Verkefnisstjóri ferðamála við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Hornafirði

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Hornafirði leitar eftir verkefnisstjóra til að annast rannsóknir, þróunarvinnu og ráðgjöf varðandi ferðaþjónustu í Sveitarfélaginu Hornafirði. Viðamesta verkefnið lýtur að umsjón með íslenskum hluta NPA-verkefnisins Slow Adventure in Northern Territories (http://saintproject.eu/). Önnur verkefni geta, eftir atvikum, lotið að þróun sjálfbærrar ferðaþjónustu, vetrarferðaþjónustu og fræðandi ferðaþjónustu. Verkefnin kalla á náið samstarf við Sveitarfélagið Hornafjörð, suðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs og Ríki Vatnajökuls ehf, ferðaþjónustu-, matvæla- og menningarklasa suðausturlands.

Leitað er að einstaklingi með háskólagráðu, helst framhaldsmenntun, í ferðamálafræði eða aðra háskólamenntun sem nýst getur í starfi. Reynsla af rannsóknarstörfum og/eða verkefnastjórnun er skilyrði. Hæfni í mannlegum samskiptum, sjálfstæði, áreiðanleiki og frumkvæði eru nauðsynleg. Gott vald á ensku og íslensku í rituðu og töluðu máli er mikilvægt. Um fullt starf er að ræða með aðsetur á Hornafirði. Ráðið er til tveggja ára með möguleika á framlengingu. Æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst. Laun eru samkvæmt kjarasamningi Félags háskólakennara.

Umsóknarfrestur er til 14. maí 2016. Með umsókninni skal fylgja greinargott yfirlit um námsferil og fyrri störf, ásamt ritaskrá ef við á. Umsókn skal sendast inn rafrænt á: www.hi.is/laus_storf. Öllum starfsumsóknum verður svarað og umsækjendum tilkynnt um ráðstöfun starfsins þegar ákvörðun hefur verið tekin.

Við ráðningu í störf í Háskóla Íslands er tekið mið af jafnréttisáætlun skólans.

Nánari upplýsingar um starfið veitir Dr. Þorvarður Árnason, forstöðumaður rannsóknasetursins (470-8040895-9003thorvarn@hi.is).

Um rannsóknasetrið:

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Hornafirði var stofnað árið 2001. Það heyrir undir Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands (http://rannsoknasetur.hi.is/) sem hefur þau markmið að skapa aðstöðu til rannsókna á landsbyggðinni, auka möguleika almennings til menntunar og styrkja tengsl Háskóla Íslands við atvinnu- og þjóðlíf. Rannsóknasetrið tekur virkan þátt í starfsemi Þekkingarsetursins Nýheima (www.nyheimar.is) á Höfn, en þar starfa samtals um fjörutíu manns. Rannsóknasetrið hefur stundað rannsóknir á ferðamálum um árabil og einnig átt frumkvæði að fjölmörgum hagnýtum verkefnum í samstarfi við atvinnulífið og opinberar stofnanir. Við setrið er jafnframt unnið að rannsóknum á umhverfismálum, náttúruvernd, landslagi, menningu og listum, sjá nánar http://rannsoknasetur.hi.is/hornafjordur/.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is