Hólmavík

Ársfundur Stofnunar rannsóknasetra 2019 á Laugarvatni 28. mars nk.

Ársfundur Stofnunar rannsóknasetra verður haldinn í húsnæði Háskóla Íslands á Laugarvatni fimmtudaginn 28. mars nk.  Fundurinn er öllum opinn en gestir eru beðnir að skrá sig. Skráningu lýkur 22. mars. 

Dagskrá

13.30       Setning ársfundar. Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra

13.40       Ávarp. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands

13.50       Ávarp. Helgi Kjartansson, oddviti Bláskógabyggðar

14:00       Hvað er rammaáætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða? Guðrún Pétursdóttir, formaður verkefnisstjórnar 4. áfanga rammaáætlunar og framkvæmdastjóri Stofnunar Sæmundar fróða

14:20       Þjóðgarðar - óleysanlegar mótsagnir eða hvatning til breyttrar hugsunar? Þorvarður Árnason, forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ á Hornafirði

14:40       Kaffi

15:10       Náttúruvernd og landnotkun. Tómas Grétar Gunnarsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ á Suðurlandi

15:30       Hafa villt dýr réttindi? Spjall um umhverfissögulega rannsókn á sambúð manns og villtra dýra á Íslandi. Unnur Birna Karlsdóttir, forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ á Austurlandi

15:50       Áhrif manna á búsvæði fugla.  Aldís Erna Pálsdóttir, doktorsnemi við Rannsóknasetur HÍ á Suðurlandi

16:10       Fundarslit og samantekt. Halldór Jónsson, sviðsstjóri Vísinda- og nýsköpunarsviðs Háskóla Íslands

Fundarstjóri: Halldór Jónsson, sviðsstjóri Vísinda- og nýsköpunarsviðs Háskóla Íslands

Að fundinum loknum verður boðið upp á léttar veitingar.

Rútuferð verður frá Aðalbyggingu HÍ kl. 11.30 og aftur frá Laugarvatni kl. 17:00 (ef ekki kemur til boðaðs verkfalls rútubílstjóra 28.mars) Boðið verður upp á léttan hádegisverð á Laugarvatni áður en fundurinn hefst.

Skráning á ársfundinn er á vefslóðinni https://goo.gl/forms/rmdZvKpbBCGTsJLm1

 

Þjóðarspegillinn 1. nóvember

Föstudaginn 1. nóvember 2019 verður Þjóðarspegillinn, ráðstefna í félagsvísindum, haldin í 20. skipti í Háskóla Íslands. Þar gefst fræðimönnum tækifæri til á að kynna rannsóknir sínar og eiga samræðu við almenning og aðra fræðinga. Starfsfólk Rannsóknaseturs HÍ á Ströndum - Þjóðfræðistofu tekur þátt í þremur málstofum á Þjóðarpeglinum og flytur þar fjögur erindi. 

Fyrst er að nefna málstofuna Hörmung og hamingja. Hversdagslíf og hugmyndaheimur í persónulegum heimildum frá 19. öld. Sú málstofa hefst kl. 9:00 og er staðsett í Lögbergi, stofu 201. 

Önnur málstofa er Send í sveit: Þetta var í þjóðarsálinni. Þar er fjallað um siðinn að senda börn í sveit og hefst sú málstofa kl. 11:00 og verður einnig í Lögbergi, stofu 201. 

Þriðja málstofan sem tengist Rannsóknasetri HÍ á Ströndum er Á jaðrinum í sögnum og arkífum. Hún hefst kl. 13:00 og er haldin í Odda, stofu 105. 

Öll sem áhuga hafa eru hjartanlega velkomin á þessar málstofur og aðra viðburði á Þjóðarspeglinum, þessari merkilegu uppskeruhátíð félagsvísindafólks. 

Send í sveit - nýjar bækur og málþing á Ströndum

Senn koma út tvær bækur um siðinn að senda börn í sveit. Önnur nefnist Send í sveit: Þetta var í þjóðarsálinni. Sú er safn fræðigreina um siðinn frá upphafi til okkar daga. Þar fjalla mannfræðingar, þjóðfræðingar, lýðheilsufræðingar, safnafræðingar, bókmenntafræðingar og félagsráðgjafar um sínar rannsóknir á siðnum með fjölbreyttum hætti og frá ólíkum sjónarhornum. Hin bókin nefnist Send í sveit: Súrt, saltað og heimabakað. Í henni birtast stuttar umfjallanir um ólík viðfangsefni tengd siðnum, þar sem stuðst er við myndir, frásagnir einstaklinga, bókmenntatexta og fjölmiðlaumfjallanir. Sú seinni er frekar miðuð að almennum lesendum.

