Aðalvefur

Erlendir ferðamenn á Húsavík, Seyðisfirði, Egilsstöðum, Ísafirði, í Stykkishólmi og Mývatnssveit

Niðurstöður sumarkönnunar um erlenda ferðamenn á Húsavík, Seyðisfirði, Egilsstöðum, Ísafirði, í Stykkishólmi og Mývatnssveit hafa verið birtar á vef Rannsóknamiðstöðvar ferðamála. Skýrslurnar byggja á spurningakönnun sem framkvæmd var á fyrrgreindum stöðum sumarið 2016 og er samstarfsverkefni Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Húsavík og Rannsóknamiðstöðvar ferðamála. Könnunin hefur verið framkvæmd árlega frá sumrinu 2013 á alls ellefu stöðum. Höfundur og umsjónaraðili verkefnisins er Lilja Berglind Rögnvaldsdóttir og verkefnið var fjármagnað af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu

Meðal þess sem kemur fram í skýrslunum er að ástæður heimsóknar, dvalartími og neyslumynstur erlendra ferðamanna reyndust talsvert ólík eftir stöðum. Aðdráttarafl hvers svæðis var ýmist bundið náttúru þess, afþreyingu eða staðsetningu. Útgjöld tengdust þjónustuframboði á hverjum stað og því sem helst dró ferðamenn til svæðisins. Þegar útgjöldin voru reiknuð á alla gesti svæðisins voru þau hæst á Húsavík þar sem helmingur útgjalda reyndust vera vegna afþreyingar. Gestir staðanna voru almennt ánægðir með dvölina og víða voru jákvæðar athugasemdir um náttúrufegurð og þjónustu en einnig komu fram athugasemdir um það sem betur mætti fara s.s. aðstöðu á tjaldsvæðum, bílastæði, upplýsingagjöf til ferðamanna ofl. Margt var líkt með gestum þessara staða, s.s. búsetuland þeirra, ferðafélagar, val á gistimáta og uppruni upplýsinga.

Niðurstöður vegna sömu könnunar sumarið 2017 á sex áfangastöðum hafa verið birtar í Mælaborði ferðaþjónustunnar en ítarlegri skýrslur verða gefnar út síðar á þessu ári.

Með öræfin í bakgarðinum - Ráðstefna um tengsl samfélags og hálendis á Austurlandi

Dagana 24. – 25. maí 2018 verður haldin ráðstefna á Egilsstöðum á Fljótsdalshéraði undir yfirskriftinni "Með öræfin í bakgarðinum. Um tengsl hálendis og samfélags á Austurlandi." Fyrir ráðstefnunni stendur Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands á Austurlandi í samvinnu við Söguslóðir Austurlands, Náttúrustofu Austurlands, Minjasafn Austurlands, Vatnajökulsþjóðgarð/Snæfellsstofu og Óbyggðasetur Íslands. Á ráðstefnunni flytja vísindamenn á sviði ýmissa fræðigreina erindi auk þess sem heimamenn leggja sitt af mörkum um sögu byggðar og öræfa fyrr og nú. 

Ráðstefnan er öllum opin og ekkert ráðstefnugjald en gestir kosta sjálfir sína gistingu og málsverði eftir eigin hentugleikum og hafa úr að velja ýmsa staði á Egilsstöðum til að kaupa sér veitingar af fjölbreyttu tagi. Ef fólk gerir sér ferð austur af þessu tilefni er ráðlegt að panta gistingu sem fyrst, og flug ef ferðast er flugleiðis. Nánari upplýsingar veitir Unnur B. Karlsdóttir: unnurk@hi.is og sími 8919979.

* Upp á skipulag ráðstefnudagskrár eru gestir beðnir um að skrá sig. Frestur til skráningar er til 10 maí. Vinsamlega skráið þátttöku hér

Sjá nánar um þátttakendur og efni fyrirlestra í ráðstefnubæklingi hér.

