Hólmavík

Styrkur til Rannsóknaseturs HÍ á Ströndum - Þjóðfræðistofu til söfnunar upplýsinga og skráningar menningararfs

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Ströndum - Þjóðfræðistofa hlaut á dögunum styrk til söfnunar upplýsinga og skráningar menningararfs. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra úthlutaði  styrkjum vegna fjarvinnslustöðva. Valnefnd um samkeppnisframlög úr stefnumótandi byggðaáætlun 2018-2024 bárust 16 umsóknir sem sóttu samtals um 180 m.kr. en 30 m.kr. voru til úthlutunar.

Verkefni Rannsóknaseturs HÍ á Ströndum hlýtur samtals 18 m.kr. í styrk á þremur árum. Nánari upplýsingar veitir Jón Jónsson, þjóðfræðingur og verkefnisstjóri við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Ströndum - Þjóðfræðistofu.

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra, hlaut einnig styrk úr sama sjóði til að koma upp gagnagrunni sáttanefndabóka. 

Bókaútgáfa: Á mörkum mennskunnar

Út er komin bókin Á mörkum mennskunnar. Viðhorf til förufólks í sögnum og samfélagi, eftir Jón Jónsson þjóðfræðing. Af því tilefni verður haldin kynning á bókinni þar sem Jón flytur erindi um efnið þriðjudaginn 11. september kl. 15:00 í kennslustofunni G-102 sem er í húsinu Gimli sem er ein af byggingum Háskóla Íslands (á milli Odda og Aðalbyggingar). Öll sem áhuga hafa eru hjartanlega velkomin á þennan útgáfufögnuð. 

Í kynningu á bókinni sem kemur út í ritröðinni Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar segir: Sögur af sérkennilegu fólki hafa lengi heillað Íslendinga. Þar á meðal eru fjölbreyttar sagnir um fátækt förufólk sem flakkaði um landið fyrr á öldum. Hér er fjallað um þessar frásagnir og stöðu flakkara í samfélaginu fram á 20. öldina. Þeir voru umtalaður hópur, rækilega jaðarsettur og oft líkari þjóðtrúarverum en manneskjum í sögunum. Hörmulegt atlæti Stuttu-Siggu í æsku, skringileg skemmtiatriði Halldórs Hómers, rifin klæði Jóhanns bera og uppreisnarseggurinn Sölvi Helgason koma öll við sögu.

Jón Jónsson er þjóðfræðingur sem býr og starfar norður á Ströndum, Jón hefur unnið að margvíslegum nýsköpunar- og miðlunarverkefnum á sviði þjóðfræði og starfar nú hjá Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Ströndum - Þjóðfræðistofu sem hefur aðsetur á Hólmavík. Hann var áður menningarfulltrúi Vestfjarða og rak fyrirtækið Sögusmiðjuna.

Viðburðurinn er haldinn af Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild Háskóla Íslands í samvinnu við Miðstöð einsögurannsókna, Félag þjóðfræðinga og Rannsóknasetur HÍ á Ströndum.

Skessur sem éta karla

Mánudaginn 10. september kl. 17:00 verður opnuð sýningin Skessur sem éta karla í Borgarbókasafninu í Spönginni í Reykjavík. Heiðurinn af þessari spennandi sýningu á Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðingur sem hefur rannsakað mannát í íslenskum þjóðsögum. Það birtist í nokkrum tröllasögum og næstum alltaf eru það tröllskessur sem éta karla. Þetta vitnar um átök kynjanna í þessum sögnum sem flestum var safnað og skrifaðar niður af körlum. Öll sem áhuga hafa eru boðin hjartanlega velkomin á opnun sýningarinnar mánudaginn 10. september kl. 17! Sýninguna má svo skoða á opnunartíma safnsins, mán-fim 10-19, fös 11-19 og lau 12-16, til og með 3. október.

Í rannsókninni spyr Dagrún hvað sögurnar segi okkur um samfélagið sem þær spretta úr og fléttar saman þjóðsögunum og nýrri hugmyndum um femínisma. Niðurstöðurnar birtast svo á veggspjöldum á sýningunni sem er myndskreytt af Sunnevu Guðrúnu Þórðardóttur sem teiknaði myndina sem hér fylgir.

Vinnan við uppsetningu sýningarinnar er styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna og unnin í samstarfi við Rósu Þorsteinsdóttur þjóðfræðing hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Jón Jónsson þjóðfræðing hjá Rannsóknasetri HÍ á Ströndum - Þjóðfræðistofu.