Í báðum bókunum eru Strandir sérstaklega til umfjöllunar og þá einkum upplifanir bænda, húsfreyja og barna sem ólust upp á svæðinu af því að opna heimili sín fyrir börnum annarra fjórðung úr ári. Ástæðan fyrir þessari áherslu er sú að fræðafólk búsett á Ströndum hefur tekið þátt í þessu merkilega verkefni sem Jónína Einarsdóttir mannfræðingur og prófessor við HÍ stjórnar. Esther Ösp Valdimarsdóttir mannfræðingur og Eiríkur Valdimarsson þjóðfræðingur hafa bæði unnið að rannsókninni og eru meðal höfunda bókanna. Einnig settu Esther Ösp og Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðingur upp tímabundna sögusýningu á Sauðfjársetri á Ströndum um siðinn að börn færu í sveit. Sú sýning hefur verið þar uppi frá haustinu 2016. Bæði Eiríkur og Dagrún starfa nú hjá Rannsóknasetri HÍ á Ströndum - Þjóðfræðistofu.

Framundan er einnig kvöldvaka og málþing á Sauðfjársetrinu í Sævangi við Steingrímsfjörð á Ströndum, mánudaginn 14. október kl. 20. Þessa kvöldstund munu valdir höfundar flytja erindi byggð á sínum rannsóknum á efninu, kynna bækurnar og taka þátt í umræðum með gestum og gangandi. Viðburðurinn er styrktur af sveitarfélaginu Strandabyggð.

Erindi kvöldins eru:

Eiríkur Valdimarsson: Sveitasamviska
Jónína Einarsdóttir: Send í sveit í þágu þjóðar
Geir Gunnlaugsson: Hvernig var í sveitinni?
Esther Ösp Valdimarsdóttir: Hvað segja bændur þá?

Jón Jónsson þjóðfræðingur hjá Rannsóknarsetri HÍ á Ströndum - Þjóðfræðistofu stýrir umræðum og Sauðfjársetrið reiðir fram kvöldkaffi að sveitasið á litlar 1000 krónur fyrir þá sem þess óska. Aðgangur er ókeypis og öll velkomin.

Vísindakaffi á Ströndum: Menningararfur í myndum

Rannsóknasetur HÍ á Ströndum - Þjóðfræðistofa tekur þátt í Vísindavöku Rannís með því halda Vísindakaffi fimmtudaginn 26. sept. kl. 20:00. Viðburðurinn er haldinn á Kaffi Kind á Sauðfjársetrinu í Sævangi á Ströndum og boðið er upp á kaffi á meðan á viðburðinum stendur.

Á Vísindakaffinu kynna verkefnastjórarnir Jón Jónsson og Eiríkur Valdimarsson nýtt og viðamikið rannsókna- og miðlunarverkefni á vegum Rannsóknaseturs HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofu. Verkefnið ber yfirskriftina Menningararfur í myndum og snýst um gamlar ljósmyndir, söfnun þeirra, varðveislu og miðlun. Sagt verður frá þeirri vinnu sem framundan er, verkþáttum og samstarfsaðilum, sem eru söfn og menningarstofnanir í héraðinu og á landsvísu.

Öll sem áhuga hafa eru hjartanlega velkomin á Vísindakaffið.

Ógnarstundir og örlagastaðir: Þjóðtrúarkvöldvaka á Ströndum

Hin árlega þjóðtrúarkvöldvaka Strandamanna að hausti verður haldin í Sævangi við Steingrímsfjörð, 12 km sunnan við Hólmavík, laugardagskvöldið 14. september. Kvöldvakan hefst kl. 21. Flutt verða spennandi og fróðleg erindi sem tengjast íslenskri þjóðtrú, aftökustöðum, náttúru, örnefnum og sögum. Hágæða tónlistaratriði er á dagskránni, Dúllurnar troða upp. Kynngimagnað kvöldkaffi sem Sauðfjársetrur á Ströndum sér um, verður líka á sínum stað.

Á dagskránni eru eftirfarandi erindi (öll flutt á íslensku):

# Jón Jónsson: Dauðadómar, aftökustaðir og dysjar sakamanna.
# Matthias Egeler: Misnotkun, ranglæti og dauði. Sagnir um fátækt fólk á Ströndum.
# Dagrún Ósk Jónsdóttir: Ást, harmur og dauði. Hlutskipti kvenna í íslenskum þjóðsögum.

Á þjóðtrúarkvöldvökunni gefst gott tækifæri til að hitta skemmtilegt fólk, hlusta á spennandi sögur og láta þreytuna líða úr sér eftir erfiðar smalamennskur og átök við útilegumenn og tröll fyrr um daginn!