Dagskrá

Fimmtudagur 24. maí

Hótel Hérað - fundarsalur á jarðhæð.

9:15: Mæting og afhending ráðstefnugagna.

9:30-9:40: Setning: Björn Ingimarsson bæjarstjóri.

9:40-10:20: Unnur Birna Karlsdóttir: Hreppsveiðar og sportveiðar á hreindýrum 1954-1972.

10:20-11:00: Skarphéðinn G. Þórisson: Heiðagæsir og hreindýr á hásléttu Austurlands.

11:00-11:40: Guðrún Óskarsdóttir: Gróður á hásléttu Austurlands.

11:40-12:40: Hádegishlé.

12:40-13:20: Steinunn Kristjánsdóttir: Úr Fljótsdal og suður á land.

13:20-14:00: Elsa Guðný Björgvinsdóttir: „Allt dauðlegt hlítur að deyja“ - Upplifun fólks af öskufallinu 1875.

14:00-14:40: Snorri Baldursson: Vatnajökulsþjóðgarður á heimsminjaskrá UNESCO.

14:40-15:00: Kaffihlé.

15:00-15:15: Baldur Pálsson: Lesnir valdir kaflar úr endurminningum heiðarbúa.

15:15-15.35: Hjördís Hilmarsdóttir í samstarfi við HS Tókatækni o.fl.: Heiðarbýlin - 100 ára byggðasaga. Einnig kynntur bæklingur um heiðarbýlin og vegvísa í heiðinni og hvernig hægt er að nálgast upplýsingar um heiðarbýlin og ábúendur þeirra á heimasíðu Ferðafélags Fljótsdalshéraðs.

15:35-16:15: Pallborð og umræður

Hlé.

17:00:-18:30: Móttaka í Minjasafni Austurlands í Safnahúsinu á Egilsstöðum. Ráðstefnugestum stendur til boða að skoða sýninguna „Hreindýrin á Austurlandi“ og aðrar sýningar í húsinu, í boði léttar veitingar.

 

Föstudagur 25. maí

Hótel Hérað - fundarsalur á jarðhæð.

9:20-10:00: Ívar Örn Benediktsson: Er nútíðin lykillinn að fortíðinni? Um landmótun jökla á öræfum og forna ísstrauma Norðaustur- og Austurlands.

10:00-10:40: Hreggviður Norðdahl: Myndun og saga Lagarins í kjölfar hörfunar jökla af Úthéraði og úr Fljótsdal fyrir um 12.000 árum síðan.

10:40-11:20: Esther Ruth Guðmundsdóttir: Hvaða upplýsingar geymir Lögurinn um eldvirkni á Íslandi?

 

11:30-18:00: Boðið í söguferð. Fararstjórn og leiðsögumaður Baldur Pálsson frá Aðalbóli í Hrafnkelsdal.  

11:30: Lagt af stað í rútu frá Hótel Héraði og keyrt inn í Fljótsdal.

12:10-13:00: Hádegisverður í Klausturkaffi. - *Verð per mann greiðir hver fyrir sig á staðnum; 1800 kr. súpa og kaffi, en hægt að panta annað af matseðli. 

13:15-14:00: Heimsókn í Vatnajökulsþjóðgarð/Snæfellsstofu. Móttaka þjóðgarðsvarðar og kynning á starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs og sýning um þjóðgarðinn skoðuð.

14:15-15:45: Heimsókn í Óbyggðasafn Íslands. Móttaka staðarhaldara og kynning á starfsemi safnsins og sýningin skoðuð.

15:45: Skyggnst upp á heiði eftir gangnamönnum, hreindýraþjófum og Hrafnkeli Freysgoða, heiðagæsum og hreindýrum, þ.e. horft yfir söguslóðir og náttúru á Fljótsdalsheiði og á öræfum eins og útsýni gefst. (Varaáætlun ef veður krefst.)

17:30-18:00: Komið aftur í Egilsstaði. Ferðar- og ráðstefnulok.

