Styrkur til Rannsóknaseturs HÍ á Norðurlandi vestra til að koma upp gagnagrunni sáttanefndabóka

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra úthlutaði nýlega styrkjum vegna fjarvinnslustöðva. Valnefnd um samkeppnisframlög úr stefnumótandi byggðaáætlun 2018-2024 bárust 16 umsóknir sem sóttu samtals um 180 m.kr. en 30 m.kr. voru til úthlutunar. 

Fjögur verkefni voru styrkt og hlaut Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra eitt þeirra. Verkefnið snýst um gerð gagnagrunns sáttanefndabóka. Gjörðabækur sáttanefndar verða myndaðar og komið á stafrænt, veflægt form ásamt því að útbúinn verður leitarbær veflægur gagnagrunnur um innihald bókanna. 

Verkefninu er stýrt af Vilhelm Vilhelmssyni, forstöðumanni Rannsóknaseturs HÍ, á Norðurlandi vestra, og fékk verkefnið 9 m.kr. styrk með möguleika á að sækja áfram um fjárveitingar til verkefnisins sem skipulagt er til fimm ára.

Sáttanefndir voru settar á fót í danska konungsríkinu og þar með á Íslandi á árunum 1795-1787 og störfuðu þær langt fram á 20. öld. Hlutverk þeirra var að miðla málum og leita sátta í minniháttar misklíðarefnum á milli manna og létta þar með undir með störfum héraðsdómara. Nefndirnar höfðu ekki dómsvald. Sáttanefndir voru töluverð réttarbót fyrir alþýðufólk sem þurfti síður að leggja í kostnaðarsaman og tímafrekan málarekstur hjá sýslumanni. Í bókum sáttanefnda er að finna margvíslegar upplýsingar um líf og hagi alþýðufólks á Íslandi á 19. öld. Bækurnar veita því merkilega innsýn í íslenska alþýðumenningu fyrr á tíð. 

Nánari upplýsingar um verkefnið veitir Vilhelm Vilhelmsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ á Norðurlandi vestra. 

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Ströndum - Þjóðfræðistofa, fékk einnig styrk úr sama sjóði til söfnunar upplýsinga og skráningar menningararfs. 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is