Viðburðir og verkefni

2019: 

Fagurfræði hversdagsins - persónulegar heimildir á 19. öld.

Mánudaginn 16. desember kl. 20:00 var haldið stórskemmtileg málþing Fagurfræði hversdagsins á Kaffi Kind á Sauðfjársetrinu í Sævangi á Ströndum. Þar voru samankomnir sérfræðingar í persónulegum heimildum frá 19. öld, bréfum og dagbókum, og sögðu magnaðar hversdagssögur og ræddu um heimildirnar. 

Erindi fluttu Jón Jónsson og Eiríkur Valdimarsson hjá Rannsóknasetri HÍ á Ströndum, Rósa Þorsteinsdóttir hjá Árnastofnun og Davíð Ólafsson lektor í menningarfræði hjá HÍ. 
 

Vísindakaffi á Kaffi Kind

Fimmtudaginn 26. september kl. 20:00 var haldið Vísindakaffi á Ströndum í tengslum við Vísindavöku Rannís. Viðburðurinn var haldinn á Kaffi Kind á Sauðfjársetrinu í Sævangi á Ströndum.

Á Vísindakaffinu var kynnt nýtt og viðamikið rannsókna- og miðlunarverkefni á vegum Rannsóknaseturs HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofu. Verkefnið ber yfirskriftina Menningararfur í myndum og snýst um gamlar ljósmyndir, söfnun þeirra, varðveislu og miðlun. Sagt var frá þeirri vinnu sem framundan er, verkþáttum og samstarfsaðilum, sem eru söfn og menningarstofnanir í héraðinu og á landsvísu. Jón Jónsson og Eiríkur Valdimarsson sáu um kynninguna.
 

Ógnarstundir og örlagastaðir: Árleg þjóðtrúarkvöldvaka

Hin árlega þjóðtrúarkvöldvaka Rannsóknasetursins að hausti var haldin í Sævangi við Steingrímsfjörð á Ströndum laugardagskvöldið 14. september. Þar voru flutt spennandi og fróðleg erindi sem tengjast íslenskri þjóðtrú, aftökustöðum, náttúru, örnefnum og sögum. Auk þess var hágæða tónlistaratriði á dagskránni, þar sem Dúllurnar tróðu upp og svo var kynngimagnað kvöldkaffi líka á sínum stað.

Á dagskránni voru eftirfarandi erindi (öll flutt á íslensku):

# Jón Jónsson: Dauðadómar, aftökustaðir og dysjar sakamanna.
# Matthias Egeler: Misnotkun, ranglæti og dauði. Sagnir um fátækt fólk á Ströndum.
# Dagrún Ósk Jónsdóttir: Ást, harmur og dauði. Hlutskipti kvenna í íslenskum þjóðsögum.

Þjóðtrúarkvöldvakan er samstarfsverkefni Rannsóknaseturs HÍ á Ströndum - Þjóðfræðistofu og Sauðfjársetursins. Uppbyggingarsjóður Vestfjarða styrkir viðburðinn sem hluta af Vestfirsku þjóðtrúarfléttunni.
 

Aldrei verið fleiri starfsmenn hjá Rannsóknasetrinu

Í vor var ráðið í nýja stöðu verkefnastjóra hjá Rannsóknasetrinu á Ströndum við verkefni sem snýst um skráningu menningararfs og nýtur stuðnings frá Byggðaáætlun. Þjóðfræðingurinn Eiríkur Valdimarsson var ráðinn í þessa stöðu, tímabundið til tveggja ára. Fjölgaði starfsmönnum setursins þannig um helming. Í haust hóf síðan Dagrún Ósk Jónsdóttir doktorsnemi í þjóðfræði einnig störf hjá setrinu í tengslum við verkefnið Vestfirska þjóðtrúarfléttan. Hún er í hlutastarfi til áramóta.

Síðustu mánuði hefur gestafræðimaður Matthias Egeler einnig haft aðstöðu hjá setrinu og vinnur að verkefni sínu um örnefni og þjóðtrú á Ströndum út september, þegar hann heldur heim til Þýskalands og heldur þar áfram vinnu við fræðistörf og ritun bókar um efnið.