Í tengslum við sýninguna heldur Dagrún Ósk einnig fyrirlestur undir yfirskriftinni "Fáir hafa notið bónda síns betur en ég" á Borgarbókasafninu í Spönginni, mánudaginn 24. september kl. 17:15.

Jón Jónsson ráðinn verkefnisstjóri við Rannsóknasetur HÍ á Ströndum - Þjóðfræðistofu

Jón Jónsson þjóðfræðingur hefur verið ráðinn verkefnisstjóri Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Ströndum – Þjóðfræðistofu. Starfið var auglýst í júli sl. og bárust þrjár umsóknir. Jón er með meistarapróf í þjóðfræði frá Háskóla Íslands. Áður en hann kom til starfa við rannsóknasetrið starfaði hann sem menningarfulltrúi Vestfjarða í tæpan áratug. Þar áður rak Jón rekið eigið fyrirtæki á sviði miðlunar sögu og þjóðfræða. Jón hefur stundið margvíslegar rannsóknir í þjóðfræði og nýverið gaf Háskólaútgáfan út bók hans Á mörkum mennskunnar. Viðhorf til förufólks í sögnum og samfélagi.

Jón hefur gegnt tímabundnu starfi við rannsóknasetrið síðustu tvö árin eða frá því að setrinu var komið á fót haustið 2016. Sæunn Stefánsdóttir, forstöðumaður Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Ísland, segir að með ráðningunni sé starfið orðið ótímabundið og þannig mikilvægt skref tekið til að festa starfsemi Rannsóknaseturs HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofu enn betur í sessi.

Með samningi mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands í ársbyrjun 2016 var sett af stað vinna við að greina tækifæri og leiðir við að koma rannsóknasetrinu á fót, en áður hafði Strandagaldur staðið fyrir rekstri Þjóðfræðistofu á Hólmavík. Á grunni þessarar vinnu varð úr að ráðuneytið fól Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands að hefja starfsemi rannsóknaseturs í þjóðfræði á Ströndum, í náinni samvinnu við heimamenn. Að hluta til er byggt á þeim góða grunni sem áður hafði verið lagður með starfsemi Þjóðfræðistofu Strandagaldurs. Aðsetur rannsóknasetursins er í Þróunarsetrinu á Hólmavík.

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Ströndum – Þjóðfræðistofa er eitt af níu rannsóknasetrum Háskóla Íslands um landið. Viðfangsefni þeirra eru fjölbreytt, en á meðal þeirra eru lífríki hafsins, umhverfi og landnýting, hvalir, fiskar og fuglar, ferðamál, bókmenntir, sagnfræði, fornleifafræði og þjóðfræði.

Markmið Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands er m.a. að stuðla að rannsóknum, menntun og leiðbeiningu framhaldsnema víða um land og vera vettvangur samstarfsverkefna háskólans við nærumhverfi og nærsamfélög setranna. Með þeim hætti leggja rannsóknasetrin sitt af mörkum við að efla tengsl Háskóla Íslands við atvinnu- og þjóðlíf. Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands býður Jón Jónsson hjartanlega velkominn til starfa.

Þjóðtrúarkvöldvaka: Á mörkum lífs og dauða

Laugardagskvöldið 8. september 2018 verður haldin árleg þjóðtrúarkvöldvaka í félagsheimilinu Sævangi við Steingrímsfjörð á Ströndum. Það eru Rannsóknasetur HÍ á Ströndum - Þjóðfræðistofa, Fjölmóður - fróðskaparfélag á Ströndum og Sauðfjársetur á Ströndum sem standa fyrir kvöldvökunni sem að þessu sinni hefur yfirskriftina: Á mörkum lífs og dauðaKvöldvakan hefst kl. 20:00.

Á boðstólum verður kynngimagnað kvöldkaffi og tónlistaratriði til skemmtunar. Það er Skúli Gautason sem sér um tónlistina og verðið á hinu yfirnáttúrulega kaffihlaðborði er kr. 1.800.- á mann. 

Yfirleitt hefur verið rætt um óvenjuleg og stundum dálítið ógnvænleg efni á þessum kvöldvökum og svo verður áfram. Þau sem tala á kvöldvökunni að þessu sinni nálgast dauðann hvert með sínum hætti, en titlar og fyrirlesarar eru:

Er andi í glasinu?Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðingur og doktorsnemi
Ýluskarð og Skæluklöpp: Útburðir í íslenskri þjóðtrúJón Jónsson þjóðfræðingur hjá Rannsóknasetri HÍ á Ströndum 
Bara annarsstaðar: Um ljósmyndir af látnumSigurjón Baldur Hafsteinsson prófessor í safnafræði við HÍ. 