 

 

 

Auglýst er eftir forstöðumanni Rannsóknaseturs HÍ á Austurlandi

Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands auglýsir til umsóknar starf forstöðumanns Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Austurlandi, sem jafnframt er starf sérfræðings.

Stofnun Rannsóknasetra Háskóla Íslands hyggst koma að nýju á fót Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Austurlandi sem starfaði þar á árunum 2008 til 2010. Frá haustinu 2014 hefur akademískur sérfræðingur á vegum stofnunarinnar haft aðsetur og unnið sínar rannsóknir á Austurlandi.

Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Austurlandi er ætlað að sinna rannsóknum á breiðu sviði með áherslu á tengsl manns og náttúru. Auk sjálfstæðra akademískra rannsókna hefur forstöðumaður umsjón með starfsemi setursins, fjármálum þess og daglegum rekstri. Hann skipuleggur rannsóknir og samstarfsverkefni, hefur með höndum áætlanagerð og stýrir sókn í sjóði. Hann þarf að geta tekið að sér leiðbeiningu háskólanema í framhaldsnámi og aðra kennslu á háskólastigi.

Innan Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands eru 9 sjálfstæð rannsóknasetur víða um land. Rannsóknir eru meginviðfangsefni rannsóknasetranna, og eru viðfangsefnin fjölbreytt og tengjast nærumhverfi setranna með einhverjum hætti. Lögð er rík áhersla á árangur í starfi, áhrif og gæði rannsókna og hagnýtingu rannsóknaniðurstaðna. Þá er stofnunin jafnframt vettvangur samstarfsverkefna háskólans við sveitarfélög, stofnanir, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklinga á landsbyggðinni.

Umsækjendur skulu hafa lokið doktorsprófi á sviði umhverfisfræða, t.d. í umhverfissagnfræði eða skyldum greinum og hafa stundað sjálfstæðar rannsóknir á því sviði. Frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum, lipurð í mannlegum samskiptum, gott vald á ensku og íslensku er nauðsyn. Reynsla af alþjóðasamstarfi sem og reynsla af þverfræðilegu samstarfi er æskileg. Þá er reynsla af sókn í innlenda sem erlenda rannsóknasjóði kostur. Umsækjendur skulu leggja fram rannsóknaáætlun til fimm ára þar sem skal koma fram hvernig rannsóknir umsækjanda tengjast Austurlandi.

Forstöðumaðurinn verður starfsmaður Háskóla Íslands en hefur starfsaðstöðu við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Austurlandi. Starfsstöð setursins er á Egilsstöðum og er gert ráð fyrir að forstöðumaðurinn gegni starfi sínu þaðan. Búseta á svæðinu er skilyrði. Um fullt starf er að ræða og verður ráðið í starfið til fimm ára með möguleika á ótímabundinni ráðningu að þeim tíma liðnum, sbr. 3. mgr. 31. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst.

Um meðferð umsókna, mat á hæfi umsækjenda og ráðningu í starfið er farið eftir ákvæðum laga um Háskóla nr. 85/2008 og reglna um Háskóla Íslands nr. 569/2009. Sérstök nefnd sem rektor skipar annast mat og forgangsröðun umsókna.

Umsóknarfrestur er til 30. apríl 2018.

Sótt er um starfið á vefsíðu Háskóla Íslands undir laus störf.

Umsækjendur skulu láta rannsóknaáætlun til fimm ára fylgja umsókn sinni, vottorð um námsferil sinn og störf, ritaskrá, skýrslu um vísindastörf og önnur störf sem þeir hafa unnið. Í umsókn skal koma fram hver ritverka sinna, allt að átta talsins, umsækjandi telur veigamest með tilliti til þess starfs sem um ræðir. Umsækjandi sendir eingöngu þessi ritverk sín með umsókn, eða vísar til þess hvar þau eru aðgengileg á rafrænu formi. Þegar fleiri en einn höfundur stendur að innsendu ritverki skulu umsækjendur gera grein fyrir framlagi sínu til verksins. Enn fremur er ætlast til þess að umsækjendur láti fylgja með umsagnir um kennslu- og stjórnunarstörf sín, eftir því sem við á. Umsókn og umsóknargögn sem ekki er skilað rafrænt skal skila í tvíriti til Vísinda- og nýsköpunarsviðs Háskóla Íslands, Sæmundargötu 2, 101 Reykjavík.