Það er því sannarlega mikið líf og fjör og uppbygging í gangi hjá Rannsóknasetri HÍ á Ströndum
 

Vestfirski fornminjadagurinn á Suðureyri

Laugardaginn 10. ágúst kl. 9:00 að morgni stóð Fornminjafélag Súgandafjarðar fyrir Vestfirska fornminjadeginum í mötuneyti Íslandssögu á Suðureyri. Sjónum var beint að fjölmörgum áhugaverðum efnum sem varða sögu Vestfirðinga. Fræðimennirnir Jón Jónsson og Matthias Egeler mættu á svæðið frá Rannsóknasetri HÍ á Ströndum - Þjóðfræðistofu og voru meðal þeirra sem sögðu frá rannsóknum sínum og viðfangsefnum.

Á dagskránni voru eftirfarandi erindi:

Sigurður Pétursson sagnfræðingur sagði frá verstöðum og sjávarþorpum og hvers vegna ekki varð fyrr til þéttbýli á Íslandi, líkt og í öðrum löndum, á 15.-19. öld.

Dr. Matthias Egeler sagði frá keltneskum áhrifum á miðöldum. Hann ræddi örnefni og sagnahefðina þar sem áhrifin eru hvað mest og kom inn á sterk tengsl örnefna við þjóðsögur sem safnað var á Íslandi á 19. öld.

Jón Jónsson þjóðfræðingur hélt erindi um aftökustaði og dysjar, þjóðtrú og sagnir. Jón hefur skoðað marga slíka staði og sögur um þá. Margir þekktir aftökustaðir eru á Vestfjörðum og mikilvægt að saga þeirra gleymist ekki.

Valdimar Halldórsson staðarhaldari á Hrafnseyri sagði frá Hrafni Sveinbjarnarsyni höfðingja sem setti svip sinn á sögu Vestfjarða.

Helga Guðný Kristjánsdóttir og Björn Birkisson hafa verið að vinna að því að staðsetja þekkt örnefni á kort í samvinnu við landeigendur og áhugafólk á Vestfjörðum. Um er að ræða mikilvægt framlag til sögu þjóðarinnar. Þau sögðu frá aðferðafræðinni og sýna myndir.

Eyþór Eðvarðsson hélt erindi um landnámsskálabygginguna í botni Súgandafjarðar. Skálinn er tilgátuhús byggt á fornleifauppgrefti af svokölluðum Grélutóftum á Hrafnseyri í Arnarfirði. Sagt var frá Grélutóftunum og hvað þar kom í ljós og fjallað um landnámsskálann.
 

Strandir í verki

Strandir í verki er verkefni sem Leikfélag Hólmavíkur stendur á bak við og snýst um skapandi sumarstörf fyrir unglinga á framhaldsskólaaldri.

Það er unnið í samvinnu við Rannsóknasetur HÍ á Ströndum, Sauðfjársetur á Ströndum og sveitarfélagið Strandabyggð. Innan vébanda þess hafa ungmenni starfað að margvíslegum skapandi verkefnum sem tengjast stundum svæðinu, þjóðsagnaarfi og sögu þess. Rakel Ýr Stefánsdóttir sem hefur nýlokið leiklistarnámi við Listaháskóla Íslands er stjórnandi þessa verkefnis.

Verkefnið stóð einnig fyrir menningarhátíð á Ströndum í byrjun ágúst, vikunni eftir verslunarmannahelgi og mætti á leiklistarhátíðina Act Alone á Suðureyri.

Leikfélag Hólmavíkur fékk Menningarverðlaun Strandabyggðar - Lóuna - árið 2019 fyrir einstakan dugnað og framtakssemi á sviði leiklistar, þar á meðal fyrir þetta verkefni. Verðlaunin voru afhent á Hamingjudögum á Hólmavík
 

Náttúrubarnaskóli og Náttúrubarnahátíð 

Náttúrubarnaskólinn hefur verið í fullum gangi á Sauðfjársetrinu í Sævangi í sumar, en hann er jafnan í góðu samstarfi við Rannsóknasetur HÍ á Ströndum. Dagrún Ósk Jónsdóttir sem nú er komin í doktorsnám í þjóðfræði er við stjórnvölinn sem fyrr.