Verið öll hjartanlega velkomin!

 

Auglýst eftir verkefnisstjóra við Rannsóknasetur HÍ á Snæfellsnesi

Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands auglýsir laust til umsóknar starf verkefnisstjóra við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Snæfellsnesi, sem staðsett er í Stykkishólmi.
 
Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Snæfellsnesi sinnir rannsóknum á sjófuglum á Breiðafirði, einkum æðarfugli. Rannsóknasetrið hefur aðsetur í Ráðhúsi Stykkishólms. Verkefnisstjórinn mun hafa umsjón með langtímarannsóknum setursins á fuglastofnum. Í því felst m.a. fjölbreytt gagnaöflun á vettvangi, umsjón gagnagrunna, úrvinnsla og kynning á niðurstöðum í ræðu og riti. Verkefnisstjórinn mun einnig koma að öðrum verkefnum rannsóknasetursins og taka þátt í greinaskrifum og styrkumsóknum. Þá verður verkefnisstjórinn þátttakandi í sérhæfðu rannsóknateymi ásamt forstöðumanni og samstarfsmönnum.
 
Innan Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands eru níu sjálfstæð rannsóknasetur víða um land. Markmið stofnunarinnar er m.a. að skapa aðstöðu til rannsókna á landsbyggðinni og vera vettvangur samstarfsverkefna háskólans við sveitarfélög, stofnanir, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklinga á landsbyggðinni.
 
Hæfniskröfur:
 • Háskólapróf í líffræði eða vistfræði, meistarapróf er kostur.
 • Reynsla í öflun vistfræðilegra gagna og umsjón gagnasafna.
 • Frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum, lipurð í mannlegum samskiptum.
 • Gott vald á ensku og íslensku.
 • Góður grunnur í tölfræði er æskilegur.
 • Reynsla af stofnrannsóknum á fuglum, fuglamerkingum eða annarri rannsóknavinnu utan dyra er æskileg.
 • Reynsla af alþjóðasamstarfi, af þverfræðilegu samstarfi og sókn í rannsóknasjóði er kostur.
Verkefnisstjórinn verður starfsmaður Háskóla Íslands en hefur starfsaðstöðu við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Snæfellsnesi. Búseta á svæðinu er skilyrði. Um fullt starf er að ræða.
 

Umsóknarferli

Umsóknarfrestur er til 27. ágúst 2018.
Æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst.
Sótt er um starfið á vefsíðu Háskóla Íslands undir laus störf.
 
Öllum umsóknum verður svarað og umsækjendum tilkynnt um ráðstöfun starfsins þegar ákvörðun hefur verið tekin. Umsóknir geta gilt í sex mánuði frá lokum umsóknafrests.
 
Laun eru samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðherra og Félags háskólakennara.
 
Allar nánari upplýsingar um starfið veitir Jón Einar Jónsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Snæfellsnesi í síma 8472436 og joneinar@hi.is.
 
Við ráðningu í störf í Háskóla Íslands er tekið mið af jafnréttisáætlun skólans.
 
Vakin er athygli á málstefnu Háskóla Íslands.

Fjörugt sumar á Hólmavík

Það er búið að vera heilmikið um að vera hjá Rannsóknasetri HÍ á Ströndum - Þjóðfræðistofu í sumar, einkum í skemmtilegum samstarfsverkefnum í héraðinu. Styrkur fékkst frá Nýsköpunarsjóði námsmanna til að ráða Agnesi Jónsdóttir þjóðfræðinema og Guðrúnu Gígju Jónsdóttur MA-nema í hagnýtri menningarmiðlun til að vinna að verkefni sem heitir Hólmavík - íbúabyggð og ferðamannastaður. Það snýst um hugmyndavinnu og greiningu á sérstöðu þorpsins og í framhaldinu umbætur á útivistarsvæðum og almannarýmum í þorpinu, bæði íbúum og ferðafólki til hagsbóta. Haldinn hefur verið íbúafundur um verkefnið á Hólmavík og heilmiklu efni safnað um skoðanir heimamanna. Verkefnið er unnið í samstarfi við sveitarfélagið Strandabyggð sem fékk stuðning frá Styrktarsjóði EBÍ til vinnunar. Einnig er stefnt að samstarfi við Sóknaráætlun Vestfjarða um að gera uppskrift að aðferðinni svo hægt verði að ráðast í sambærilegt vinnuferli í öðrum minni þorpum í fjórðungnum. 

