Vilhelm Vilhelmsson ráðinn forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ á Norðurlandi vestra

Vilhelm Vilhelmsson sagnfræðingur hefur verið ráðinn forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra. Í nóvember sl. var auglýst til umsóknar starf forstöðumanns rannsóknasetursins með áherslu á sagnfræði. Tvær umsóknir bárust um starfið. Að loknu dómnefnar- og valnefndarferli var Vilhelm ráðinn forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ á Norðurlandi vestra frá 1. febrúar.

Vilhelm lauk doktorsprófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands 2015, en áður hafði hann lokið BA prófi í sagnfræði frá Kaupmannahafnarháskóla (2009) og meistaraprófi frá Háskóla Íslands (2011). Vilhelm hefur sérhæft sig í rannsóknum á félagssögu, verkalýðssögu og sögu alþýðunnar, þó rannsóknasvið hans sé víðara. Doktorsritgerð hans bar heitið: „Sjálfstætt fólk? Vald og andóf á Íslandi á tímum vistarbands.“

Vilhelm hefur sinnt rannsóknum  sem sjálfstætt starfandi fræðimaður undanfarin ár og komið að margvíslegum verkefnum, m.a. kennslu við Háskóla Íslands. Eftir hann hafa komið út tvær ritrýndar bækur, „Sakir útkljáðar. Sáttabók Miðfjarðarumdæmis í Húnavatnssýslu 1799-1865, gefin út af Háskólatútgáfunni og Sjálfstætt fólk. Vistarband og íslenskt samfélag, gefin út af Sögufélaginu. Var Vilhelm tilnefndur til íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðirita fyrir þá bók.

Þá hefur Vilhelm birt ritrýndar greinar, skrifað bókarkafla, aðrar greinar og  ritdóma, og haldið fyrirlestra. Vilhelm hefur einnig komið að fjölmörgum verkefnum í samvinnu við aðrar aðila og stofnanir, eins og gerð ljósmynda- og sögusýningar, gerð sagnfræðilegs efnis fyrir ferðaþjónustu og ráðstefnuhaldi.

Vilhelm sat í stjórn Sagnfræðingafélagi Íslands 2012 til 2017 og gegndi þar formennsku 2015 til 2017. Þá er Vilhelm annar tveggja ritstjóra Sögu, tímarits Sögufélagsins.

Rannsóknasetur HÍ á Norðurlandi vestra var stofnað 2009  og er eitt rannsóknasetra Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands. Megináhersla þess í rannsóknum er sagnfræði. Starfsstöð setursins er á Skagaströnd.

Starfsfólk Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands býður Vilhelm hjartanlega velkominn til starfa. 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is