Auk námskeiða var heilmikil þriggja daga Náttúrubarnahátíð á Ströndum um miðjan júlí og dagskráin sérstaklega vegleg og skemmtileg. Eins voru á dagskránni heimsóknir á Act Alone á Suðureyri og Minjasafnið á Hnjóti í ágúst. Verkefnið fékk á þessu ári góðan stuðning úr Uppbyggingasjóði Vestfjarða og Barnamenningarsjóði.
 

Sögurölt um Dali og Strandir 

Eins og síðasta sumar hefur Rannsóknasetrið tekið þátt í Sögurölti um Dali og Strandir. Það er verkefni sem söfnin á Ströndum og Dölum, Byggðasafn og Héraðsskjalasafn Dalamanna og Sauðfjársetur á Ströndum hafa staðið fyrir, og Rannsóknasetur HÍ á Ströndum og Náttúrubarnaskólinn taka þátt.

Þessi sögurölt hafa verið mjög vinsæl, en um er að ræða rúmlega klukkustundar gönguferð þar sem meiri áhersla er lögð á fróðleik, sögur og sagnir, en gönguna sjálfa. Jón Jónsson verkefnastjóri hjá Rannsóknasetrinu var sögumaður í fjórum gönguferðum og með innlegg um Steinadalsheiði í þeirri fimmtu: Sagnarölti á Víðidalsá við Steingrímförð, Sögurölti á Stað í Steingrímsfirði, Sögugöngu á Broddanesi við Kollafjörð, Sagnagöngu á Skriðinsenni í Bitru og Gönguferð á Gilsfjarðarbrekku. Einnig hefur verið rölt í Gautsdal í Reykhólahreppi og Bjarnastöðum í Saurbæ, Skerðingsstöðum í Dölum, Heinabergi á Skarðströnd og Hundadal í Dölum. Alls mættu á fimmta hundað manns í 10 sögurölt sumarsins 2019.
 

Matthías Egeler með kynningu - gestafræðimaður hjá Rannsóknasetri HÍ 

Þýski fræðimaðurinn Matthias Egeler er nú gestafræðimaður hjá Rannsóknasetri HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofu og dvelur á Ströndum við rannsóknir í hálft ár. Matthias starfar við rannsóknir hjá Stofnun um skandinavísk fræði og trúarbrögð hjá Ludwig-Maximilians háskólanum í München í Þýskalandi.

Matthias hélt opinn fyrirlestur á ensku um verkefnið og rannsóknir sínar á Galdrasýningu á Ströndum þriðjudaginn 18. júní kl. 18:00.

Á Ströndum vinnur Matthias að ritun bókar um samspil landslags, trúarbragða og hins yfirnáttúrulega. Viðfangsefni bókarinnar er óvenju ríkulegur menningararfur Strandamanna sem felst í örnefnum og sögum tengdum þeim. Margir staðir eru t.d. tengdir Guðmundi biskup góða og margvíslegum yfirnáttúrulegum verum og vættum. Út frá landslaginu sjálfu reynir Matthias að skilja betur hvernig hið yfirnáttúrulega og hið heilaga er tengt landinu.

Stefnan er að væntanleg bók muni kynna þennan magnaða efnivið betur, jafnt á sviði trúarbragðafræða, þjóðfræði og örnefnarannsókna.
 

Barnamenningarsjóður úthlutar styrkjum 

Dagur barnsins er þann 26. maí og þá fengum við heldur en ekki ánægjulegar fréttir! Tvö samstarfsverkefni okkar fengu stuðning úr Barnamenningarsjóði Íslands við fyrstu úthlutun úr sjóðnum. Annars vegar fékk Strandagaldur (Galdrasýning á Ströndum) styrk í verkefni sem verður unnið í samstarfi við Rannsóknasetrið, Leikfélag Hólmavíkur og grunnskólana á Ströndum (Hólmavík og Drangsnesi). Hins vegar fengu Sauðfjársetur á Ströndum og Náttúrubarnaskólinn sem einnig er samstarfsverkefni við Rannsóknasetrið og fleiri aðila.Við hlökkum til þessara spennandi verkefna.
 