Strandir í verki er verkefni sem Leikfélag Hólmavíkur er á bak við og snýst um skapandi sumarstörf fyrir unglinga á framhaldsskólaaldri. Það er unnið í samvinnu við Rannsóknasetur HÍ á Ströndum, Sauðfjársetur á Ströndum og sveitarfélagið Strandabyggð. Þrjú ungmenni sóttu um þátttöku og hafa í sumar starfað að margvíslegum skapandi verkefnum sem tengjast að nokkru leyti svæðinu, þjóðsagnaarfi og sögu þess. Rakel Ýr Stefánsdóttir leiklistarnemi hefur verið listrænn stjórnandi þessa verkefnis. Stúlkurnar sem taka þátt hafa m.a. unnið að skapandi skrifum og sett upp frumsaminn leikþátt Of(s)ein, sem er gamandrama um sambönd og samskipti í nútímanum. Þær hafa einnig sýnt þjóðsagna- og galdratengt leikrit á bæjarhátíðum á Hólmavík og Reykhólum og Náttúrubarnahátíð á Ströndum, auk þess að bregða sér í hlutverk Strandanorna sem rýna í fortíð, samtíma og framtíð fólks. Skemmtikvöld, Open Mic, hefur einnig verið haldið á veitingastaðnum Café Riis. Verkefnið fékk stuðning frá Uppbyggingarsjóði Vestfjarða 2018. 

Náttúrubarnaskólinn hefur verið í fullum gangi á Sauðfjársetrinu í Sævangi í sumar, en hann er í góðu samstarfi við Rannsóknasetur HÍ á Ströndum. Hann hefur starfað í 4 sumur og var nýsköpunarsjóðsverkefni sem Jón Jónsson þjóðfræðingur hafði umsjón með árin 2016 og 2017. Heilmikil Náttúrubarnahátíð var haldin um miðjan júlí og var þar mikið um dýrðir. Dagrún Ósk Jónsdóttir sem lauk í vor meistaraprófi í þjóðfræði hefur umsjón með Náttúrubarnaskólanum. Hún fékk í sumar Lóuna - menningarverðlaun Strandabyggðar fyrir verkefnið. Síðan því var komið á laggirnar hefur það fengið góðan stuðning úr Safnasjóði og Uppbyggingasjóði Vestfjarða, Nýsköpunarsjóði námsmanna og fleiri aðilum. 

Tvær ráðstefnur verða haldnar í ágúst sem Rannsóknasetur HÍ á Ströndum tekur þátt í. Annars vegar er það Vestfirski fornminjadagurinn sem haldinn verður á vegum Áhugafólks um fornleifar á Vestfjörðum á Suðureyri við Súgandafjörð þann 8. ágúst. Jón Jónsson þjóðfræðingur hjá Rannsóknasetri HÍ á Ströndum heldur þar erindið: Álagablettir, þjóðtrú og saga. Það er semsagt óáþreifanlegi menningararfurinn sem er í forgrunni hjá Jóni, en einnig talar fjöldi fornleifafræðinga á málþinginu. Annað málþing sem er framundan þann 18. ágúst í Hveravík á Ströndum hefur yfirskriftina Landnámsbær fundinn á Selströnd - málþing um minjar og menningu Stranda. Þar heldur Jón Jónsson erindi sem ber yfirskriftina Að virkja hugvitið, sögur og sagnir. Það er Bergsveinn Birgisson fræðimaður og rithöfundur sem er á bak við þetta verkefni með stuðningi frá Uppbyggingasjóði Vestfjarða og í samvinnu við fjölda aðila í héraðinu, einnig Fornleifastofnun Íslands og Háskólann í Bergen. Ráðstefnan er hluti af Menningararfsári Evrópu.

