Verslun og hvalveiðar útlendinga við Ísland á 17. og 18. öld

Fyrri rannsóknir

Á tímabilinu 2005 – 2010 voru rannsakaðar 5 byggingar sem tilheyrðu fornri hvalveiðistöð á Strákatanga í Strandasýslu, 2 lýsisbræðslur, íveruhús, beykishús og geymsla.  Rannsóknin sýndi að stöðin var jafn stór í sniðum og þær hvalveiðistöðvar sem grafnar hafa verið upp í Norður-Noregi og á Svalbarða frá sama tíma. Allt bendir til þess að Ísland, andstætt því sem ritaðar heimildir gáfu til kynna, hafi verið mikilvægur viðkomustaður erlendra hvalveiðimanna á 17. öld og þar með spilað mikilvægt hlutverk í sögu hvalveiða í atvinnuskyni í Evrópu.

 

Frekari rannsóknir

Samhliða rannsókninni á Strákatanga voru fleiri staðir í Strandasýslu kannaðir með fornleifafræðilegri aðferðafræði til þess að athuga hvort fleiri óþekktar hvalveiðistöðvar væri að finna á svæðinu. Í kjölfarið fundust tveir staðir í Kóngsey og Strákey í landi Eyja í norðanverðum Kaldrananeshreppi, sem líklega eru leifar hvalveiðistöðva frá 17. öld. Sumarið 2011 voru eyjarnar kannaðar og minjarnar mældar upp (kort 1). Á tveim stöðum fundust minjar sem líklega eru bræðsluofnar og fundust múrsteinsbrot í nágrenni þeirra en að auki fundust 9 rústir sem líklega tengjast hvalveiðum.

 

 

Áætlað er að grafa fjóra könnunarskurði, tvo í hvorri eyjunni fyrir sig. Í Kónsey verður grafinn skurður í meintan bræðsluofn og í rúst norðaustan við bræðsluna. Í Strákey verður grafinn skurður í meintan bræðsluofn og stóra rúst sunnan við ofninn (kort 1). Allir skurðir verða 2 x 4 metrar og grafið verður niður í óhreyfðan jarðveg. Engin mannvirki, þ.e. veggir, osfrv., verða fjarlægð. Öll mannvistarlög verða skráð, teiknuð og ljósmynduð áður en að þau verða fjarlægð. Tekin verða sýni úr öllum mannvistarlögum, þ.e. gólfi, eldstæðum, osfrv., til plöntu og frjókornagreininga. Ef hægt er verða einnig tekin sýni til kolefnisgreiningar.

Megin markmið verkefnisins er að fá gott yfirlit yfir starfsemi hvalfangara í Strandasýslu og setja það í samhengi við samskonar starfsemi annarsstaðar á Norður-Atlantshafssvæðinu. Þannig miðar verkefnið „Hvalveiðar útlendinga við Ísland á 17. öld“ að því að rannsaka efnislegar minjar eftir veru erlendra hvalfangara til að fá hugmynd um umsvif þeirra og áhrif á íslenskt samfélag

 

 

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is