Vorfundur um hvítabirni á Ströndum 

Vinnufundur í verkefninu um Hvítabirni á villigötum var haldinn í Sævangi snemma í maí. Þar hittust Bryndis Snæbjörnsdóttir, Mark Wilson, Kristinn H.M. Schram, Alice Bower og Jón Jónsson til að bera saman bækur sína um verkefnið og hvernig best væri að standa að því, auk þess sem næstu skref voru kortlögð. Framundan er birting á grein og bókarkafla sem Jón Jónsson og Kristinn Schram hafa skrifað saman um þjóðsagnaefni um heimsóknir hvítabjarna til Íslands. Einnig er fyrirhugað að halda háskólanámskeið um hvítabirni að hluta til á Ströndum.   
 

Verkefni um skráningu menningararfs

Haustið 2018 var sótt um styrk til að koma á laggirnar fjarvinnslustöð á sviði þjóðfræði á Hólmavík í tengslum við setrið. Gert er ráð fyrir samstarfi við þjóðmenningarstofnanir á landsvísu og söfn í héraðinu og að unnið verði að skráningu á menningararfi og að koma honum á rafrænt og aðgengilegt form. Jákvætt svar barst í lok ársins um styrk að upphæð samtals 18 milljónir á árunum 2018-2020 og er úthlutunin í tengslum við Byggðaáætlun 2018-2024.

Byggðastofnun er tengiliður ríkisins vegna verkefnisins. Fyrirhugað er að ráða starfsmann í fullt starf á fyrri hluta ársins 2019 til að sinna þessu verkefni, auk þess sem hugsanlega verður um að ræða hlutastörf í styttri tíma við einstaka verkþætti.  

Meðfylgjandi mynd er frá undirritun samninga á Sauðárkróki og fengin á vef Byggðastofnunar. Lengst til vinstri er Vilhelm Vilhelmsson hjá Rannsóknasetri HÍ á Norðurlandi vestra og Jón Jónsson hjá Rannsóknasetri HÍ á Ströndum við hlið hans, báðir kampakátir með sín framlög.
  

Álfar og tröll og ósköpin öll ... 

Í mars stóð Fræðslumiðstöð Vestfjarða fyrir fjögurra kvölda (12 kennslustunda) námskeiði undir heitinu: Álfar og tröll og ósköpin öll: Íslensk þjóðtrú og vestfirskar vættir í samvinnu við Rannsóknasetur HÍ á Ströndum. Vel tókst til og var kennt í Hnyðju á Hólmavík og fjarkennt í gegnum netfundabúnað á Ísafjörð og einnig suður í Dali og til Reykjavíkur.

Kennarar: Jón Jónsson þjóðfræðingur hjá Rannsóknarsetri HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofu og Dagrún Ósk Jónsdóttir doktorsnemi í þjóðfræði og yfirnáttúrubarn hjá Náttúrubarnaskólanum.

Námskeiðslýsing: Spennandi námskeið þar sem fjallað verður um þjóðsögur og þjóðtrú Íslendinga, fyrr og nú. Þar er margt skrítið og skemmtilegt að finna. Spjallað verður um ýmsar vættir svo sem álfa og tröll, drauga, dverga og skrímsli en sérstök áhersla verður lögð á vestfirskar kynjaverur og vættir á námskeiðinu. Einnig verður talað um náttúrufyrirbæri sem eru sveipuð dulúð og tengjast þjóðtrú, t.d. álagabletti, plöntur og dýr eins og hvítabirni, seli og fugla. Þá verður galdratrúin og sérstaða Vestfjarða í því samhengi skoðuð. Þjóðtrú nútímans verður líka veitt athygli og hvernig hún hefur tekið breytingum í gegnum tíðina. Sagt verður frá söfnun og miðlun þjóðsagnaefnis og þjóðtrúarhugmyndum sem birtast í því. Einnig hvað þjóðtrúin og sögurnar geta sagt okkur um samfélagið sem þau tilheyra og líf fólks á þeim tíma sem þær eru skrifaðar. Á námskeiðinu verða gefnar góðar ábendingar um hvar má finna frekari fróðleik um þjóðsagnaarfinn. Frábær leið til að fá góða yfirsýn yfir efnið á stuttum tíma!

Námskeiðið er einnig hluti af verkefninu Vestfirsku þjóðtrúarfléttunni sem styrkt er af Uppbyggingasjóði Vestfjarða.
  

