Vel heppnuð fyrirlestraferð um Vestfirði

Jón Jónsson þjóðfræðingur og Matthias Egeler gestafræðimaður hjá Rannsóknasetri HÍ á Ströndum - Þjóðfræðistofu fóru í mikla Vestfjarðareisu um síðustu helgi. Fluttu þeir samtals fimm fyrirlestra á þremur viðburðum, Vestfirska fornminjadeginum og leiklistarhátíðinni Act Alone 2019 á Suðureyri við Súgandafjörð og Sögustund á Minjasafninu á Hnjóti í Örlygshöfn. Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðingur var einnig með í för með Náttúrubarnaskólann sem haldið er úti af Sauðfjársetri á Ströndum og hélt hún náttúrubarnanámskeið á sömu tveimur stöðum. Rannsóknasetrið er samstarfsaðili í því vel heppnaða og skemmtilega verkefni.

Strandamennirnir fengu góðar móttökur og vilja þakka aðstandendum viðburðanna kærlega fyrir þær. Einnig færum við öllum þeim sem komu á viðburðina okkar innilegustu þakkir fyrir komuna. Okkur þótti mjög vænt um að hitta allt fólkið og miðla fróðleiknum, spjalla og eiga góðar stundir með gömlum vinum og kunningjum. Um leið kynntumst við svo fullt af nýju fólki sem við þekktum ekki fyrir, en hafa nú bæst í vina- og kunningjahópinn.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is