Í sumar hefur Rannsóknasetrið einnig tekið þátt í svokölluðu Sögurölti um Dali og Strandir. Það er verkefni sem söfnin á Ströndum og Dölum, Byggðasafn og Héraðsskjalasafn Dalamanna og Sauðfjársetur á Ströndum hafa staðið fyrir, ásamt Náttúrubarnaskólanum. Þessi sögurölt hafa verið mjög vinsæl, en um er að ræða rúmlega klukkustundar gönguferð þar sem meiri áhersla er lögð á fróðleik, sögur og sagnir, en gönguna sjálfa. Jón Jónsson verkefnastjóri hjá Rannsóknasetrinu hefur verið sögumaður í þremur af þessum söguröltum í sumar, Tröllaskoðunarferð í Kollafirði, Dagbókargöngu að Naustavík við Steingrímsfjörð og Þjóðsagna- og sögugöngu í Tröllatungu. Framundan er fornleifarölt í Sandvík á Selströnd þann 17. ágúst þar sem í gagni er rannsókn og þrjár göngur hafa einnig farið fram í Dölum, að fornleifauppgreftri í Ólafsdal við Gilsfjörð þar sem Birna Lárusdóttir fornleifafræðingur var sögumaður og göngur á Tungustapa og í Kumbaravog þar sem Valdís Einarsdóttir safnstjóri var sögumaður. Verkefnið er hluti af Menningararfsári Evrópu. 

Í sumar hafa verið endurfluttir á Rás 1 sex útvarpsþættir um förufólk og flakkara sem Jón Jónsson og Rósa Þorsteinsdóttir þjóðfræðingur hjá Stofnun Árna Magnússonar gerðu árið 2000. Þetta er í þriðja sinn sem þeir eru fluttir í útvarpi. Fljótlega fer bókin Á mörkum mennskunnar. Viðhorf til förufólks í sögnum og samfélagi eftir Jón Jónsson síðan í dreifingu, en þar er fjallað um sama efni: Förufólk á Íslandi, sagnir og samfélag fyrri alda. Háskólaútgáfan gefur hana út í ritröðinni Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar

Auglýst eftir verkefnisstjóra við Rannsóknasetur HÍ á Ströndum - Þjóðfræðistofu

Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands auglýsir laust til umsóknar starf verkefnisstjóra við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Ströndum – Þjóðfræðistofu, sem staðsett er á Hólmavík.

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Ströndum – Þjóðfræðistofa sinnir rannsóknum í þjóðfræði með sérstakri áherslu á hagnýtar rannsóknir á sviði þjóðfræði og hagnýtingu þjóðfræðilegrar þekkingar. Rannsóknasetrið hefur aðsetur í Þróunarsetrinu á Hólmavík. Auk sjálfstæðra rannsókna mun verkefnisstjórinn hafa umsjón með daglegri starfsemi setursins. Hann skipuleggur rannsóknir, samstarfsverkefni og sjóðasókn. Einnig er gert ráð fyrir að verkefnastjórinn sinni kennslu og leiðbeiningu nemenda á háskólastigi.

Innan Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands eru níu sjálfstæð rannsóknasetur víða um land. Markmið stofnunarinnar er m.a. að skapa aðstöðu til rannsókna á landsbyggðinni og vera vettvangur samstarfsverkefna háskólans við sveitarfélög, stofnanir, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklinga á landsbyggðinni.

Hæfniskröfur:

 • Meistarapróf í þjóðfræði.
 • Reynsla af rannsóknastarfi og hagnýtingu þjóðfræðilegrar þekkingar.
 • Reynsla af háskólakennslu og leiðbeiningu háskólanema er æskileg.
 • Frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum, lipurð í mannlegum samskiptum.
 • Gott vald á ensku og íslensku.
 • Reynsla af rekstri og verkefnastjórnun.
 • Reynsla af alþjóðasamstarfi, af þverfræðilegu samstarfi og sókn í rannsóknasjóði er kostur.

Verkefnisstjórinn verður starfsmaður Háskóla Íslands en hefur starfsaðstöðu við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Ströndum – Þjóðfræðistofu. Búseta á svæðinu er skilyrði. Um fullt starf er að ræða.

Umsóknarferli

Umsóknarfrestur er til 7. ágúst 2018.

Æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst.

Sótt er um starfið á vefsíðu Háskóla Íslands undir laus störf.

Öllum umsóknum verður svarað og umsækjendum tilkynnt um ráðstöfun starfsins þegar ákvörðun hefur verið tekin. Umsóknir geta gilt í sex mánuði frá lokum umsóknafrests.

Laun eru samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðherra og Félags háskólakennara.

Allar nánari upplýsingar um starfið veitir Sæunn Stefánsdóttir, forstöðumaður Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands í síma 892 8835 og saeunnst@hi.is.

Við ráðningu í störf í Háskóla Íslands er tekið mið af jafnréttisáætlun skólans.

Vakin er athygli á málstefnu Háskóla Íslands.