Heimsókn frá Háskólasetri Vestfjarða 

Á Strandir mætti nú í mars harðsnúinn hópur kennara og nemenda frá Háskólasetri Vestfjarða. Markmið þeirra var að finna ruslið í fjöru, safna því, skoða, greina og rannsaka! Fjörið hófst með móttöku og kraftmikilli Strandasúpu á Sauðfjársetri á Ströndum og síðan var hafist handa. Það var Rannsóknasetur HÍ á Ströndum sem var tengiliðurinn á staðnum. Það viðraði vel fyrir felt-vinnuna og allt gekk að óskum!
 

Mannát og feminismi á Akureyri

Föstudaginn 8. mars, á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, var opnuð sýningin Mannát og femínismi: Skessur sem éta karla á Amtsbókasafninu á Akureyri. Sýningin mun standa út apríl. Sama dag flutti Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðingur af Ströndum fyrirlestur um sama efni.

Veggspjaldasýningin er samstarfsverkefni Dagrúnar við Rannsóknasetur HÍ á Ströndum og Rósu Þorsteinsdóttur á Stofnun Árna Magnússonar. Teikningar á sýningunni eru eftir unga listakonu úr Strandabyggð, Sunnevu Guðrúnu Þórðardóttur.
  

Soooo! How do you like Iceland?

Eitt af því sem nemendur á námskeiðinu Hagnýt þjóðfræði tóku sér fyrir hendur þegar þeir dvöldu á Ströndum í verkefnavikunni sinni, var að halda opið málþing. Það bar yfirskriftina: Soooo, how do you like Iceland? Málþing um ferðamál og þjóðfræði, og var haldið þriðjudaginn 26. febrúar á Galdrasýningunni á Hólmavík. Flutt voru 10 stutt og snörp erindi, auk þess sem pláss var fyrir umræður og gómsæta galdrasúpu. Dagskráin hljóðaði svo:

  • Ragnhildur Sara Arnarsdóttir: Þetta er klárlega túristi! Klæðnaður ferðamanna á Íslandi
  • Katrín Snorradóttir: "A great local experience." Aðdráttarafl sundlauga á Íslandi í augum erlendra ferðamanna
  • Friðjón Elli Hafliðason: Ævintýri á gönguför – Lifandi ferðalag
  • Sandra Björg Ernudóttir: "I remember getting out of the plane and I felt like it was home": Vestur-Íslendingar kynnast rótum sínum
  • Eyjólfur Eyjólfsson; Fjölmenningarlegir snertifletir í ferðaþjónustu
  • Fjóla K. Guðmundsdóttir; Á brott með víkingum – um víkingaslóðir í ferðamennsku
  • Hjördís Björk Hjartardóttir: Það er list að leika sér, leikum okkur með list!
  • Atli Karl Pálmason: Tónlistahátíðir sem toga í ferðamenn
  • Sara Karen Þórisdóttir: 7 staðreyndir um norðurljós
  • Ríkey Guðmundsdóttir Eydal: Aðdráttarafl myrkursins

Það voru Þjóðfræði við Háskóla Íslands, Félag þjóðfræðinga á Íslandi, Fjölmóður - fróðskaparfélag á Ströndum, Galdrasýning á Ströndum og Rannsóknasetur HÍ á Ströndum - Þjóðfræðistofa sem stóðu sameiginlega fyrir málþinginu!
 

Skessur sem éta karla (á Ísafirði)!

Sýningin Skessur sem éta karla! var opnuð í sal Listasafns Ísafjarðar í Safnahúsinu laugardaginn 2. febrúar kl. 14:00. Í tilefni opnunarinnar hélt Dagrún Ósk Jónsdóttir erindi um mannát í íslenskum þjóðsögum. Mannát birtist einkum í íslenskum tröllasögum, þar sem átök kynjanna leika stórt hlutverk. Þar segir oftast frá tröllskessum sem leggja sér karlmenn til munns og velta má fyrir sér hvað sagnirnar geta sagt okkur um samfélagið sem þær tilheyrðu. Í rannsóknum sínum fléttar Dagrún Ósk saman þjóðsögunum og nýrri hugmyndum um femínisma. Niðurstöður sínar setur hún fram á veggspjöldum, í samstarfi við listakonuna Sunnevu Guðrúnu Þórðardóttur sem teiknaði myndir fyrir sýninguna.