Þjóðtrúarkvöldvakan er samstarfsverkefni Rannsóknaseturs HÍ á Ströndum - Þjóðfræðistofu og Sauðfjárseturs á Ströndum. Verið öll hjartanlega velkomin!

Vel heppnuð fyrirlestraferð um Vestfirði

Jón Jónsson þjóðfræðingur og Matthias Egeler gestafræðimaður hjá Rannsóknasetri HÍ á Ströndum - Þjóðfræðistofu fóru í mikla Vestfjarðareisu um síðustu helgi. Fluttu þeir samtals fimm fyrirlestra á þremur viðburðum, Vestfirska fornminjadeginum og leiklistarhátíðinni Act Alone 2019 á Suðureyri við Súgandafjörð og Sögustund á Minjasafninu á Hnjóti í Örlygshöfn. Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðingur var einnig með í för með Náttúrubarnaskólann sem haldið er úti af Sauðfjársetri á Ströndum og hélt hún náttúrubarnanámskeið á sömu tveimur stöðum. Rannsóknasetrið er samstarfsaðili í því vel heppnaða og skemmtilega verkefni.

Strandamennirnir fengu góðar móttökur og vilja þakka aðstandendum viðburðanna kærlega fyrir þær. Einnig færum við öllum þeim sem komu á viðburðina okkar innilegustu þakkir fyrir komuna. Okkur þótti mjög vænt um að hitta allt fólkið og miðla fróðleiknum, spjalla og eiga góðar stundir með gömlum vinum og kunningjum. Um leið kynntumst við svo fullt af nýju fólki sem við þekktum ekki fyrir, en hafa nú bæst í vina- og kunningjahópinn.

Vestfirski fornminjadagurinn á Suðureyri

Laugardaginn 10. ágúst kl. 9:00 að morgni stendur Fornminjafélag Súgandafjarðar fyrir Vestfirska fornminjadeginum í mötuneyti Íslandssögu á Suðureyri. Sjónum verður beint að fjölmörgum áhugaverðum efnum sem varða sögu Vestfirðinga. Fræðimennirnir Jón Jónsson og Matthias Egeler mæta á svæðið frá Rannsóknasetri HÍ á Ströndum - Þjóðfræðistofu og verða meðal þeirra sem segja frá rannsóknum sínum og viðfangsefnum.

Á dagskránni verða eftirfarandi erindi:

Sigurður Pétursson sagnfræðingur mun segja frá verstöðum og sjóþorpum fyrr á öldum og hvers vegna ekki varð til þéttbýli á Íslandi, líkt og í öðrum löndum, á 15.-19. öld.

Dr. Matthias Egeler mun segja frá keltneskum áhrifum á miðöldum. Hann mun sérstaklega einblína á örnefni og sagnahefðina þar sem áhrifin eru hvað mest og koma inn á sterk tengsl örnefna við þjóðsögur sem safnað var á Íslandi á 19. öld.

Jón Jónsson þjóðfræðingur mun halda erindi um aftökustaði og dysjar. Jón hefur skoðað marga slíka staði og sögur um þá. Margir þekktir aftökustaðir eru á Vestfjörðum og mikilvægt að saga þeirra gleymist ekki. Á myndinni sem fylgir er brennustaðurinn Kistan í Trékyllisvík á Ströndum.

Valdimar Halldórsson staðarhaldari á Hrafnseyri mun segja frá Hrafni Sveinbjarnarsyni höfðingja sem setti svip sinn á sögu Vestfjarða.

Helga Guðný Kristjánsdóttir og Björn Birkisson hafa verið að vinna að því að staðsetja þekkt örnefni á kort í samvinnu við landeigendur og áhugafólk á Vestfjörðum. Um er að ræða mikilvægt framlag til sögu þjóðarinnar. Þau munu segja frá aðferðafræðinni og sýna myndir.

Eyþór Eðvarðsson mun halda erindi um landnámsskálabygginguna í botni Súgandafjarðar. Skálinn er tilgátuhús byggt á fornleifauppgrefti af svokölluðum Grélutóftum á Hrafnseyri í Arnarfirði. Sagt verður frá Grélutóftunum og hvað þar kom í ljós og fjallað um landnámsskálann.

Með fyrirvara um breytingar. Ókeypis inn og allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir. Enginn aðgangseyrir.

Kynning á verkefni um örnefni og þjóðtrú

Þýski fræðimaðurinn Matthias Egeler er nú gestafræðimaður hjá Rannsóknasetri HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofu og dvelur á Ströndum við rannsóknir í hálft ár. Matthias starfar við rannsóknir hjá Stofnun um skandinavísk fræði og trúarbrögð hjá Ludwig-Maximilians háskólanum í München í Þýskalandi. Hann mun halda opinn fyrirlestur á ensku um verkefnið og rannsóknir sínar á Galdrasýningu á Ströndum þriðjudaginn 18. júní kl. 18:00 og eru öll áhugasöm velkomin.