Allar nánari upplýsingar um starfið veitir Sæunn Stefánsdóttir, forstöðumaður Stofnunar Rannsóknasetra Háskóla Íslands í síma 525 4041, saeunnst@hi.is .

Öllum umsækjendum verður svarað og þeim tilkynnt um ráðstöfun starfsins þegar ákvörðun liggur fyrir. Umsóknir geta gilt í sex mánuði frá lokum umsóknarfrests.

Laun eru samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðherra og Félags háskólakennara.

Við ráðningu í störf við Háskóla Íslands er tekið mið af jafnréttisáætlun Háskóla Íslands.

Vakin er athygli á málstefnu Háskóla Íslands.

Tímarit Háskóla Íslands 2018 er komið út

Tímarit Háskóla Íslands 2018 er komið út. Þar er að finna fjölbreyttar greinar um starfsemi háskólans um land allt. Í því má meðal annars vinna viðtal við Jón Jónsson, þjóðfræðing við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Ströndum - Þjóðfræðistofu, um fólk og birni á förum um landið. Þá er einnig rætt við Chörlu Basran, doktorsnema við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Húsavík, um rannsóknaverkefni hennar um hnúfubaka í veiðarfærum. Rannsókn á ferðavenjum og útgjöldum ferðamanna á völdum áfangastöðum um landið er umræðuefnið í viðtali við Lilju Rögnvaldsdóttur, verkefnisstjóra við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Húsavík. Þá er einnig fjallað um í Tímaritinu rannsókn Jukka Siltanen, meistaranema í umhverfis- og auðlindafræði, um efnahagslega leyndardóma Snæfellsjökuls. Þorvarður Árnason, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Hornafirði, var einn leiðbeinenda Jukka í verkefninu. 

Í tímaritinu er svo einnig að finna viðtal við Birnu Gunnarsdóttur, verkefnisstjóra við Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands og á Nýsköpunar- og vísindasviði HÍ, um opin vísindi. 

Sjón er sögu ríkari. Tímaritið má finna hér. 

Verndun sjávar og griðarsvæði - ráðstefna 22. febrúar

Verndun sjávar og griðarsvæði er áleitið viðfangsefni sem verður til umfjöllunar á ráðstefnu í Hvalasýningunni á Granda, fimmtudaginn 22. febrúar nk. frá kl. 13:00 til 17:00. 
 
Sérstakir gestir og fyrirlesarar eru Ben Haskell, stjórnandi Stellwagen Bank griðarsvæðisins í Massachusetts í BNA, og Marc Richir, sérfræðingur ESB í málefnum hafsins. 
 
Aðrir fyrirlesarar eru Marianne Rasmussen, forstöðumaður Rannsóknarseturs HÍ á Húsavík, Gísli Víkingsson, yfirmaður hvalarannsókna hjá Hafrannsóknarstofnun, og Huld Hafliðadóttir, verkefnastjóri hjá Hvalasafninu á Húsavík. Nánar má lesa um fyrirlesarana hér. 
 
Aðgangur er ókeypis og í boði eru léttar kaffiveitingar. Í lok ráðstefnunnar verður mótttaka í boði IFAW samtakanna í Hvalasýningunni.
 
Allir eru velkomnir. 
 
 

Innsetningarathöfn Marianne Rasmussen

Marianne Rasmussen, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Húsavík, hefur hlotið framgang í starf vísindamanns. Við þau tímamót er við hæfi að líta yfirfarinn veg og því mun Stofnun rannsóknsetra Háskóla Íslands standa fyir hátíðlegri athöfn þar sem Marianne heldur tölu og fer yfir farinn veg.