Samstarfsaðilar Dagrúnar við verkefnið voru Jón Jónsson hjá Rannsóknasetri HÍ á Ströndum og Rósa Þorsteinsdóttir hjá Stofnun Árna Magnússonar.
  

Uppskeruhátíð Rannsóknaseturs HÍ á Ströndum

Haldin var uppskeruhátíð Rannsóknasetursins í Hnyðju á Hólmavík þann 31. janúar. Á dagskránni var almennur fögnuður vegna árangurs ársins 2018, auk þess sem var opið hús og sagt frá verkefnum og því sem framundan er í starfinu. Jón Jónsson og Dagrún Ósk Jónsdóttir sögðu frá verkefnum. Boðið upp á kaffi, súkkulaði og kleinur.
 

Troðfullt hús á fyrirlestri í Borgarbókasafninu

Troðfullt hús var á Flakkarakaffi á Borgarbókasafninu í Spönginni þann 28. janúar. Fyrirlestrarsalurinn dugði ekki fyrir mannfjöldann og safnið sjálft var lagt undir uppákomuna. Jón Jónsson þjóðfræðingur fjallaði um förufólk fyrr á öldum á Íslandi, fólk sem flakkaði um landið og fékk húsaskjól hjá bændum. Sérstaða þessa jaðarsetta hóps var tekin til skoðunar og fjallað um sögurnar sem voru sagðar um flakkarana og viðhorfin til þeirra. Oft líkist förufólkið meira þjóðtrúarverum en manneskjum í sögum um það og áhugavert er að skoða lífshlaup einstaklinga í hópnum nánar. Nýlega kom út bók eftir Jón um efnið: Á mörkum mennskunnar.
 

Vetrarsól á Ströndum 

Vetrarsól á Ströndum er vetrarhátíð sem haldin var á Ströndum í janúar 2019 og Rannsóknasetrið tók virkan þátt í. Framlag setursins var m.a. Tröllafyrirlestur í Hnyðju þar sem sýningin Skessur sem éta karla! var uppi og leiðsögn í sögugöngu um Hólmavík. Einnig innlegg um stórlygasögur fyrri alda á viðburðinum Bábiljur og bögur í baðstofunni á Sauðfjársetrinu í Sævangi. Þetta var skemmtileg hátíð sem setti svip á mannlíf og menningu á Hólmavík í janúar!
  

Námskeiðið Hagnýt þjóðfræði

Námskeiðið Hagnýt þjóðfræði við námsbraut í þjóðfræði við HÍ er nú kennt í annað sinn af Jóni Jónssyni þjóðfræðingi á vormisseri 2019, en það var einnig kennt vorið 2018. Tíu nemendur eru skráðir í námskeiðið að þessu sinni, en það er tíu einingar og er kennt á meistarastigi. Nemendum á lokaári í BA-námi er einnig heimilt að taka námskeiðið.
    

Hvítabirnir á villigötum  

Eitt af þeim mögnuðu rannsóknarverkefnum sem Rannís styrkir á árinu 2019 er verkefni um hvítabirni á villigötum. Bryndís Snæbjörnsdóttir hjá Listaháskóla Íslands er í forsvari fyrir verkefnið. Rannsóknasetur HÍ á Ströndum er einn af samstarfsaðilum í þessu verkefni og einnig námsbraut í þjóðfræði við HÍ. Það verður spennandi að sjá hvað kemur út úr þessu verkefni á næstu árum.
  

Vestfirska þjóðtrúarvefjan

Í árslok 2018 fékkst jákvætt svar frá Uppbyggingarsjóði Vestfjarða við beiðni um framlag til verkefnisins Vestfirska þjóðtrúarvefjan. Þar er um að ræða viðamikið samstarfsverkefni ungra þjóðfræðinga sem búsettir eru á Vestfjörðum og safna, setra og sýninga í fjórðungnum. Uppbyggingarsjóður fær bestu þakkir fyrir mikilvægt framlag sitt til verkefnisins. 

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is