flutti Jón Einar Jónsson forstöðumaður setursins yfirlitserindi þar sem hann sagði frá rannsóknum á æðarfugli sem stundaðar hafa verið við setrið.  Afrakstur rannsóknanna byggja m.a. á góðu samstarfi við æðarbændur, heimamenn, sveitarfélagið og Náttúrustofu Vesturlands. Með samstarfi og stuðningi þessara aðila má ná miklum árangri í starfi háskólastarfsemi á landsbyggðinni eins og sýnir sig með Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Snæfellsnesi. Á ársfundinum voru flutt áhugaverð erindi sem mörg hver tengdust lífríki Breiðafjarðar, önnur um náttúru og nytjar í víðum skilningi og umgengni mannsins við náttúruna. 

Að loknum ávörpum Jóns Atla Benediktssonar, rektors Háskóla Íslands, og Sturlu Böðvarssonar, bæjarstjóra Stykkishólmbæjar, flutti Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands, erindi um hringrásarhagkerfið. Þá fjallaði Róbert Arnar Stefánsson, forstöðumaður Náttúrustofu Vesturlands, um hina auðugu þörungaskóga Breiðafjarðar í erindi sem hann nefndi „Regnskógar norðursins.“ Aldís Erna Pálsdóttir sagði frá afráni á æðarhreiðrum í Breiðafirði, en hún lauk nýlega meistaraprófi í líffræði frá Háskóla Íslands. Unnur Birna Karlsdóttir, sérfræðingur við starfsstöð Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands á Egilsstöðum, fjallaði um rannsókna sína á sögu hreindýra á Íslands í erindi sínu og Hrönn Egilsdóttir, doktorsnemi við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands, fjallaði um súrnun sjávar í erindi sínu ,,Súrnun sjávar við Íslands. Rannsóknir og staða þekkingar." 

Að dagskrá lokinni var haldið í Æðarsetur Íslands sem opnar innan skamms í Stykkishólmi. Nánari upplýsingar um dagskrá fundarins er að finna á vefsíðu Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands.

Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands starfrækir rannsóknasetur á Hornafirði, Suðurlandi, Suðurnesjum, Snæfellsnesi, Vestfjörðum, Norðurlandi vestra og Norðausturlandi. Þá vinnur akademískur starfsmaður að rannsóknum á vegum stofnunarinnar á Austurlandi.

Á vegum rannsóknasetranna eru stundaðar fjölbreyttar rannsóknir. Meðal viðfangsefna eru lífríki hafsins, umhverfi og landnýting, fiskar og fuglar, auðlindir, ferðamál, bókmenntir, sagnfræði og fornleifafræði. Allt eru þetta rannsóknasvið sem mikill áhugi er á um allt land og gefa tilefni til samstarfs milli setranna við Háskóla Íslands í Reykjavík, sem og aðrar rannsóknastofnanir hérlendis og erlendis. Nánari upplýsingar um starfsemi rannsóknasetra Háskóla Íslands má finna í ársskýrslu stofnurinnar.

Myndir á ársfundinum tók Kristinn Ingvarsson ljósmyndari.

Jón Einar Jónsson forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Snæfellsnesi

Sturla Böðvarsson bæjarstjóri Stykkishólmsbæjar

Jón Atli Benediktsson rektors Háskóla Íslands

 

Ársskýrsla Stofnunar rannsóknasetra 2015

Ársskýrsla Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands 2015 er komin í birtingu á vef stofnunarinnar. Skýrslan er ríkulega myndskreytt og greinir frá helstu áföngum í starfsemi rannsóknasetra Háskóla Íslands á landsbyggðinni á árinu 2015. Ársskýrslan er að venju gefin út í tengslum við ársfund Stofnunar rannsóknasetra HÍ en hann er að þessu sinni haldinn í Stykkishólmi í tilefni af því að 10 ár eru síðan Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Snæfellsnesi tók til starfa.

Ársfundurinn verður í Hótel Stykkishólmi föstudaginn 15. apríl og hefst dagskráin kl. 13.  Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra setur fundinn og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands og Sturla Böðvarsson, bæjarstjóri Stykkishólmsbæjar, flytja ávörp. Á fundinum verða flutt fjölbreytt og áhugaverð erindi sem öll tengjast náttúru og nytjum, en nánar má fræðast um dagskrá ársfundarins á vefsíðu Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands .

Pages

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is