Fornleifarannsóknir neðansjávar

Ljósmynd

Í sögulegu samhengi er póstskipið Phønix hluti af sögu 19. aldarinnar þegar að Ísland var að losna úr hlekkjum einangrunar og hafta. Tilkoma gufuskipanna höfðu mikil áhrif á samgöngur milli Íslands og Evrópu og spiluðu einnig mikilvægt hlutverk í þróun verslunar og viðskipta á seinni hluta 19. aldarinnar.  Gufuskipin gerðu fleiri Íslendingum kleift að ferðast til Evrópu og einnig gátu þau flutt meiri vörur til og frá landinu.  Rannsóknin á Phønix mun því vera mikilvæg viðbót í rannsóknum á sögu 19. aldarinnar og gefa nýjar hugmyndir um innflutning og svo aðbúnað um borð í skipum í Íslandssiglingum á síðari hluta 19. aldarinnar.

Eitt meginmarkmið rannsóknarinnar á póstskipinu Phønix er að þróa aðferðafræði í íslenskri neðansjávarfornleifafræði og fá betri skilning á þeim þáttum sem áhrif hafa á vinnu við fornleifarannsóknir neðansjávar við íslenskar aðstæður. Annað markmið rannsóknarinnar er að skrá skipið og þá muni sem því tengjast svo hægt sé að fá góða mynd af minjastaðnum. Þannig skapast grundvöllur minjavörslu á skipinu og verður til þekking sem nýtist þróun aðferðafræði við minjavörslu neðansjávar almennt. Í þriðja lagi munu gripir og munir sem finnast í og við skipið gefa innsýn í íslenskt samfélag á þeim tíma er skipið sökk.

Rannsóknin hefur mikið gildi fyrir aðferðafræðilega þróun í fornleifafræði og gefur  fræðigreininni nýja leið til að nálgast viðfangsefni sitt.   Rannsóknin er sú fyrsta á Íslandi til að þjálfa upp kafara í aðferðafræði neðansjávarrannsókna og er að myndast hópur áhuga- og fræðimanna sem sinnt geta þessari hlið fornleifarannsókna á vísindalegan hátt.  Það hefur komið skýrt í ljós að póstskipið Phønix er tilvalið til þjálfunar á köfurum þar sem það liggur á litlu dýpi og allar aðstæður ákjósanlegar.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is