Á Ströndum vinnur Matthias að ritun bókar um samspil landslags, trúarbragða og hins yfirnáttúrulega. Viðfangsefni bókarinnar er óvenju ríkulegur menningararfur Strandamanna sem felst í örnefnum og sögum tengdum þeim. Margir staðir eru t.d. tengdir Guðmundi biskup góða og margvíslegum yfirnáttúrulegum verum og vættum. Út frá landslaginu sjálfu reynir Matthias að skilja betur hvernig hið yfirnáttúrulega og hið heilaga er tengt landinu.

Stefnan er að væntanleg bók muni kynna þennan magnaða efnivið betur, jafnt á sviði trúarbragðafræða, þjóðfræði og örnefnarannsókna.

Málþing á Skagaströnd 13. apríl nk: Selir og samfélag við Húnaflóa í fortíð, samtíð og framtíð

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra býður til opins málþings um margslungið samband manna og sela við Húnaflóa í fortíð, samtíð og framtíð. Á málþinginu munu koma saman fræðimenn af ýmsum sviðum sem eiga það sameiginlegt að stunda rannsóknir á Norðurlandi vestra og deila rannsóknum sínum og niðurstöðum og kanna möguleikann á frekara samstarfi í framtíðinni. Málþingið er öllum opið og án endurgjalds. Fyrirlestrar munu fara fram á íslensku og ensku.

Að loknu málþingi verður haldið kvöldverðarboð með þátttakendum á veitingastaðnum Fellsborg á Skagaströnd. Verðið er 5900 kr á mann. Þeir sem vilja vera með í kvöldverðinum þurfa að skrá sig með því að hafa samband við Vilhelm Vilhelmsson, forstöðumann Rannsóknasetursins, fyrir 1. apríl næstkomandi. Hægt er að skrá sig með því að senda tölvupóst í netfangið vilhelmv@hi.is

Dagskrá / Programme

Laugardaginn 13. apríl 2019 / Saturday 13 April 2019

 

13:00-13:05 – Opening remarks by dr. Vilhelm Vilhelmsson, director of the University of Iceland Research Centre in Northwestern Iceland.

13:05-13:30 – Unnur Birna Karlsdóttir, „Umhverfissagnfræði sem aðferð í rannsóknum á sambúð manns og villtra dýra á Íslandi.“

13:30-13:55 - Sandra M. Granquist, „The triangle drama; an ecological perspective of anthropogenic interactions with seal populations in Iceland“.

13:55-14:20 – Vilhelm Vilhelmsson, „Selveiðar við Húnaflóa: Sögulegt yfirlit“.

14:20-14:45 – Helen ßler, „Under water vocalisations of harbour seals in Húnaflói“.

14:45-15:15 – Coffee break

15:15-15:40 – Dagrún Ósk Jónsdóttir, Eiríkur Valdimarsson og Jón Jónsson, „Yfirnáttúrulegar sagnir um seli“.

15:40-16:05 –Jessica Faustini Aquino, Sandra Magdalena Granquist and Georgette Leah Burns, „An Ethical Framework for Seal Watching Management Development“.

16:05-16:30 - Jessica Faustini Aquino, „Neolocalism and Seal Watching Tourism Development“.

16:30-17:00 – Discussion

17:00-18:00 – Closed meeting/discussion for participants

18:00 – Conference dinner

 

 

Styrkur til Rannsóknaseturs HÍ á Ströndum - Þjóðfræðistofu til söfnunar upplýsinga og skráningar menningararfs

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Ströndum - Þjóðfræðistofa hlaut á dögunum styrk til söfnunar upplýsinga og skráningar menningararfs. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra úthlutaði  styrkjum vegna fjarvinnslustöðva. Valnefnd um samkeppnisframlög úr stefnumótandi byggðaáætlun 2018-2024 bárust 16 umsóknir sem sóttu samtals um 180 m.kr. en 30 m.kr. voru til úthlutunar.

Verkefni Rannsóknaseturs HÍ á Ströndum hlýtur samtals 18 m.kr. í styrk á þremur árum. Nánari upplýsingar veitir Jón Jónsson, þjóðfræðingur og verkefnisstjóri við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Ströndum - Þjóðfræðistofu.

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra, hlaut einnig styrk úr sama sjóði til að koma upp gagnagrunni sáttanefndabóka. 

Pages

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is