Hólmavík - íbúabyggð og ferðamannastaður

Sumarið 2018 er unnið að hugmyndavinnu og skýrslugerð í verkefninu Hólmavík - íbúabyggð og ferðamannastaður, en vinna að því hófst á síðasta ári. Verkefnið er unnið á vegum Rannsóknaseturs HÍ á Ströndum - Þjóðfræðistofu í samvinnu við sveitarfélagið Strandabyggð og framundan er einnig samvinna við Vestfjarðastofu innan vébanda Sóknaráætlunar Vestfjarða. 

Þrír starfsmenn Rannsóknaseturs HÍ á Ströndum - Þjóðfræðistofu vinna að verkefninu í sumar, Jón Jónsson þjóðfræðingur og verkefnastjóri hjá setrinu, Guðrún Gígja Jónsdóttir MA-nemi í hagnýtri menningarmiðlun og Agnes Jónsdóttir þjóðfræðinemi. Þær tvær síðastnefndu eru ráðnar sérstaklega til Rannsóknasetursins til að vinna að verkefninu fram á haust, að hluta til með stuðningi Nýsköpunarsjóðs námsmanna. 

Í haust eiga að liggja fyrir útfærðar tillögur um margvíslegar umbætur á almannarýminu utanhúss á Hólmavík og miðlun sögu og fróðleiks um þorpið á áningarstöðum í því. Hugmyndavinnunni er ætlað að koma bæði Strandamönnum og ferðafólki til góða, auka lífsgæði íbúa og möguleika þeirra á að njóta útivistar. 

Fimmtudaginn 21. júní er haldin spjallfundur um verkefnið á Hólmavík sem allir eru velkomnir á. Þar verður rætt um hugmyndir sem fram hafa komið í tengslum við vinnuna og verkefnið kynnt fyrir þeim sem áhuga hafa. Í framhaldinu verður síðan leitað frekar til íbúa um tillögur og hugmyndir.

Húmorsþing á Hólmavík

Laugardaginn 14. apríl verður haldið stórmagnað húmorsþing á Hólmavík. Þar verður blandað saman fyrirlestrum, fróðleik og fjöri og öll sem áhuga hafa hjartanlega velkomin. Um daginn verða málstofur og þjóðfræðilegir fyrirlestrar um húmor, móttaka í Rannsóknasetri HÍ á Ströndum - Þjóðfræðistofu, stórmagnað kvöldverðar hlaðborð á Café Riis og síðan skemmtun um kvöldið, PubQuiz með gamansömu húmorsívafi, tónlistaratriði og uppistand. Á eftir verður dansað smávegis. Það er því um að gera að taka daginn frá og stefnuna norður á Strandir. 

 

 

 

 

Dagskrá Húmorsþingsins:

16:30 - Fróðleikur og húmorsfræði - staðsetning: Pakkhús, Café Riis

Kristinn Schram: Húmorfræði á fimm mínútum

Kristín Einarsdóttir: Það er ekkert öruggt að hann smæli

Agnes Jónsdóttir: "Hvað er svona fyndið?" Uppistand sem einhliða samtal
Jón Jónsson: Skemmtikraftar eða aðhlátursefni: Framkoma við förufólk í gamla sveitasamfélaginu
Eiríkur Valdimarsson: Kynlíf og gamla bændasamfélagið - er eitthvað fyndið við það?

18:00 Mótttaka á Rannsóknarsetri HÍ á Ströndum - Þjóðfræðistofa, Hnyðja í Þróunarsetrinu á Hólmavík

19:00 Hlaðborð á Café Riis
Glæsilegt hlaðborð á Café Riis, verð 3000 kr. Best er að panta í hlaðborðið í síma: 451-3567

20:30 Skemmtidagskrá á Riis

Pub Quiz um gleði og gamanmál
Villi Vandræðaskáld skemmtir mannskapnum
Pétur Húni: Pseudo - þjóðfræðilegt laumuhúmorískt atriði
Rachel Schollaert með uppistand
Alice Bower fyndnasti háskólaneminn: Tröllið tjáir sig

Dans, gleði og gaman fram eftir nóttu!

Samstarfsaðilar um Húmorsþing á Hólmavík 2018 eru Þjóðfræði við Háskóla ÍslandsRannsóknasetur HÍ á Ströndum - Þjóðfræðistofa, Fjölmóður - fróðskaparfélag á Ströndum, Félag þjóðfræðinga á Íslandi og Þjóðbrók, félag þjóðfræðinema.

Pages

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is