Titill erindis: 

Sound, communication, hearing and behaviour of Cetaceans in Icelandic waters

Dagskrá:

Setning - Sæunn Stefánsdóttir, forstöðumaður Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands

Sound, communication, hearing and behaviour of Cetaceans in Icelandic waters  - Marianne Rasmussen, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Húsavík

Lokaorð

Athöfnin stendur yfir í um klukkustund og heldur Marianne erindi sitt á ensku.

Boðið verður upp á léttan hádegisverð að athöfn lokinni. Vinsamlegast skráið ykkur til þátttöku svo hægt sé að áætla veitingarnar. 

Facebookviðburður

Sumarnámskeiðið

Hið árlega sumarnámskeið á vegum Líf- og umhverfisvísindadeildar Háskóla Íslands, í samstarfi við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Húsavík, verður 3. til 12. júní nk. Námskeiðið er haldið á Húsavík í júní ár hvert.

Dr. Marianne Rasmussen, líffræðingur og sérfræðingur í sjávarspendýrum, stýrir námskeiðinu. Námskeiðið er byggt á fyrirlestrum Dr. Marianne, auk gestafyrirlesara, kennslu og fræðslu á notkun mismunandi rannsóknaaðferða.

Á síðasta ári voru 19 nemendur frá 14 þjóðlöndum. Námskeiðið hefur verið haldið í 9 ár og hafa yfir 200 nemendur af fjölmörgum þjóðernum sótt Húsavík heim meðan á námskeiðinu stendur. 

Umsóknarfrestur er til 15. mars. Smellið hér til að nálgast rafrænt skráningarblað. 

Vilhelm Vilhelmsson ráðinn forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ á Norðurlandi vestra

Vilhelm Vilhelmsson sagnfræðingur hefur verið ráðinn forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra. Í nóvember sl. var auglýst til umsóknar starf forstöðumanns rannsóknasetursins með áherslu á sagnfræði. Tvær umsóknir bárust um starfið. Að loknu dómnefnar- og valnefndarferli var Vilhelm ráðinn forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ á Norðurlandi vestra frá 1. febrúar.

Vilhelm lauk doktorsprófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands 2015, en áður hafði hann lokið BA prófi í sagnfræði frá Kaupmannahafnarháskóla (2009) og meistaraprófi frá Háskóla Íslands (2011). Vilhelm hefur sérhæft sig í rannsóknum á félagssögu, verkalýðssögu og sögu alþýðunnar, þó rannsóknasvið hans sé víðara. Doktorsritgerð hans bar heitið: „Sjálfstætt fólk? Vald og andóf á Íslandi á tímum vistarbands.“

Vilhelm hefur sinnt rannsóknum  sem sjálfstætt starfandi fræðimaður undanfarin ár og komið að margvíslegum verkefnum, m.a. kennslu við Háskóla Íslands. Eftir hann hafa komið út tvær ritrýndar bækur, „Sakir útkljáðar. Sáttabók Miðfjarðarumdæmis í Húnavatnssýslu 1799-1865, gefin út af Háskólatútgáfunni og Sjálfstætt fólk. Vistarband og íslenskt samfélag, gefin út af Sögufélaginu. Var Vilhelm tilnefndur til íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðirita fyrir þá bók.

Þá hefur Vilhelm birt ritrýndar greinar, skrifað bókarkafla, aðrar greinar og  ritdóma, og haldið fyrirlestra. Vilhelm hefur einnig komið að fjölmörgum verkefnum í samvinnu við aðrar aðila og stofnanir, eins og gerð ljósmynda- og sögusýningar, gerð sagnfræðilegs efnis fyrir ferðaþjónustu og ráðstefnuhaldi.

Vilhelm sat í stjórn Sagnfræðingafélagi Íslands 2012 til 2017 og gegndi þar formennsku 2015 til 2017. Þá er Vilhelm annar tveggja ritstjóra Sögu, tímarits Sögufélagsins.

Rannsóknasetur HÍ á Norðurlandi vestra var stofnað 2009  og er eitt rannsóknasetra Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands. Megináhersla þess í rannsóknum er sagnfræði. Starfsstöð setursins er á Skagaströnd.

Starfsfólk Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands býður Vilhelm hjartanlega velkominn til starfa. 

Jöklar í vísindum, listum og myndum

„Jöklar í vísindum, listum og myndum“ er yfirskrift nýrrar ljósmyndasýningar opnaði sl. föstudag 26. janúar á Háskólatorgi, í Tröðinni. Sýningin mun standa yfir í fjórar vikur, þ.e. til 23. febrúar. Myndirnar á sýningunni eru eftir Snævarr Guðmundsson jöklajarðfræðing og Þorvarð Árnason, umhverfisfræðing og forstöðumann Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Höfn í Hornafirði. Sýningin fjallar um íslenska jökla og leggur bæði áherslu á myndræna skráningu á áhrifum hnattrænna loftslagsbreytinga á jökla og fegurð þeirra og tign.

Snævarr Guðmundsson er deildarstjóri hjá Náttúrustofu Suðausturlands með aðsetur á Höfn í Hornafirði. Hann hefur stundað rannsóknir á íslenskum jöklum og hopi þeirra um árabil. Í rannsóknum sínum hefur Snævarr m.a. skoðað möguleika þess að meta hop jökla út frá sögulegum myndheimildum, einkum ljósmyndum og kortum. Hann hefur þegar birt eina grein um slíkar rannsóknir í Jökli. Snævarr hefur um langa hríð lagt stund á ljósmyndun samhliða vísindastörfum og gefið út tvær bækur, Þar sem landið rís hæst - Öræfajökull og Öræfasveit (1999) og Íslenskur stjörnuatlas (2004), auk þess að leggja til ljósmyndir af landslagi, jöklum og stjarnfræðilegum fyrirbærum í bækur eftir aðra höfunda.

Þorvarður Árnason er forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Hornafirði. Hann hefur fengist við ljósmyndun og kvikmyndagerð í um þrjá áratugi samhliða fræðistörfum. Þorvarður hefur skrifað nokkrar fræðigreinar um ljóslistir, m.a. í Tímarit Máls og Menningar. Hann hefur einnig leitast við að þróa sjónrænar rannsóknaraðferðir, einkum fyrir rannsóknir á landslagi og upplifun þess en seinni árum einnig til að afla og miðla heimildum um áhrif hnattrænna loftslagsbreytinga á íslenska jökla. Þorvarður hefur haldið fjölda einkasýninga á ljósmyndum sínum og gefið út eina bók, Jökulsárlón – Árið um kring (2010).

Myndirnar á sýningunni voru upphaflega útbúnar vegna ráðstefnunnar „Jöklar í bókmenntum, listum og lífinu“ sem fram fór á Höfn dagana 28.-30. apríl 2017. Ráðstefnan var á vegum Rannsóknasetursins á Hornafirði í samvinnu við Náttúrustofu Suðausturlands og Menningarmiðstöð Hornafjarðar. Til ráðstefnunnar var boðið rithöfundum og fræðimönnum á sviði bókmennta, myndlistar, heimspeki og jöklafræða, auk þess sem settar voru upp sýningar í Listasafni Svavars Guðnasonar og í Nýheimum.

Dagskrá hennar má finna á vef Rannsóknasetursins. Fyrirlestrarnir voru teknir upp af Ríkisútvarpinu og eru efni þáttaraðar sem finna má á vef RÚV.

Ráðstefnan, þ.m.t. gerð þessara mynda, var styrkt af Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Vinum Vatnajökuls og rektor Háskóla Íslands.

Pages

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is